Grétar Ottó Róbertsson fæddist í Reykjavík 22. janúar 1953. Hann lést á gjörgæsludeild Landspítalans 2. október 2021. Foreldrar hans voru hjónin Róbert Abraham Ottósson hljómsveitarstjóri og söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, f. 17.5. 1912, d. 10.3. 1974, og Guðríður Magnúsdóttir kennari, f. 9.6. 1918, d. 8.3. 1990.

Eiginkona Grétars er Elín Þorgerður Ólafsdóttir læknir, f. 30.7. 1953. Dætur þeirra eru: 1) Ásdís Lovísa kennari, f. 10.11. 1970, gift Kjartani Jóhannssyni, f. 30.12. 1970. Synir þeirra eru Tumi, f. 29.11. 1996, Troels Andri, f. 9.1. 1998, og Teitur, f. 4.3. 2003. 2) Guðríður Anna læknir, f. 12.11. 1984, í sambúð með Sindra Hans Guðmundssyni, f. 29.6. 1982. Dóttir þeirra er Elín Ebba, f. 1.12. 2017. 3) Heiður taugavísindafræðingur, f. 3.12. 1987, í sambúð með Sveinbirni Þórðarsyni, f. 31.12. 1981.

Grétar lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1973 og læknanámi frá Háskólanum í Árósum árið 1982. Eftir að hafa starfað á Íslandi í nokkur ár flutti hann með fjölskyldu sinni til Svíþjóðar þar sem hann fór í framhaldsnám og lauk sérfræðinámi í bæklunarskurðlækningum árið 1989. Grétar hóf störf við Háskólasjúkrahúsið í Lundi árið 1990 og fljótlega eftir það hóf hann störf við sænsku hnégerviliðaskrána (SKAR). Hann stjórnaði þeirri starfsemi frá árinu 1996 í um það bil 25 ár. Grétar lauk doktorsprófi frá Háskólanum í Lundi árið 2000. Eftir hann liggja ríflega 120 fræðigreinar sem birst hafa í alþjóðlegum fræðiritum. Hann var einnig tíður fyrirlesari á ráðstefnum um allan heim, átti þátt í allmörgum doktorsverkefnum og hefur hlotið ýmsar alþjóðlegar viðurkenningar fyrir störf sín í gegnum árin.

Árið 2000 flutti fjölskyldan til Íslands og hóf Grétar þá störf á bæklunarskurðdeild Landspítalans auk þess að sinna áfram störfum sínum í Lundi.

Útför Grétars fer fram frá Neskirkju í dag, 15. október 2021, klukkan 15.

Við systkinin og Tumi frændi vorum leikfélagar frá fyrstu bernskuárum. Uppáhaldsleikurinn var bófahasar. Þar fór Tumi mikinn og átti allar græjur, byssur og byssubelti. Stólum var snarlega breytt í fótfráa hesta og við geystumst um sléttur Ameríku á eftir bófum eða börðumst við indíána. Svo barst leikurinn út í garð á Langholtsvegi 54, upp á bílskúrsþak og í næstu garða. Þrjúbíó á sunnudögum, Roy Rogers uppáhalds. Um allar hátíðir voru fjölskyldur okkar saman, í jólaboðum, um áramót, páska. Móðurafi okkar og amma bjuggu á Hjarðarhaga 29 meðan þau lifðu og voru að sjálfsögðu ætíð með. Gælunafnið Tumi var frá Róbert komið og tengdist ærslabelgnum Tuma: „Strákurinn Tumi“ Nafnið festist svo kirfilega við hann að hann var aldrei annað en Tumi í fjölskyldunni, líka meðal skólafélaga og vina alla tíð.

Árin liðu og Tumi varð virðulegur læknir, sérfræðingur í skurðlækningum, doktor í sinni grein, varla lengur við hæfi að kalla hann Tuma. En hann kunni að gera grín að sjálfum sér: Sem unglæknir hefði hann vitað lítið um ótalmargt, sem doktor vissi hann gríðarlega mikið um aðeins eitt: hné. Hann var skemmtilegur maður, fyndinn svo af bar. Hann var dr. Otto Robertsson í Lundi, þar sem hann starfaði sem sérfræðingur um langt árabil. Var ómissandi maður þar, enda gúrú í öllu sem viðkom tölvurannsóknum á sínu sviði. Til hans leituðu allir, ef það var eitthvað sem snerti tölvutækni. Hann var líka skurðlæknir á Íslandi um áratuga skeið, í hálfu starfi á móti starfinu í Lundi lengi vel. Þau eru ófá hér á landi sem fengu nýja stoðliði hjá Grétari Ottó og nýtt líf þar með.

