Snorri Baldursson fæddist á Akureyri 17. maí 1954. Hann lést á heimili sínu í Reykjavík 29. september 2021. Foreldrar hans voru Þuríður Helga Kristjánsdóttir frá Hellu á Árskógsströnd, f. 21. nóvember 1915, d. 2. júlí 2009 og Baldur Helgi Kristjánsson, Ytri-Tjörnum í Eyjafirði, f. 7. júní 1912, d. 25. nóvember 2003.

Systkini Snorra eru Kristján, f. 5. janúar 1945, Sigurbjörg Helga, f. 4. janúar 1946, d. 11. febrúar 1964, Benjamín, f. 22. janúar 1949, Guðrún Ingveldur, f. 17. maí 1952 og Fanney Auður, f. 2. júní 1956.

Snorri kvæntist Guðrúnu Vignisdóttur, f. 1954, hjúkrunarfræðingi árið 1976 og eignuðust þau soninn Heimi, f. 1974, sálfræðing, g. Signýju Kolbeinsdóttur, f. 1978, hönnuði, börn þeirra Snorri, f. 2004 og Svava, f. 2009.

Snorri kvæntist Guðrúnu Narfadóttur, f. 1955, líffræðingi, þau eignuðust synina Narfa Þorstein, f. 1982, rafmagnsverkfræðing, sambýliskona hans er Svava Þorleifsdóttur landslagsarkitekt, f. 1983, eiga þau börnin Þorleif Kára, f. 2010, Dag Snorra, f. 2016 og Lovísu Guðrúnu, f. 2018; Baldur Helga, f. 1986, arkitekt, sambýliskona Sunna Kristín Hannesdóttir, f. 1989, og Snorra Eldjárn, f. 1988, sambýliskona Alda Valentina Rós Hafsteinsdóttir, f. 1993, sonur Snorra með Ósk Gunnarsdóttur, f. 1986, er Benjamín Eldjárn, f. 2013.

Eftirlifandi eiginkona Snorra er Elsa Friðrika Eðvarðsdóttir, f. 19.12. 1954, hjúkrunarfræðingur. Foreldrar hennar voru Eðvarð Sigurgeirsson ljósmyndari, f. 1907, d. 1999, og kona hans Marta Jónsdóttir húsmóðir, f. 1920, d. 2009.

Snorri lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1974, B.Sc.-gráðu í líffræði frá Háskóla Íslands 1979 og kennsluréttindum í framhaldinu. Meistaranámi í plöntuvistfræði og plöntuerfðafræði frá University of Colorado og doktorsprófi PhD frá Konunglega landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn 1993.

Eftir nám erlendis sinnti Snorri jafnhliða öðrum verkefnum, rannsóknum á sviði landgræðslu og skógræktar. Hann beitti sér mikið fyrir náttúruvernd og skrifaði fjölda greina um þau efni.

Á árunum 1983-1986 var Snorri kennari við Fjölbrautaskólann við Ármúla, var sérfræðingur hjá RALA og Skógrækt ríkisins um árabil og var aðalritari hjá Norðurskautsráðinu CAFF 1997-2002.

Hann starfaði um skeið hjá Náttúrufræðistofnun Íslands 2002-2008, var þjóðgarðsvörður hjá Vatnajökulsþjóðgarði og formaður Landverndar 2015-2017, stýrði auðlinda- og umhverfisdeild Landbúnaðarháskóla Íslands frá 2018 og var við störf hjá skólanum fram á þetta ár.

Árið 2014 kom út bókin Lífríki Íslands eftir Snorra. Hlaut hún Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fræðirita sama ár. Í september sl. kom svo út bókin Vatnajökulsþjóðgarður: gersemi á heimsvísu. Bókin er að stofni til efni umsóknar til UNESCO. Síðastliðið sumar stofnaði Snorri náttúruverndarsamtökin Skrauta en markmið þeirra var verndun Vonarskarðs og hinna ósnortnu víðerna landsins.

Útför Snorra fer fram frá Langholtskirkju í dag, 15. október 2021, kl. 13.

Elsku afi minn.

Ég er þakklátur fyrir tímann með þér á Ytri-Tjörnum og mun sakna þess að þú sért ekki lengur þar.

Ég man þegar þú fórst með mér að tína lerkisveppi í skóginum fyrir ofan bæinn og gafst mér bók um sveppi. Við fórum líka í berjamó þegar þú varst orðinn mjög veikur. Þú vissir mikið um fugla og gafst mér kíki til að skoða fuglana betur. Mér leið mjög vel í sveitinni hjá þér og þú varst alltaf svo góður við mig.

