Lykkevej Frábært fólk í óvæntum aðstæðum.
Lykkevej Frábært fólk í óvæntum aðstæðum.
Skefjalaust ofbeldi, aflimanir, blóðslettur og mannvonska í sinni verstu mynd gerir ekkert fyrir mig. Þess vegna forðast ég að horfa á sjónvarpsþætti sem hverfast í kringum slíkt gor.

Skefjalaust ofbeldi, aflimanir, blóðslettur og mannvonska í sinni verstu mynd gerir ekkert fyrir mig. Þess vegna forðast ég að horfa á sjónvarpsþætti sem hverfast í kringum slíkt gor. Ég reyni þess í stað að hafa uppi á þáttum sem láta mér líða tiltölulega vel. Auðvitað má vera svolítið drama, rétt eins og í lífinu sjálfu, en það þarf að vera áhugavert, og góður húmor er alveg ómissandi í öllu sjónvarpsefni. Þegar ég flakka um á streymisveitunni Netflix, slæ ég gjarnan inn leitarorðið Scandinavian, til að finna norrænt efni. Ég nýt þess að horfa á danska þætti, sænska eða norska, þó ekki sé nema fyrir ánægjuna að hlusta á tungumálin fögru. Auk þess er norrænt sjónvarpsefni gjarnan gæðastöff, sjáið bara Borgen, Broen, Forbrydelsen, Anna Phil og fleiri og fleiri. Norrænar kvikmyndir eru margar á Netflix og um daginn datt ég þar í lukkupottinn. Lykkevej heitir ræman sú og er sannarlega mynd sem lætur áhorfanda líða vel og skemmta sér vel. Hún er frá 2003 og ég hafði séð hana áður fyrir margt löngu, en mikið óskaplega var gaman að fylgjast með miðaldra Söru sem í framhaldi af framhjáhaldi eiginmanns flytur á Lukkuveg. Þar kennir ýmissa skemmtilegra grasa í mannlífsflóru. Þetta er notalegt drama með húmor og úrvalsleik. Danskt eðalstöff sem óhætt er að mæla með.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir