[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hlynur Helgason er fæddur 15. október á Fæðingarheimilinu í Reykjavík. Hann ólst upp í Hvassaleiti í Reykjavík til þriggja ára aldurs og á Sauðárkróki frá þriggja til sex ára aldurs.

Hlynur Helgason er fæddur 15. október á Fæðingarheimilinu í Reykjavík. Hann ólst upp í Hvassaleiti í Reykjavík til þriggja ára aldurs og á Sauðárkróki frá þriggja til sex ára aldurs. Þaðan lá leiðin í Ásgarð í Reykjavík þar sem hann hóf grunnskólanám í Breiðagerðisskóla. Fjölskyldan flutti síðan til High Wycombe á Suður-Englandi þegar Hlynur var átta ára og var þar í tæp tvö ár á meðan faðir hans var við nám þar. Fjölskyldan flutti síðan aftur til Reykjavíkur og var í Heimahverfi næstu fjögur ár og gekk Hlynur í Vogaskóla og síðan á Suðurvang í Hafnarfirði. Þar gekk Hlynur fyrst í Víðistaðaskóla og svo í Flensborgarskóla þaðan sem hann lauk stúdentsprófi af eðlisfræðibraut vorið 1980.

„Frá 4 til 8 ára aldurs fór ég í sveit á sumrin með frænku minni og fóstru, Guðnýju Guðjónsdóttur, á Raufarfelli undir Eyjafjöllum. Eftir heimkomuna frá Englandi var gjarnan dvalið hjá föðurömmu minni, Diddu Scheving. Þar vann ég við saltfiskverkun í Ísfélaginu 13 og 14 ára.“

Eftir stúdentspróf starfaði Hlynur hjá Hans Pedersen við framköllun í eitt ár, en síðan lá leiðin til Bandaríkjanna, en þar lærði hann arkítektúr í eitt ár við University of Kansas. „Hugurinn leitaði þó frekar til myndlistar og ég ákvað því að hætta námi þar og komst inn í Myndlista- og handíðaskólann haustið 1982. Þaðan lauk ég prófi af málarabraut vorið 1986.“

Þá lá leiðin norður til Akureyrar í eitt ár, en þar vann Hlynur sem leiðbeinandi við Bröttuhlíðarskóla auk þess að kenna málun við Myndlistarskólann á Akrureyri. Eftir dvölina þar vann Hlynur ýmis störf, á geðdeild Landspítalans og á Vífilsstöðum og sem umbrotsmaður hjá Morgunblaðinu, auk myndlistariðkunar. Eftir vetrardvöl í Exeter á Englandi og fyrir norðan Barcelona í Katalóníu, tók hann ársnám í kennslufræði við Háskóla Íslands. Eftir námið kenndi hann við myndlistardeild Fjölbrautaskólans í Breiðholti í tvö ár en fór eftir það í framhaldsnám í myndlist við Goldsmiths College í London, þaðan sem hann lauk MA-prófi vorið 1994.

„Við heimkomuna kenndi ég fyrst við Reykholtsskóla í Borgarfirði, þar sem Oddur Albertsson rak metnaðarfullt starf á mörkum lýðskóla og framhaldsskóla. Haustið 1996 hóf ég síðan störf við Borgarholtsskóla í Grafarvogi og átti þátt í að byggja upp starfið þar frá upphafi, fyrst við almenna braut fyrir nemendur sem stóðu höllum fæti eftir grunnskóla, en síðan átti ég þess kost þar að stofnsetja listnámsbraut við skólann. Fyrst var sérsviðið margmiðlunarhönnun, en síðan bættust við greinar eins og fjölmiðlatækni.“ Hlynur starfaði við Borgarholtsskóla allt til 2013, við kennslu og sem kennslustjóri listnáms. Samhliða þessu vann hann einnig sem stundakennari við Listaháskólann, við kennslu fræðigreina í hönnun og myndlist. „Þessi fræðiáhugi minn leiddi til þess að ég ákvað 2006 að hefja doktorsnám í „media philosophy“, heimspeki listmiðlunar, við European Graduate School, sem er rekinn í Sviss og á Möltu. Ég stundaði þetta nám með vinnu mestan partinn, en tók mér leyfi frá öðrum störfum undir lokin þar sem ég dvaldi meðal annars í Buenos Aires við ritstörf og myndlistariðkun í 5 mánuði árið 2010.“ Hlynur varði doktorsritgerð sína frá EGS sumarið 2012 og vann upp úr henni bók sem var gefin út árið 2013, undir titlinum The Beyond Within, af Atropos Press. Hann var ráðinn lektor í listfræði við HÍ 2013 og hefur gegnt stöðu dósents frá 2020.