Ég á góðar minningar þegar þú passaðir mig og Benjamín frænda á Ásvallagötunni. Okkur fannst mjög gaman að vera í næturpössun hjá þér en við vöknuðum yfirleitt alltof snemma, sem þér fannst ekki mjög skemmtilegt.

Minning þín lifir.

Þorleifur Kári.

Mjög er um tregt tungu að hræra, orti Egill Skallagrímsson í erfiljóði sínu um son sinn. Og víst er um það að okkur aðstandendum Snorra finnst að skjótt hafi sól brugðið sumri og að veturinn sem nú er að byrja fari að með óvenjumikla nepju og kulda. Þannig er tilfinning okkar við missi míns kæra bróður. Hans síðasta sumar í Eyjafirðinum var þó í alla staði ljúft og friðsælt.

Ég vil því ekki vera sorgmæddur og hryggur því ég trúi því að hans nýja líf á sumarlandi eilífðarinnar verði beint framhald á hans góða athafnalífi hér og það verði frjálsara og dýrlegra en nokkurn tíma hér í heimi hægt er að öðlast. Við skulum því líka gleðjast yfir allri hans miklu arfleifð sem hann skilur eftir handa okkur. Hugsjónunum hans og þrotlausri vinnu fyrir náttúruvernd Íslands, sem hann var svo trúr alla sína ævi og fórnaði kröftum sínum fyrir.

Hans miklu og glæsilegu ritverkum og miklu félagsstörfum. Hans yndislegu ljósmyndum sem margar hverjar eru hrein listaverk.

Við trúum því að nú geti hann um frjálst höfuð strokið laus úr viðjum sjúkleika. Nú geti hann tekið upp þráðinn að nýju og tekið til hendi og unnið að hugsjónum sínum á eilífðarlandinu. Við skulum líka gleðjast yfir hans skipulögðu og einbeittu afrekum sem hann kom í framkvæmd á sínu síðasta æviskeiði.

Honum lá mikið á að koma í verk mörgum hugðarefnum sínum. Hann vissi að hverju stefndi og sýndi fádæma æðruleysi í veikindum sínum. Metnað sinn lagði hann í að endurbæta ættaróðalið á Ytri-Tjörnum, honum tókst á undraverðan hátt að búa til glæsilega, alþýðlega og fróðlega bók um Vatnajökulsþjóðgarð. Samin upp úr skýrslu sem hann skrifaði á ensku um að koma Vatnajökulsþjóðgarði á heimsminjaskrá UNESCO. Hann þýddi úr ensku yndislega bók um andleg mál. Það var hugðarefni sem hann fékk meiri og meiri áhuga fyrir á seinni árum.

Ég kveð kæran bróður með miklum söknuði og er þakklátur fyrir samfylgd hans.

Ég og fjölskylda mín vottum sonum hans og Elsu innilega samúð.

Kristján Baldursson.

Til Fanneyjar sem „fyllir húsið af gleði“. Þessi orð eru mér huggun í sorginni, áletrun til mín í nýju bókinni, Guð í sjálfum þér, sem hann gaf mér stuttu áður en hann lést. Við vorum mjög náin alla tíð enda bara tvö ár á milli okkar. Snorri var svo fjölhæfur, „gat bara allt“. Hann var doktor í líffræði, náttúrufræðingur og vildi bara óspillta íslenska náttúru. Hann var umhverfissinni, hafði fallega rödd og ein af æskuminningunum mínum var að hlusta á hann syngja, þegar hann hélt að enginn heyrði til hans. Rödd hans var svo skær og falleg drengjarödd eins hjá Róbertinó. Röddin hans breyttist í fallegan bassa og hann söng með Fóstbræðrum sem veitti honum mikla lífsfyllingu og gleði.

Hann var náttúrubarn. Ég á fleiri æskuminningar þar sem við systkinin erum að fara upp að Drang og upp í skóg að tína ber. Ég yngst átti til að missa úr fötunni minni en fékk alltaf bætt upp frá systkinum mínum. Síðan þá hef ég reynt að endurgjalda greiðann í gegnum tíðina. Svo fórum við að leita að hreiðrum, Snorri fann 10 en ég ekkert, tíndum egg í kílunum og gerðum skipapoll. Yndisleg æska. Man reyndar eftir honum að lesa og lesa, hann var víðlesinn með afbrigðum. Hann var fagurkeri, allt svo fallegt sem hann tók sér fyrir hendur, bækurnar Lífríki Íslands og Vatnajökulsþjóðgarður: gersemi á heimsvísu eru gullfallegar bækur. Síðustu ár hefur hann verið að gera upp gamla æskuheimilið á Ytri-Tjörnum í Eyjafjarðarsveit af mikilli smekkvísi ásamt sonum sínum og tengdadætrum, allir sérfræðingar á sínu sviði. Það er unun að sjá garðinn og umhverfið. Hann hafði áhyggjur af garðinum en ég er viss um að við hjálpumst að við að halda honum fallegum til að heiðra minningu hans. Snorri stóð fyrir skógardegi fjölskyldunnar þar sem stórfjölskyldan kom saman og gerði göngustíga og hreinsaði til í skóginum og allir tóku þátt og styrktu fjölskylduböndin. Ég sakna bróður míns sárt. Fyrir mér var hann gersemi á heimsvísu. Ég og fjölskylda mín sendum fólkinu hans Snorra hjartanlegar samúðarkveðjur.

Fanney systir.

Mig langar að minnast elsku bróður míns með nokkrum orðum.

Ég var tveggja ára þegar ég fékk fínustu afmælisgjöf sem hægt er að hugsa sér, lítinn bróður. Aðdáun mín á þessum fallega dreng sem kom í heiminn á afmælisdaginn minn var mikil strax frá upphafi og hélst alla ævi hans. Honum var svo margt til lista lagt, sama hvað hann tók sér fyrir hendur. Hvort sem það voru listir eða fræðistörf og eftir hann liggja mikil verðmæti í ljósmyndum og bókum sem hann gaf út. Vænst þykir mér um bókina um andleg málefni sem hann þýddi stuttu fyrir andlát sitt og færði mér með svo fallegri kveðju ritaðri inn í bókarkápuna þótt sjónin væri að mestu farin. Mér þykir einnig svo vænt um hvað hann gerði fallega upp æskuheimili okkar og ættaróðal, bæði að utan og innan.

Ég minnist undurfagurrar söngraddar sem hann bjó yfir þegar sem ungur drengur. Hann söng fallegar aríur af hjartans lyst og ég dáðist að honum í laumi og óskaði þess að hann yrði frægur söngvari. Seinna fengu kórar að njóta fallegrar raddar hans.

Ég kveð elskulegan bróður minn með sorg í hjarta en fallegar minningar eru mér til huggunar, minningar um sameiginleg afmæli okkar, minningar um söng og gleði og svo hvernig hann tók örlögum sínum af fádæma æðruleysi. Bróðir minn heldur áfram að vera mér fyrirmynd.

Að lokum leyfi ég mér að nota tvö erindi úr uppáhaldsljóðinu hans.

Smávinir fagrir, foldarskart,

fífill í haga, rauð og blá

brekkusóley, við mættum margt

muna hvort öðru að segja frá.

Prýðið þér lengi landið það,

sem lifandi guð hefur fundið stað

ástarsælan, því ástin hans

alls staðar fyllir þarfir manns.

Faðir og vinur alls, sem er,

annastu þennan græna reit.

Blessaðu, faðir, blómin hér,

blessaðu þau í hverri sveit.

Vesalings sóley, sérðu mig?

Sofðu nú vært og byrgðu þig.

Hægur er dúr á daggarnótt.

Dreymi þig ljósið, sofðu rótt!

(Jónas Hallgrímsson)

Votta ástvinum öllum mína dýpstu samúð.

Takk fyrir allt, elsku Snorri.

Þín systir,

Guðrún (Gunna).

Um svipað leyti og við Elin tókum við búskapnum á Ytri-Tjörnum fyrir tæpum þremur árum, var Snorri föðurbróðir minn kominn í fullan gang við að gera upp æskuheimilið, gamla húsið á Tjörnum. Hús, sem hefur verið samkomustaður stórfjölskyldunnar svo lengi sem ég man. Einn eftirminnilegasti gleðskapurinn sem ég hef upplifað þar, af mörgum góðum, var haldinn þegar Snorri lauk doktorsnámi í júní 1993. Ég held reyndar að sú veisla hafi verið skyndiákvörðun; þáverandi tengdamóðir hans, ákaflega minnisstæð persóna, taldi brýna nauðsyn að skála við föður nýdoktorsins á þessum merku tímamótum.

Snorri var ágætur ræðumaður og fyrirlesari sem gaman var að hlýða á. Ég heyri fyrir mér vísurnar eftir Theodór afabróður sem hann fór með í veislunni miklu 1999, sem slegið var upp í tilefni af 100 ára samfelldri búsetu sömu fjölskyldu á Ytri-Tjörnum. Vísan var samin í tilefni af áttræðisafmæli afa míns 1992, en þeim tímamótum var fagnað í Kaupmannahöfn hjá Snorra og Guðrúnu. Á sama tíma kom upp eldur í Kristjánsborgarhöll.