Hann nam læknisfræði í Danmörku, í sérfræðinámi og síðan doktorsnámi í Svíþjóð. Hann naut mikillar virðingar á sínu sviði og ferðaðist vítt og breitt um heim, oft til Bandaríkjanna, að halda fyrirlestra á ráðstefnum, enda vinsæll fyrirlesari, húmorinn ætíð með í för. Fyrir fáum árum skipulagði hann slíka ráðstefnu hér á landi, þótt hann hefði þá nýlega orðið fyrir alvarlegu áfalli heilsufarslega. Hann var ótrúlega kjarkmikill maður og harður af sér, enda klóruðu kollegar hans sér í kollinum yfir því, hvernig hann reis upp úr alvarlegum veikindum, sem lagt hefðu flesta að velli.

Hann hét Ottó eftir afa sínum, sem var virtur læknir í Berlín uns nasistar lögðu ævistarf hans í rúst, Grétar eftir afasystur sinni, ætíð kölluð tante Grete, sem bjó á Bornholm, heitt elskuð af fjölskyldu Róberts. Fjölskyldan flúði Þýskaland í uppgangi nasista, að hluta til Bandaríkjanna, Róbert til Íslands sem kunnugt er.

Okkur finnst stundum sem Tumi hafi átt von á dauða sínum frá 62 ára aldri, en það var aldur Róberts þegar hann lést úr hjartaáfalli árið 1974. Að hann hafi litið á hvern dag eftir það sem gjöf. Þannig lifði hann æðrulaus og glaður þrátt fyrir veikindaáföll sín. Eftir andlát Guðríðar 1990 urðu þau mamma nánari, sem sýndi sig best í veikindum hennar 2013. Þann stuðning fáum við seint fullþakkað. Elsku Ella og dætur, hugurinn er hjá ykkur. Far vel elsku Tumi. Við erum rík að hafa átt þig að.

Jón og Kristín.

Öðlingur og góður vinur er kvaddur í dag. Fyrir 17 árum hékk líf Tuma á bláþræði en vegna framfara í læknavísindum og fimra skurðhanda gerðist kraftaverk. Þau áttu síðan eftir að verða fleiri, en nú voru örlögin ekki umflúin. Hann kvaddi umkringdur sínum nánustu.

Á unglingsárum Tuma í Vesturbænum fór orð af honum fyrir uppátækjasemi og töffaraskap sem yngri guttar báru óttablandna virðingu fyrir. Þá sáu ekki allir fyrir sér að í framtíðinni yrði sá hinn sami farsæll bæklunarlæknir og vísindamaður. Hvað þá eftirsóttur fyrirlesari um allan heim. En pilturinn var skarpgreindur, leiðin lá í MR þar sem hann kynntist stóru ástinni í lífi sínu og lífsförunauti, henni Ellu. Þau áttu vel saman enda lík á margan hátt. Ástin bar fljótt ávöxt og 17 ára gömul eignuðust þau frumburðinn, Ásdísi. Þau voru samstíga í framtíðarplönum og baklandið gott. Alllöngu síðar bættust við í fjölskylduna Guðríður Anna og Heiður.

Í útliti var Tumi fremur lágvaxinn, hægur í fasi og yfirlætislaus. Hann hafði skarpan augnsvip en bros virtist jafnan leika um varir hans sem gerði hann viðmótshlýjan. Hann hafði einkennandi lágstemmdan hlátur. Hann var ekki sjálfhælinn þótt full ástæða væri til sem læknir í fararbroddi á sínu sviði með yfirburðaþekkingu á sænska gervihnés-gagnagrunninum sem hann sá um í fjölda ára.

Tumi var mikill húmoristi og gáskinn aldrei langt undan. Hann gat líka hlegið að sjálfum sér. Frásagnargáfan áreynslulaus og glettin þótt efniviðurinn væri stundum alvarlegur. Margar samverustundir jöfnuðust á við besta uppistand. Hann var orðheppinn sem nýttist honum vel í gamanvísnagerð sem hann átti auðvelt með og vinir fengu að njóta og þiggja við hin ýmsu tilefni. Tumi var dellukarl og þeir Binni, „fóstbróðir“ og kollegi, kepptust um að toppa hvor annan á ýmsum sviðum. Hann naut þess að gera vel við sig og aðra í mat og drykk, sjálfur var hann góður kokkur. Tuma þótti gaman að rökræða þegar lögfræðileg málefni bar á góma. Hann var fastur fyrir í skoðunum en sáttfús og leitaði lausna.

