Þetta er gátan mikla, – Eyjólfur Ó. Eyjólfsson yrkir á Boðnarmiði: Þá frægu svo mikils ég met og margan á goðstallinn set en mest þó þann snjalla sem ærði hér alla og engin man lengur hvað hét.

Þetta er gátan mikla, – Eyjólfur Ó. Eyjólfsson yrkir á Boðnarmiði:

Þá frægu svo mikils ég met

og margan á goðstallinn set

en mest þó þann snjalla

sem ærði hér alla

og engin man lengur hvað hét.

Ármann Þorgrímsson spáir í veðrið;

Skuggar lengjast, lækkar sól

lægðir yfir fara

verður lítið vetrar skjól

veðrin harðna bara.

Ólafur Stefánsson skrifar og kallar „Vellíðunarhormón“: „Skáld er ég ei,“ sagði Jónas, og Steinn tók það upp eftir honum. Svo er líka sagt að margur sé skáld þótt hann yrki ekki.

Hvað sem um það er, þá fær margur maðurinn eitthvað út úr því að reyna að forma hugsanir sínar svo úr verði eitthvað annað en daglegt mál. Margur kallaður, auðvitað.

Það er heilmikið hormónaflæði,

hrifning og fullnægja bæði,

er kveðirðu ljóð,

– kannski' ekki góð,

en nothæf á næstlægu svæði.

Anton Helgi Jónsson yrkir limruna „Geimferðalimra dagsins í boði kafteinsins Kirk“. Hún er undir mynd af fjórmenningum og yfirskriftin er „Vandræði í könnunarleiðangri“:

Jú, flest virðist Kringlunni flott í

og framboðið verslunum gott í

en blankheit mig hrjá

ég biðja þig má

að bíma mig upp, kæri Scotty.

Mér þykir þetta góð limra, þótt ég kannist ekki við né skilji orðasambandið „að bíma upp“.

Guðmundur Stefánsson skrifar: „Hlustaði (1995) um stund á ræður á Búnaðarþingi, sem þá mun hafa staðið í viku. Ræðumaður einn sagði að „þann akur þyrfti að kemba“. Þá varð þetta til“:

Hér er ekki í vinnu vægð,

verkin áfram ganga.

Akur kembdur, ullin plægð

eina viku stranga.

Um kaldlyndan karl og önugan orti ung stúlka, H.J.:

Þána myndi þankinn minn,

þótt hann væri freðinn,

yndi ég ástarylinn þinn,

yndislegi Héðinn!

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is