Til Danmerkur fór hann með hopp og hí

heyrast þar skrækir og sköll.

Áttræður kallinn kveikti í

Kristjánsborgarhöll.

Snorri var einlægur áhuga- og baráttumaður fyrir náttúruvernd og ég hygg að hann hafi viljað vinna landi sínu allt það gagn sem hann gat á því sviði. Þótt baráttan hafi verið snar þáttur, þá miðlaði hann einnig rausnarlega til samferðamanna og komandi kynslóða. Þar ber hæst stórvirki hans Lífríki Íslands, vistkerfi lands og sjávar, sem kom út árið 2014. Bókin sú mun halda nafni hans á lofti um langa framtíð.

Það haustaði snemma hjá frænda. Í árslok 2019 greindist hann með mein það sem nú hefur lagt hann að velli. Þessa rúmu 20 mánuði sem síðan eru liðnir nýtti Snorri ákaflega vel. Sumarið 2020 lét hann skipta um glugga í gamla húsinu, svo nú hefur sá svipur þess verið færður í nær upprunalegt horf. Samhliða framkvæmdunum ákvað hann að skrifa bók sem kom út fáum dögum fyrir andlát hans. Vatnajökulsþjóðgarður: gersemi á heimsvísu er einstaklega falleg og skemmtileg bók, meitlaður texti og fallegar myndir sem bera höfundi gott vitni. Það var gleðilegt að hann fékk að fylgja henni úr hlaði. Og þó að það haustaði 20 árum of snemma hjá Snorra, þá var líka gleðilegt að síðasta sumarið sem hann lifði heima á Ytri-Tjörnum skyldi vera mesta góðviðrissumar frá upphafi mælinga, sem hann naut ríkulega í félagsskap fjölskyldu og vina. Svo seint sem í júlí sl. bauð hann mér aðstoð sína við að standa fyrir kvígum sem bóndinn var þá að reka með nokkrum tilþrifum.

Við Snorri vorum ekki sammála um alla hluti, vel fór þó á með okkur enda hefur mér ætíð þótt eftirsóknarvert að umgangast fólk með ólíkar skoðanir og aðra sýn á tilveruna. Ég hefði gjarnan viljað hafa Snorra í kallfæri lengi enn og ég veit að hann átti margt ógert.

Við Elin vottum fjölskyldu og vinum Snorra okkar innilegustu samúð með von um að þau finni huggun í sorginni sem kvatt hefur dyra. Guð blessi hann í eilífðinni.

Baldur Helgi Benjamínsson,

Ytri-Tjörnum

Við systur minnumst Snorra, yngsta bróður pabba, með væntumþykju og virðingu. Helstu minningarnar tengjast sveitinni, þar sem við fjölskyldan hittumst svo oft. Líflegar umræður, skemmtileg samtöl, góður matur, kyrrð og hlýja einkenna Ytri-Tjarnir. Þegar hann og strákarnir byrjuðu að lagfæra gamla húsið, tókst Snorra að halda vel í þann góða anda sem þar ríkir. Hann var einnig mjög frændrækinn og duglegur að bjóða til sín stórfjölskyldunni þegar hann var í sveitinni og þannig gátum við áfram notið góðra samverustunda. Skógardagarnir eru einna eftirminnilegastir, þegar við hittumst til að útbúa stíga og grisja skóginn. Fjölskyldustemning, drunur í vélsög, ómur af krökkum að leika sér og ilmur af bakkelsi einkenndu þá daga.

Snorri var okkur mikil fyrirmynd í baráttu sinni fyrir náttúruvernd, en hann var einlægur bandamaður náttúrunnar. Í þeirri baráttu hafði hann sjaldfundið og aðdáunarvert hugrekki, en sú barátta getur oft á tíðum verið ansi óvægin. Það eru mikil verðmæti sem hann hefur náð að miðla til samferðafólks og komandi kynslóða með skrifum sínum um íslenska náttúru. Það er gaman að lesa greinarnar hans og bækur þar sem hann miðlar kunnáttu sinni af innsæi og virðingu fyrir viðfangsefninu. Hann hafði gott lag á að nota tungutak sem gerði stórbrotnu landslagi og viðkvæmu lífríki skil á sanngjarnan hátt. Listrænir hæfileikar komu fram í ljósmyndum en myndirnar hans ná að draga fram óvenjuleg form og liti í náttúrunni þannig að viðfangsefnið verður enn áhugaverðara fyrir vikið.