Tumi var einstakur mannvinur og mátti ekkert aumt sjá. Hann var einfaldlega gull af manni. Gæska hans náði einnig til ferfætlinga. Hann var greiðvikinn og margir nutu umhyggju hans og góðvildar. Vinsemd og stuðningur Tuma og Ellu var mér ómetanlegt á námstíma mínum í Lundi fyrir rúmum 20 árum og verður aldrei fullþakkað.

Við kveðjum Tuma með virðingu og þökk fyrir þrjátíu ára dýrmæta vináttu. Við sendum Ellu, Dísu, Önnu, Heiði og fjölskyldum þeirra okkar dýpstu samúðarkveðjur. Tumi gerði ekki bara heiminn betri heldur líka skemmtilegri. Hann verður í minnum hafður. Blessuð sé minning hans.

Ólöf og Stefán.

Með brotthvarfi Tuma er höggvið stórt skarð í vinahópinn. Leiðir okkar Tuma lágu snemma saman, árgangsbræður í barna- og gagnfræðaskóla og bekkjarbræður í menntaskóla. Við urðum einnig samferða á tímabili í læknanáminu og á sérnámsárum í Svíþjóð. Þau samrýndu hjón, Ella og Tumi, voru góð heim að sækja og þótt stundum liði langt á milli funda var sambandið alltaf eins og við hefðum hist í gær. Við áttum margar góðar stundir saman en dvöl okkar í Berlín fyrir tæpum áratug, þegar við héldum upp á stóramæli okkar saman, var þó hápunkturinn.

Tumi var ljúfur í umgengni, hafði ríka kímnigáfu og frásagnarlist sem gaf samverustundunum mikið gildi. Hann gat verið uppátektasamur og kom okkur félögunum oft á óvart með skemmtilegum uppákomum sem ekki gleymast. Gamansemi og jákvæðni litaði andrúmsloftið í kringum hann alla tíð.

Við Svava þökkum fyrir að hafa notið vináttu Tuma og Ellu í gegnum árin og yljum okkur við minningar um góðan vin. Hugurinn er hjá Ellu, dætrunum og fjölskyldum þeirra sem hafa misst góðan eiginmann og fjölskylduföður.

Sigurbjörn.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

Þetta erindi úr Hávamálum kom mér í hug þegar ég settist niður til þess að minnast vinar og starfsfélaga okkar, Tuma (Grétar Ottó Róbertsson).

Fyrstu minni um Tuma eru upp á lofti Íþöku í MR. Hann nýkominn frá eldgosinu í Vestmannaeyjum. Þarna sagði hann okkur frá ævintýrum sínum og félaga. Þeir höfðu laumast sem björgunarsveitamenn til Eyja og lent þar í miklum ævintýrum. Mér er svo minnisstætt hversu mikill sögumaður Tumi var.

Kynni okkar hófust síðan fyrir alvöru þegar Tumi hóf störf á bæklunarskurðdeild sjúkrahússins í Lundi í janúar 1990. Þar vorum við saman í herbergi næstu tvö árin. Ég naut þar gamansemi hans og vináttu. Tumi var þó ekki alltaf sammála þeim sem við hann ræddu. Hann hafði yndi af að segja nei til að koma á umræðu um það sem rætt var. Stundum voru yfirlæknar deildarinnar þreyttir á þessum Íslendingum, sem ekki voru leiðitamir. Bæklunarskurðdeildin í Lundi var síðan starfsvettvangur hans næstu 30 árin og tók hann fljótlega yfir skráningu á öllum gerviliðum í Svíþjóð (Svenska Knä). Enginn vissi meira um gervihné en Tumi. Hann birti ótal greinar um þetta efni í læknatímaritum og ferðir hans um heiminn til að halda fyrirlestra eru ótalmargar. Enginn Íslendingur hefur náð jafn miklum hróðri innan hóps gerviliðaskurðlækna og Tumi og hann var kjörinn til setu í The Knee Society, sem er selskapur útvalinna hnéskurðlækna í heiminum og var Tumi þar eini fulltrúi Norðurlanda.

