Beirút Sex létust í skærunum.
Beirút Sex létust í skærunum. — AFP
Sex létu lífið og fjöldi annarra særðist í Beirút, höfuðborg Líbanons, í gær þegar skærur brutust út í kjölfar fjölmennra mótmæla stuðningsmanna Hisbollah-samtakanna í borginni.

Sex létu lífið og fjöldi annarra særðist í Beirút, höfuðborg Líbanons, í gær þegar skærur brutust út í kjölfar fjölmennra mótmæla stuðningsmanna Hisbollah-samtakanna í borginni. Efnt var til mótmælanna vegna óánægju með störf dómarans Tarek Bitar, en hann rannsakar nú sprenginguna miklu í ágúst í fyrra, sem felldi rúmlega 210 manns og eyðilagði stóra hluta höfuðborgarinnar. Hafði Bitar nýlega kallað eftir því að háttsettir embættismenn sem tengjast samtökunum yrðu færðir til yfirheyrslu vegna málsins.

Líbanski herinn staðsetti skriðdreka og hermenn á götum Beirút og þótti það minna á borgarastríðið sem geisaði í landinu frá 1975-1990. Samkvæmt fréttum frá AFP hófust óeirðirnar þegar leyniskyttur hófu skothríð á mótmælendur, og svöruðu þeir fyrir sig með rifflum og handsprengjum. Stóðu skærurnar yfir í rúmlega þrjár klukkustundir.

Michel Aoun, forseti Líbanons, kallaði eftir stillingu í sjónvarpsávarpi. „Vopn geta ekki aftur orðið að samskiptatæki líbanskra stjórnmálaflokka, því við samþykktum öll að setja strik undir þennan dimma kafla í sögu okkar,“ sagði Aoun.

Bætti hann við að forystumenn flokkanna væru að ræða saman um lausn á vandanum.

Níu handteknir

Í tilkynningu hersins kom fram að hann hefði verið kallaður á vettvang eftir að skothríð hófst í nágrenni mótmælanna. Hefði herinn farið hús úr húsi til að leita þeirra sem hófu skothríðina og handtekið níu manns. Þar af var einn með sýrlenskt ríkisfang.