Snorri tókst á við veikindi sín af aðdáunarverðri yfirvegun, æðruleysi og reisn og ótrúlegt að sjá hvernig hann náði hverju markmiði sínu á fætur öðru á erfiðum tímum. Við sendum frændum okkar, fjölskyldum þeirra og Elsu okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Kristín, Sólveig, Þuríður og Þórhildur Kristjánsdætur.

Fallinn er frá vinur, skólafélagi og kollegi til margra áratuga. Við hittumst fyrst í landsprófi í Reykholtsskóla í Borgarfirði haustið 1969. Kynnin hófust með því að við tókum „slag“ í frímínútum eins og ungra drengja var siður. Fylgdumst að eftir það í Menntaskólanum á Akureyri í námi, söng og skemmtun og síðar í líffræðinámi við Háskóla Íslands. Á þessum árum lærði ég að meta hinar margvíslegu gáfur Snorra sem og innihaldsríka glaðværð í félagsskap hans. Þá tóku við ár er við vorum í mismunandi löndum og ólíkum störfum en tengsl og vinskapur ávallt til staðar sem fyrr.

Upp úr aldamótunum tókum við upp gönguferðir í hópi vina um hálendi Íslands. Ég minnist með þakklæti ferða okkar um stórfengleg svæði íslenskrar náttúru, s.s. Skaftafellssvæðið, Sveinstind, Eldgjá, Borgarfjörð eystri, Stórurð, Hornvík, Lónsöræfi og fleiri staði þar sem sem mikillar þekkingar Snorra á náttúru landsins naut svo vel við. Þá þurfti oft að nema staðar til þess að Snorri gæti tekið myndir sem margar hverjar hafa birst í verkum hans síðar. Við komum báðir úr sveit og ólumst upp í hugsunarhætti landbúnaðar sem byggist á nýtingu landsins. Með árunum óx einlægur áhugi Snorra á náttúruvernd sem við vinir hans kynntumst æ betur á ferðum okkar um ættjörðina og hafði áhrif, jafnvel á þá okkar sem eru talsvert miklir nytjasinnar. Meðal viðfangsefna síðasta æviárs Snorra var barátta fyrir friðun Vonarskarðs og nærsvæðis þess, m.a. fjallsins Skrauta, sem lýsir vel áköfum vilja hans til að vernda ósnortna náttúru landsins. Í náttúruverndarbaráttu hans birtist enn frekar hæfileiki Snorra til ritstarfa sem meðal annars leiddi til útgáfu bóka sem eru meðal gersema á mínu heimili. Þá birtist þar hæfileiki hans til innblásinnar ræðumennsku sem ég hafði ekki orðið vitni að áður.

Snorri hvatti mig til að ganga í Karlakórinn Fóstbræður þar sem við sungum saman síðastliðin 20 ár og höfum haft mikla ánægju af. Snorri fékk áhuga á andlegum málefnum sem við ræddum mest á seinustu árum ævi hans og hann beindi til mín efni sem hefur orðið mér innblástur. Ég þakka innihaldsríka og ánægjulega samfylgd í meira en hálfa öld. Far þú í friði um Vonarskörð þess himnaríkis sem fylgir þér hvert sem þú ferð meðal Skrauta alheimsins.

Júlíus Birgir Kristinsson.

Kær vinur og félagi, Snorri Baldursson, er fallinn frá. Við syrgjum góðan dreng með spurn í huga um gang lífsins, réttlæti og hendingar, en erum jafnframt fullir þakklætis fyrir kynnin af vönduðum og skemmtilegum manni.

Snorra, sveitunga okkar frá Ytri-Tjörnum í Eyjafirði, kynntumst við fyrst að marki eftir að við snerum heim allir þrír að loknu langskólanámi í líf- og vistfræði á erlendri grundu um og upp úr 1990. Við náðum þó í skottið á Snorra í M.A., hann að klára stúdentinn og við að byrja, og síðan aftur í H.Í. þegar hann var að klára líffræðinám og við að hefja það. Snorri var umtalaður meðal okkar yngri nemenda og ekki laust við að horft væri til hans með vissri lotningu fyrir framsækinn vistfræðilegan þankagang, dirfsku og gáfur. Snorri lagði í kjölfarið stund á nám í vist- og erfðafræði, fræðigreinum sem þá voru í örri þróun, fyrst við háskólann í Colorado, Bandaríkjunum, og síðar Landbúnaðarháskólann í Kaupmannahöfn. Hann lét síðar að sér kveða á þessum sviðum svo um munaði.