Hlynur hefur á undanförnum áratugum gegnt ýmsum trúnaðarstörfum á vegum hins opinbera. Frá 1999 til 2003 vann hann að gerð nýrrar námskrár fyrir listgreinar og að undirbúningi námskrár vegna fyrirhugaðrar styttingar framhaldsskólans um 2005. Hann sat í stjórn Launasjóða listamanna 2015-2021. Hann situr einnig í myndlistarráði.

Hlynur hefur unnið að félagsmálum á fjölbreyttan hátt á ferlinum. Í menntaskóla tók hann þátt í leiklistarklúbbi, ljósmyndaklúbbi, leikfélaginu og ritstjórn Draupnis, blaðs nemendafélags Flensborgarskóla. „Á 9. áratugnum tók ég virkan þátt í endurreisn Leikfélags Hafnarfjarðar. Á tíunda áratugnum var ég í stjórn Nýlistasafnsins og í stjórn Sambands íslenskra myndlistarmanna. Einnig hef ég verið virkur í starfi Listfræðafélags Íslands og var formaður þess í nokkur ár.“ Hlynur hefur undanfarið setið á ný í stjórn SÍM og er nú varaformaður samtakanna. Frá 2013 – 2016 var hann einnig forseti NORDIK, Samtaka listfræðinga á Norðurlöndum. „Ég er einnig núna í stjórn Tangófélags Reykjavíkur, en ég hef tekið þátt í starfinu þar sem plötusnúður og við Sigga höfum verið ákafir tangódansarar í um sjö ár.

Ég hef, með öðrum störfum, ætíð haldið áfram að stunda myndlist, hef aldrei náð að hætta í henni. Ég rek nú um þessar mundir eigin myndlistarvinnustofu úti á Granda þar sem ég býð gestum reglulega í opið hús.“ Myndir Hlyns og verk, teikningar, málverk, ljósmyndir og vídeóverk, hafa verið sýnd víða, í Tékklandi, Danmörku, Argentínu, auk þátttöku hans í fjölda sýninga hér heima. Listasafn Íslands og Listasafn Reykjavíkur eiga bæði verk eftir Hlyn.

Fjölskylda

Eiginkona Hlyns er Sigríður D. Þorvaldsdóttir, f. 30.4. 1960, aðjúnkt í íslensku við Háskóla Íslands. Þau eru búsett við Skólavörðuholt í Reykjavík. Foreldrar Sigríðar voru hjónin Þorvaldur Kristmundsson arkitekt, f. 8.9. 1922, d. 11.1. 2011, og Sólveig Gísladóttir hjúkrunarkona, f. 5.11. 1922, d. 4.4. 2007. Fyrri kona Hlyns er Hervör Alma Árnadóttir, f. 7.7. 1963, lektor í félagsráðgjöf við HÍ.

Börn Hlyns og Ölmu eru 1) Hrund, f. 20.12. 1990, upptökustjóri, búsett í Reykjavík. Maki: Sverrir Sigfússon kvikmyndagerðarmaður; 2) Ívar, f. 5.9. 1997, myndlistarnemandi, búsettur í Reykjavík. Maki: Birna Karlsdóttir, f. 10.4. 2000, nemandi í samtímadansi.

Systkini Hlyns eru: Linda Björk Helgadóttir, f. 25.5. 1964, læknir í Ósló, og Ástþór Helgason, f. 1.2. 1975, gullsmiður í Reykjavík.

Foreldrar Hlyns eru hjónin Sigfús Helgi Scheving Karlsson, f. 30.4. 1940, alþjóðamarkaðsfræðingur og Ásdís Munda Ástþórsdóttir, f. 20.12. 1941, fyrrv. verslunarkona. Þau eru búsett í Kópavogi.