Skollakoppur Afli á dekki eftir að togað hafði verið vestanmegin í Viðfirði.
Skollakoppur Afli á dekki eftir að togað hafði verið vestanmegin í Viðfirði. — Ljósmynd/Heimir Sigurður Karlsson
Skollakoppar eða ígulker fundust á 90% stöðva í leit að mögulegum miðum í Norðfjarðarflóa og Mjóafirði síðasta vor.

Skollakoppar eða ígulker fundust á 90% stöðva í leit að mögulegum miðum í Norðfjarðarflóa og Mjóafirði síðasta vor. „Niðurstöður könnunarinnar leiddu í ljós að nýtanleg ígulkeramið eru á svæðinu, sérstaklega í Hellisfirði og Viðfirði,“ segir m.a. í skýrslu Hafrannsóknastofnunar um verkefnið.

Aflinn var 15-200 kíló í togi, en togað var á tíu stöðvum. Meðalstærð var yfir löndunarstærð á öllum stöðvum þar sem skollakoppur veiddist. Yfirleitt var aflinn nokkuð hreinn og lítill meðafli.

Útgerðarfélagið Emel ehf. í Neskaupstað stóð fyrir leiðangrinum og var bátur þeirra, Eyji NK-4, notaður við könnunina. Um borð var veiðieftirlitsmaður, sem sá um sýnatökur, myndatökur og skráningu.

Ígulkerið skollakoppur eða grænígull mun vera eina ígulkerategundin við Ísland sem hefur verið nýtt. Tilraunaveiðar hófust, þá stundaðar af köfurum, árið 1984 á nokkrum stöðum við landið en lögðust af 1988. Árið 1993 hófust veiðar að nýju við landið, en þá voru notaðir plógar við veiðarnar. Hámark landaðs afla var 1.500 tonn árið 1994 og voru veiðarnar stundaðar fram til 1998 þegar markaðir hrundu. 2004 hófust plógveiðar að nýju í innanverðum Breiðafirði en litlu var landað þar til árið 2007 er aflinn var 134 tonn.

Síðan þá hefur aflinn aukist og mest verið veitt í Breiðafirði en sl. ár hefur einnig verið veitt í Húnaflóa og Reyðarfirði, segir í skýrslu Hafrannsóknastofnunar.