Hér heima áttu leiðir okkar þriggja eftir að liggja saman á ýmsa vegu í gegnum fræði- og stjórnunarstörf á sviði náttúrufræða og náttúruverndar og vegna sameiginlegra áhugamála og bakgrunns á námsárum hér heima og erlendis.

Kynnin af Snorra voru afar gefandi og innihaldsrík. Hann skildi betur en flestir tengslin í gangverki náttúrunnar, samspil lífrænna og ólífrænna þátta, að allt hangir saman með einum eða öðrum hætti og að náttúran er síbreytileg og stöðugt á hreyfingu. Hann hafði mjög skýra sýn á sérstöðu náttúru Íslands og norðurslóða, einkum er varðar líffræðilega fjölbreytni og mikilvægi hennar. Þekkingunni kom Snorri til skila með margvíslegum hætti, með kennslu, landvörslu, ritun fræðigreina, skýrslna og bóka og náttúruljósmyndun. Snorri var góður uppfræðari og honum var kappsmál að miðla vísindum til almennings – hann ritaði um náttúru á mannamáli betur en flestum er gefið. Eftir hann liggur fjöldi ritverka, jafnt strangvísindalegra sem alþýðlegra. Þar ber hæst stórvirki hans Lífríki Íslands – Vistkerfi lands og sjávar, sem kom út árið 2014 og hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin. Útgáfa verksins var afar brýn enda ekkert slíkt rit til á íslenskri tungu fyrir almenna lesendur þar sem fjallað er um náttúru landsins á heildstæðan og lýsandi hátt.

Elja, vandvirkni og þrautseigja einkenndi afstöðu og verklag Snorra. Síðasta verk hans, Vatnajökulsþjóðgarður: gersemi á heimsvísu, kom út rúmri viku áður en hann féll frá. Það verk vann Snorri undir lokin við erfið skilyrði, þjakaður af veikindum. En hann lét ekki deigan síga og náði að skila af sér einkar glæsilegu ritverki enn eitt skiptið og halda útgáfuteiti fyrir vini og vandamenn.

Látum kynnin af Snorra og verkum hans upplýsa okkur lengi og ylja um hjartarætur. Aðstandendum og ástvinum vottum við innilega samúð við fráfall Snorra.

Hilmar J. Malmquist og Skúli Skúlason.

Komið er að kveðjustund, kær vinur og samferðamaður er látinn langt um aldur fram, eftir baráttu við krabbamein. Kynni okkar Snorra hófust haustið 1970, fyrir meira en hálfri öld, þegar hópur ríflega 100 ungmenna hóf nám í Menntaskólanum á Akureyri. Á heimavist skólans hristast þeir fljótlega saman sem hafa svipaðan bakgrunn, lífsskoðanir og áhugamál. Og við slíkar aðstæður verður gjarnan til vinskapur sem varir ævina á enda. Þannig var því varið hjá okkur Snorra.

Margir kostir prýddu þennan bráðgreinda, sjarmerandi, lífsglaða og söngelska bóndason frá Ytri-Tjörnum í Eyjafirði. Þeir kostir nýttust vel á viðburðaríkri ævi, ævi sem einkenndist af margvíslegum viðfangsefnum. Eftir líffræðinám við HÍ stundaði Snorri framhaldsnám erlendis á sviði vist- og plöntuerfðafræði. Heim kominn tókst hann á við fjölbreytt verkefni.

Að afloknu námi fóru fjölskyldur okkar að hittast reglulega. Ekki spillti að þáverandi eiginkona Snorra og kona mín eru æskuvinkonur þannig að beint lá við að við hittumst ásamt börnum okkar. Fljótlega bættust fleiri skólafélagar úr líffræðinni og makar þeirra í hópinn og um aldamótin var búið að stofna ferðahópinn Lipurtær. Hópurinn hefur síðan farið saman í margar ógleymanlegar ferðir. Fullorðna fólkið naut samvistanna, börnin, sem oft voru með í för, léku sér saman og lærðu að skoða landið og náttúruna. Á kvöldin var eldað, spilað og sungið og þess á milli skeggrætt um málefni líðandi stundar. Snorri var þá þegar kominn á kaf í náttúruljósmyndun og stoppaði hann gjarnan þar sem mótífin kölluðu á hann.

