Stefna meirihlutans í Reykjavík er ógn við verðstöðugleika og kjör almennings

Stefna meirihlutans í Reykjavík í skipulags- og byggingarmálum og stefnir í að verða eitt erfiðasta viðfangsefnið í efnahagsmálum á komandi misserum. Þetta virðast flestir utan meirihlutans orðnir sammála um og má segja að ástandið sé orðið töluvert áhyggjuefni þegar seðlabankastjóri þarf að stíga fram og benda á að í óefni stefni. Í athyglisverðu viðtali við ViðskiptaMoggann í vikunni benti seðlabankastjóri á að ekki væri verið að brjóta nýtt land á höfuðborgarsvæðinu undir húsnæði og það sé að valda vanda. Um leið nefndi hann að ekki þyrfti að keyra lengi um bæinn til að sjá að plássið er nægt. Þá benti hann á að skortur á innviðafjárfestingum í Reykjavík væri að koma niður á okkur núna og valda hækkunum á húsnæðismarkaðnum.

Verðhækkanir á húsnæðismarkaðnum hafa ýtt undir verðbólgu – eru raunar helsta skýring hennar nú um stundir – en seðlabankastjóri segir fleiri hættur fylgja miklum hækkunum húsnæðisverðs. „Þessar hækkanir búa til eigið fé sem fólk notar til að gíra sig upp. Kaupa hlutabréf, sumarbústaði eða eitthvað allt annað. Þannig getur fasteignamarkaðurinn, óháð framboði og eftirspurn, virkað sem eins konar þensluvél fyrir hagkerfið.“

Seðlabankastjóri hefur einnig áhyggjur af komandi kjarasamningum og bendir á að launaþróun hér geti ekki verið úr takti við það sem þekkist erlendis. Gerist það komi það fram í verðbólgu, sem er ástand sem Íslendingar þekkja vel frá fyrri tíð og ættu ekki að vilja endurtaka.

Þá setur hann fram hugmynd sem sjálfsagt er fyrir stjórnvöld, bæði hjá ríki og sveit, og aðila vinnumarkaðarins að íhuga vandlega. Hann segir ákveðna möguleika á vinnumarkaðnum, „að í stað þess að hækka launin þá verði ráðist í stórfellda uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Rétt eins og gert var þegar Breiðholtið byggðist upp.“

Á nýliðnum árum hafa kjarabætur hér á landi verið gríðarlegar og nánast án fordæma, hvort sem er hér á landi fyrr á árum eða í öðrum löndum á liðnum árum. Engu að síður láta talsmenn verkalýðshreyfingarinnar stundum enn eins og ekkert hafi gerst og að mikið svigrúm sé til frekari hækkana. Slagorðið „Það er nóg til“ sem Alþýðusambandið hamraði á fyrir tugi milljóna króna fyrir kosningar var liður í þessu. Öllum má ljóst vera, og þarf ekki annað en vísa í fyrrnefnd orð seðlabankastjóra um samhengi launa hér og erlendis, að svona getur þetta ekki gengið áfram. En kjörin má bæta með öðru en aðeins því að fjölga krónum í launaumslaginu. Og þau batna vitaskuld ekki ef ástandið verður þannig að verðbólgan étur upp alla viðbótina, og jafnvel rúmlega það eins og gerðist hér á landi áður fyrr. Nú þarf að beita skynsemi til að verja fengnar kjarabæturnar og sækja frekari kjarabætur í öðru formi. Hugmynd seðlabankastjóra um að ráðast í stórfellda uppbyggingu íbúðahúsnæðis getur verið þýðingarmikið framlag í þessu efni.

Og hugmyndin hefur þann kost að vera vel framkvæmanleg, enda er nægt rými í Reykjavík til að brjóta nýtt land undir byggingar sem geta risið hratt og á hagstæðu verði. Í því sambandi má til dæmis vísa í orð Eyþórs Arnalds, oddvita sjálfstæðismanna í borgarstjórn, í Morgunblaðinu í gær, sem benti á svæði í borginni þar sem auðvelt væri að byggja: „Ég get nefnt Úlfarsárdalinn sem dæmi. Þar átti að vera 20 þúsund manna byggð en hún var skorin niður um helming. Síðan var sett sérstakt ákvæði í lífskjarasamninginn um Keldnalandið og Keldnaholtið, sem ekki hefur verið staðið við af hálfu borgarinnar. Þessar ákvarðanir borgarinnar, að fella burt tíu þúsund manna byggð og standa ekki við það sem sett var inn í lífskjarasamninginn um Keldur, en þar ætlar borgin ekki að byggja fyrr en 2033 eða síðar, hafa einar og sér haft gríðarleg áhrif á fasteignamarkaðinn.“

Þá nefndi hann BSÍ-reitinn, Örfirisey, Geldinganes og Kjalarnes, sem sýnir glöggt að verði vilji til þess hjá meirihlutanum í Reykjavík er ekkert því til fyrirstöðu að hrinda hugmyndum um stórfellda uppbyggingu í framkvæmd. Með því mætti ekki aðeins leysa húsnæðisvandann í Reykjavík, heldur líka slá á verðbólgu, efla fjármálastöðugleika og bæta kjör alls almennings. En þetta krefst stefnubreytingar í Reykjavík, sem kallar annaðhvort á breytt viðhorf hjá núverandi meirihlutaflokkum eða breyttan meirihluta.