Einnig var hann í stjórn Bæklunarlæknafélags Íslands og fulltrúi Íslendinga í Evrópusambandi bæklunarskurðlækna og í ritstjórn Acta Orthopaedica Scandinavica.

Tumi réð sig til starfa í hlutavinnu á bæklunarskurðdeild Landspítala 2001, jafnframt hélt hann áfram sem framkvæmdastjóri Svenska Knä-skráningarinnar.

Við Tumi áttum eftir að standa saman í aðgerðum næstu tvo áratugina, alltaf var stutt í gamansemina og oft glatt á hjalla í aðgerðunum. Hann hafði alltaf skoðun á hlutunum og naut þess að leiðbeina okkur um val á íhlutum við aðgerðir.

Við söknum góðs félaga og vinar. Sendum Ellu og dætrum okkar samúðarkveðjur.

Ríkarður Sigfússon bæklunarskurðlæknir.

Grétar Ottó Róbertsson, kær mikilsvirtur vinur okkar og samstarfsmaður, skilur eftir sig mikið tómarúm. Ottó starfaði um það bil helming fullorðinsára sinna í Lundi. Þar kynntumst við honum sem vísindalegum fullkomnunarsinna. Hann var einnig stórsnjall í rökræðum og skemmtikraftur með farteskið fullt af gleði og húmor. Hann forðaðist ávallt sviðsljósið og viðurkenningar. Ottó var sænska hnégerviliðaskráin. Í næstum 25 ár bar hann ábyrgð á þeirri starfsemi og greiningum sem settu Svíþjóð og skráningarrannsóknir á heimskortið. Gegnum það eignaðist hann og við hin marga vini um allan heim sem komu til Lundar til að læra. Ottó var örlátur vinur með stórt hjarta. Við söknum hans innilega. Hann fór of snemma frá okkur en það kallar fram stórt bros þegar við hugsum til baka um þær mörgu frábæru stundir sem við áttum saman.

Vinir og samstarfsmenn í Svíþjóð,

Lars Lidgren og Annette W-Dahl.

Félagi og vinur,

ég man þig.

Ég man þig,

í litbrigðum hversdagsins verka,

við grillið, súpupottinn og straujárnið á leiðinni út.

Ég man þig,

með þykka fingur bak við stækkunarglerið,

í stríði við ofurlitla skrúfu

flugvélamódelsins og lóðbolta.

Ég man þig,

gráan í vöngum og einbeittan,

í mjúkri birtu torfkofans

að taðreykja lax.

Ég man þig,

æðrulausan og svo dæmalaust glettinn,

enginn gat dregið fram brosið

á sama hátt og þú.

Ég man þig,

stóran í allri mannsins smæð,

ég hef þig úr skugga þess sem var

í ljós þess sem er

og minni þess sem verður.

Ég man þig.

Gestur Ólafsson,

Jóna Ólafsdóttir,

Óttar Ólafsson,

Yngvi Ólafsson.

Fallinn er frá góður vinur til fjölda ára, Grétar Ottó Róbertsson eða Tumi eins og hann var ávallt kallaður. Ég kynntist honum fyrst þegar ég kom úr sérnámi frá Svíþjóð 1985, hann vann þá sem aðstoðarlæknir á slysadeild Borgarspítalans. Við urðum strax góðir vinir og hefur aldrei brugðið skugga á þá vináttu síðan. Tumi flutti síðan til Svíþjóðar sjálfur og fór í sérnám í bæklunarlækningum, fyrst í Kristianstad og síðar í Lundi þar sem hann vann lengstum. Tumi var mikill vísindamaður og varði sína doktorsritgeð í Lundi. Hann starfaði lengstum við og stóð fyrir einni stærstu gerviliðaskráningu í heimi, „Svenska Knäregistered“, en í þeirri skráningu eru nú um 40 þúsund gerviliðir. Tumi vann fram á þetta ár hlutastarf í Svíþjóð og fór nýlega að pakka saman af skrifstofu sinni þar. Hann var góður fyrirlesari og flutti erindi á stórum ráðstefnum um allan heim, var í stjórnum félaga og stóð fyrir ráðstefnum. Nýlega var hann gerður að heiðursfélaga í Bæklunarlæknafélagi Íslands. Við áttum mikil samskipti og fórum saman á ráðstefnur og heimsóttum við hjónin þau Ellu og Tuma til Svíþjóðar. Eins áttum við góðar stundir hjá þeim í Arnarbæli í Grímsnesi en þar dvöldu þau Tumi og Ella kona hans ásamt börnum og banabörnum oft á tíðum. Hann var hrókur alls fagnaðar og kom manni alltaf í gott skap með spaugi sínu og gleði.