Mér vitanlega er Snorri sá eini sem próf. Agnar Ingólfsson gaf einkunnina 10 fyrir próf í námskeiðinu vistfræði – mikið uppáhaldsfag Snorra – við líffræðiskor HÍ. Ég varð vitni að því þegar Agnar kom út úr skrifstofu sinni með prófúrlausn Snorra í hendinni. Honum var mikið niðri fyrir og hann dæsti þegar hann sagði við okkur sem þarna vorum að vinna: „Ég verð að gefa 10 fyrir þessa úrlausn, hún er fullkomin.“ Ég kættist við að verða vitni að þessu. Mér fannst ég nefnilega eiga örlítinn þátt í afreki vinar míns. Í sumarbyrjun hafði ég lallað frá Nýja Garði upp á Hjónagarða með kennslubókina sem Agnar notaði í námskeiðinu, Snorri hafði beðið um að fá hana lánaða. Auðsætt var, þegar bókinni hafði verið skilað, að Snorri hafði stúderað „Krebs“ af mikilli nákvæmni, búið var að strika undir allt það sem Snorri taldi mestu máli skipta í bókinni.

Ekki kom á óvart að Snorri skyldi síðar á ævinni rita glæsilega „stórbók“ um lífríki Íslands, þar er vistfræðin í öndvegi. Ritfærni Snorra kom og berlega í ljós í fjöldanum öllum af blaðagreinum um náttúruvernd og nú síðast fyrir nokkrum vikum þegar bókin „Vatnajökulsþjóðgarður: gersemi á heimsvísu“ kom út. Þessar bækur, ásamt baráttu hans fyrir íslenska náttúru, munu halda nafni Snorra Baldurssonar á lofti um ókomna framtíð.

Að leiðarlokum þakka ég trausta samfylgd og áratuga vináttu. Um leið sendum við Ástrós fjölskyldunni og öllum vinum og ástvinum hans innilegar samúðarkveðjur.

Karl Skírnisson.

Dr. Snorri Baldursson, ein af okkar helstu frægðarstjörnum útskriftarárgangs MA-stúdenta frá 1974, er allur.

Ég votta konu hans, Elsu Eðvarðs; minni fögru bekkjarsystur í þá daga, samúð mína.

Ég hef síðan hitt Snorra um tíðina, svo sem á útskriftarafmælissamkomu okkar MA-stúdenta, en þó síðast er hann hélt fyrirlestur í morgunstundinni á vinnustað mínum, dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund, í tilefni útkomu sinnar fyrri bókar um náttúru Íslands.

(Þáði hann þá nýjustu ljóðabók mína sem þakkargjöf!)

Ég minnist Snorra á MA-árunum sem glæsilegs félagsmálamanns er virtist í augum okkar máladeildarnemenda líklegur til stórræðanna sem raunvísindamaður.

Virðist það svo hafa gengið rækilega eftir, svo sem landsmenn hafa mátt sjá í myndmiðlum.

Það kom mér svo á óvart að hann er nú fallinn frá, er hann virtist enn vera á hátindi framkvæmdasemi sinnar. M.a. vegna þess að þótt fyrrverandi vinum mínum úr hópi bekkjarfélaga forðum sé ögn farið að fækka virðist það hafa haft lítið með öldrunarsjúkdóma að gera, enn sem komið er, og því ekki komið að ögurstundum almennt fyrir okkar aldurshóp. En nú er spurning hvort þetta séu teikn um að einhver skriða fari brátt að byrja?

Ég hefði viljað kveðja Snorra með einhverju málefnalegu ljóðabroti eftir mig. Og nú þykir mér ég sjá í einu ljóði mínu smá samsvörun milli Snorra og föður míns heitins, er einnig varð stúdent frá MA og gerðist svo frægur raunvísindamaður síns tíma (Baldur Líndal efnaverkfræðingur), en þeir voru báðir úr sveit. Eftirfarandi ljóðabrot er innblásið af skáldskapartilraunum mínum á heimavist MA forðum, og endurspeglar sýn mína á sveitaumhverfið (þótt ég hafi sjálfur komið frá höfuðborgarsvæðinu).

Ljóðið heitir: Kvörtun sveitastráksins, og er faðirinn þar að brýna fyrir syni sínum gildi dreifbýlistilverunnar og segir þar m.a. svo:

Og pabbi spurði svo mig, stráklinginn:

„Hví gleðst þú ekki með jörðinni!

Er nokkuð yndislegra í lífinu

en súr heylyktin í nösinni?

Ætlaðist Guð til nokkurs betra

af böldnum, óþægum stráklingi,

svo sem að verða óþægur skólastrákur?“

„En pabbi,“ sagði ég,

„Villi bróðir vildi svo í skóla

að hann reif sig svo

á gaddavírnum við að flýja!

