Bleikar Þórdís (t.v.) og Rúna í Gallerý Grásteini og bleik verk að baki þeim.
Bleikar Þórdís (t.v.) og Rúna í Gallerý Grásteini og bleik verk að baki þeim. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristín Heiða Kristinsdóttir khk@mbl.is „Okkur er málið skylt, því í hópnum okkar hér í galleríinu er fólk sem hefur greinst með krabbamein og komist yfir það.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

„Okkur er málið skylt, því í hópnum okkar hér í galleríinu er fólk sem hefur greinst með krabbamein og komist yfir það. Sum okkar eiga aðstandendur sem hafa fengið krabbamein, enda tengjast flestir með einhverjum hætti einhverjum sem hefur fengið þennan vágest. Með sýningunni okkar, Listaverk í bleikum ljóma, lýsum við yfir stuðningi og samstöðu með öllum konum sem greinst hafa með krabbamein. Við gerum þetta árlega þegar bleikur október stendur yfir og í fyrra söfnuðust um sex hundruð þúsund hjá okkur sem runnu til Krabbameinsfélagsins,“ segir Rúna K. Tetzschner, ein þeirra listamanna sem starfa í Gallerý Grásteini við Skólavörðustíg og leggja sitt af mörkum til að vekja athygli á Bleiku slaufunni, árlegu átaksverkefni Krabbameinsfélagsins sem tileinkað er baráttunni gegn krabbameinum hjá konum.

Í dag er bleiki dagurinn, en þá eru landsmenn hvattir til að bera slaufuna, klæðast bleiku og lýsa skammdegið upp í bleikum ljóma svo allar konur sem greinst hafa með krabbamein finni fyrir stuðningi og samstöðu.

„Við ákváðum þetta árið að setja upp sérstakt bleikt listahorn hér í Gallerý Grásteini. Við erum með einn vegg með listaverkum frá okkur sem öll eru tileinkuð þessum mánuði og bleika deginum í dag. Annar glugginn hér er líka tekinn frá fyrir bleiku sýninguna okkar. Bleikum litum bregður fyrir í verkunum okkar eða þau vísa á einn eða annan hátt til kvenna og baráttunnar við krabbamein. Bleik blóm skarta til dæmis sínu fegursta í málverkunum, fjöllin eru sveipuð roðableikum blæ og svo framvegis. Verkin vísa með einum eða öðrum hætti í þema átaksins í ár, Vertu til , sem hefur víða skírskotun. Við þurfum að vera til fyrir konurnar í lífi okkar, vera til staðar fyrir þær sem greinast með krabbamein, þegar allt breytist snögglega hjá þeim og erfið verkefni hellast yfir þær. Við þurfum líka að vera til, lifa lífinu,“ segir Rúna og vekur sérstaka athygli á skemmtilegum verkum Þórdísar Sigfúsdóttur, sem eru bleikir keramikbrjóstahaldarar, blómavasar, en þeir eru til sölu eins og önnur verk á sýningunni.

„Þetta er sölusýning og ágóði af sölu verkanna rennur til Krabbameinsfélagsins. Í dag, á sjálfum bleika deginum, verðum við með bleika móttöku hér í galleríinu milli klukkan þrjú og sex. Allir eru velkomnir og við listafólkið verðum flest á staðnum og tökum á móti fólki og bjóðum því upp á léttar veitingar. Við vonum að sem flestir láti sjá sig og að við fáum margar bleikar sölur,“ segir Rúna en auk hennar og Þórdísar eru listamennirnir í Gallerý Grásteini Árný Björk Birgisdóttir, Guðrún Hreinsdóttir, Álfheiður Ólafsdóttir, Pálmi Bjarnason, Sigrún Kristjánsdóttir, Steinunn Steinars, Gerða Kristín Lárusdóttir, Nadine Cécile Martin, Jorinde Chang og Sif Jónsdóttir.