[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
*Nancy náði í mikilvæg stig í efstu deild franska handboltans í gær þegar liðið vann Cessen Rennes 27:25 á heimavelli. Mosfellingurinn Elvar Ásgeirsson var mikilvægur fyrir Nancy og skoraði sex mörk í leiknum en liðið er í 13.

*Nancy náði í mikilvæg stig í efstu deild franska handboltans í gær þegar liðið vann Cessen Rennes 27:25 á heimavelli. Mosfellingurinn Elvar Ásgeirsson var mikilvægur fyrir Nancy og skoraði sex mörk í leiknum en liðið er í 13. sæti af sextán liðum með 4 stig eftir sex leiki. Aix, lið Kristjáns Arnar Kristjánssonar , er í fínum málum með 9 stig í 2. sæti.

*Kadetten Schaffhausen hefur ekki tapað deildarleik á keppnistímabilinu í efstu deild karla í svissneska handboltanum. Kadetten er undir stjórn Aðalsteins Eyjólfssonar og vann í gær St. Otmar/St. Gallen 25:18. Var það áttundi leikur Kadetten í deildinni og hafa þeir allir unnist. Liðið er því með 16 stig og 61 mark í plús.

Kadetten komst einnig í riðlakeppni Evrópudeildarinnar með því að slá út spænska liðið Granollers en keppni í riðlinum er ekki hafin.

* Magnea Guðlaugsdóttir er aftur tekin við kvennaliði ÍA í knattspyrnu. Frá þessu var greint í gær en Magnea stýrði ÍA á árunum 2013 og 2014. ÍA leikur í 2. deild, þeirri þriðju efstu á Íslandsmótinu, á næsta tímabili eftir fall úr næstefstu deild í sumar.

*Nýsjálenska landsliðskonan Betsy Doon Hassett hefur skrifað undir nýjan samning við knattspyrnudeild Stjörnunnar og gildir samningurinn út keppnistímabilið 2023. Hassett, sem er 31 árs gömul, hefur spilað hér á landi frá miðju sumri 2017 er hún gekk í raðir KR. Hún lék með Vesturbæingum út tímabilið 2019 og gekk að því loknu til liðs við Stjörnuna.

*Alex Ovechkin , einn vinsælasti íþróttamaður Rússa, er orðinn fimmti markahæsti leikmaður NHL-deildarinnar í íshokkí frá upphafi. Keppnistímabilið í NHL hófst aðfaranótt fimmtudags og Ovechkin skoraði tvívegis í 5:1 stórsigri Washington Capitals á New York Rangers í höfuðborginni. Ovechkin hefur þá skorað 732 mörk í deildinni en hann er 36 ára gamall og hefur leikið í deildinni frá árinu 2004.

Efstur á listanum er kanadíska goðsögnin Wayne Gretzky sem skoraði 894 mörk í 1.487 leikjum en Ovechkin hefur leikið 1.198 leiki.