Ég sakna góðs vinar og megir þú hvíla í friði.

Við sendum Ellu, dætrum og fjölskyldum þeirra okkar hugheilustu samúðarkveðjur.

Stefán Carlsson og

Rannveig Ásbjörnsdóttir.

Mikill vinur og kollegi, Grétar Ottó, kallaður Tumi, er nú fallinn frá. Við kynntumst fyrst í Danmörku er við vorum þar við nám ásamt fjölskyldum okkar fyrir áratugum síðan. Margs er að minnast frá þeim tíma og samveru- og gleðistundirnar voru margar.

Nærvera Tuma var sérstaklega góð og upplífgandi. Hann var alltaf hress og kátur og stutt var í húmorinn. Hann var hvatvís, hafði ákveðnar skoðanir á öllum málum og lá ekki á þeim.

Tumi starfaði alla tíð bæði á Íslandi og í Svíþjóð að sinni sérgrein sem bæklunarskurðlæknir, vel metinn um allan heim og talinn í fremstu röð. Hann var mikill vísindamaður og í Svíþjóð var hann frumkvöðull í gerð gagnagrunna um gerviliði og eru þeir gagnagrunnar nú notaðir víða um heim. Eftir Tuma liggja ótal vísindagreinar og var hann leiðbeinandi margra nema í bæklunarskurðlækningum.

Tumi var í fullu fjöri er hann veiktist skyndilega af hjarta- og æðasjúkdómi. Hann þurfti á mikilli skurðaðgerð að halda, sem gerð var í Bandaríkjunum, og var hann að jafna sig á þeirri aðgerð þegar ósköpin dundu yfir. Mikill missir er að manni eins og Tuma, bæði fyrir samferðamenn og vísindin.

Ég kveð kæran vin og félaga og bið Guð að styrkja og blessa Ellu og fjölskylduna í sorg þeirra.

Kristján Þórðarson.

Árið 1990 skrifaði ég í minningargrein um þá gagnmerku konu, Guðríði Magnúsdóttur, kennara minn í barnaskóla, m.a. eftirfarandi: „En við vissum jafnframt, að Guðríður átti sér fjölskyldulíf, sem var okkur framandi. Við vorum okkur vel meðvituð, að hún átti fyrir eiginmann hinn nafntogaða Róbert Abraham Ottósson. Við skynjuðum andblæ hámennta og menningar frá kennara okkar. Minnisstætt er, að við í E-bekknum „gáfum“ Guðríði frí um tíma, þegar þeim hjónum fæddist sonur. Okkur bekkjarsystkinunum fannst við eiga í því hlutdeild, okkur fannst við eiga í stráknum. Svo liðu árin, af honum vissi ég fátt annað en, að hann var augasteinn foreldranna og fjörkálfur hinn mesti. Mörgum árum síðar sat ég við lestur námsbóka að kvöldi til í öðru landi, þegar dyrabjöllu var hringt. Var þar kominn ungur maður, sagðist vera nýfluttur með konu og dóttur í húsalengjuna, vera kominn til læknanáms, heita Grétar Ottó Róbertsson, kallaður Tumi, sonur Guðríðar og Róberts Abrahams. Frá þeirri stundu hefur strákurinn verið vinur minn.“

Fjölskyldur okkar áttu svo með sér þarna náið samfélag í nokkur ár, allt gleðiríkt og eftirminnilegt. Alvörufólk ætíð, Ella og Tumi. Slík vinátta rofnar aldrei og þau eru Guðforeldrar yngsta barnsins okkar Ebbu heitinnar. Þannig hafa margvíslega spunnist saman þræðir okkar Tuma um ævina og ekki er langt síðan ég naut á eigin skinni sérfræðisnilldar hans á LSH. Mér er harmur í huga við fráfall Grétars Ottós Róbertssonar um aldur fram. Ég votta Elínu, dætrum þeirra og venslafólki einlæga samúð.

Páll Bragi Kristjónsson.