Og mamma, hún missti mjólkurkönnuna

við fall sitt á hörðu eldhúsgólfinu,

því hún þoldi ekki þessa sveit!“

Pabbi dæsti þá og sagði:

„Þú skilur ekki, væni minn eini,

hversu lífið kallar á þig!

Og átt svo mömmu sem

vill heldur skúra hjá borgarfólki!“

Tryggvi V. Líndal.

Í minningu Snorra Baldurssonar.

Maðurinn með ljáinn hefur enn höggvið í hóp okkar samstúdentanna frá MA, þjóðhátíðarárið 1974.

Snorri var meðal helstu glæsimenna þessa hóps, gekk vel með námið en var djarfur í framkomu, lagviss og glaðlyndur.

Stúdentinn Snorri menntaði sig í náttúruvísindum og varð að lokum doktor í plöntuerfðafræði frá Landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn.

Vel skipulögð menntun varð hornsteinn að ævistarfi Snorra, en auk þeirra starfa sem hann sinnti beitti hann sér á sviði umhverfismála og náttúruverndar. Hápunktarnir á þeirri vegferð voru formenskan í Landvernd og útgáfa stórglæsilegra bóka, þar sem hann blandaði saman umfjöllun um sín fræði og hjartans mál.

Í MA vorum við Snorri góðir félagar. Ég kom úr farskólaumhverfinu og var því ári eldri en bekkjarfélagarnir og bar með mér útlit sem var umfram aldur. Á þessum árum nafnskírteina með lélegum myndum, sem var reyndin með mitt skírteini, gat það komið sér vel að þekkja sér eldri og ellilegri menn sem voru hjálpsamir og Snorri naut oft góðs af því, enda meiri gleðimaður en ég og átti því frekar og oftar erindi í Sjallann.

Á lífsleiðinni lágu leiðir okkar oft saman, hann heimsótti okkur hjónin þegar við bjuggum í Moskvu, í fásinninu þar var ávallt gaman að fá gesti að heiman.

Mörgum árum síðar, þegar ég var að vinna að þróun aðstöðunnar í Kerlingarfjöllum og umbótum í samgöngum á Kili, lágu leiðir okkar saman á ný, en þá bankaði Snorri í öxlina á mér og spurði hvort mig hvort ég teldi mína vegferð byggða á skynsemi og í þágu umhverfis og náttúru. Þar varð vík milli vina.

Í kjölfarið tók við málarekstur sem lauk á þann hátt að báðir máttu sáttir vera eða jafn ósáttir ef menn vildu halda sig við þann skilning.

Í vor áttum við Snorri dýrmæta stund, ég heimsótti hann hér í höfuðborginni, við drukkum vatn, borðuðum kleinur og ræddum okkar sameiginlegu vegferð. „Í mínum störfum að umhverfismálum hef ég fylgt rödd hjartans,“ sagði Snorri og barði sér á bringu, hver getur gagnrýnt þá lífssýn?

Við Snorri kvöddumst sáttir og glaðir og vorum sammála um að næsti fundur yrði enn gleðilegri, hvar sem hann nú yrði. Mér fannst þessi stutta stund með Snorra mikilvæg og held að það hafi verið gagnkvæmt.

Hvíl þú í friði, Snorri Baldursson.

Páll Gíslason.

Það eru meira en fjórir áratugir síðan ég hitti Snorra fyrst, þrjár æskuvinkonur og þeirra fylgifiskar bundust vináttuböndum, við urðum samferða, við tók hreiðurgerð, börnin komu eitt af öðru. Til varð matarklúbbur sem hittist oft á ári, þetta voru líflegar samkomur sem við hlökkuðum til allt árið, við nutum lífsins saman, ferðuðumst, sungum hástöfum, rökræddum og stundum rúmlega það en yfir öllu sveif væntumþykja og virðing okkar hvert fyrir öðru.

Sumt stendur upp úr, vika seint í ágúst 1984, við hittumst fjölskyldurnar í Jökulsárgljúfrum þar sem Snorri og Guðrún voru landverðir, sjö dagar í paradís, útlandaveðri, sól og hita, þeir stóratburðir í jarðsögunni sem þarna höfðu átt sér stað urðu, í meðförum húsráðenda, ljóslifandi fyrir okkur.

Hagir okkar breyttust en vináttan hélst. Vinátta tekur á sig margar myndir, er stundum ófyrirsjáanleg og þannig var það með okkur Snorra. Hann var líklega númeri of glæsilegur og gáfaður fyrir utan augljósan metnaðinn, eins og hann ætlaði á toppinn með fyrstu ferð. Þangað til ég áttaði mig á að metnaðurinn var fyrir okkar hönd, hvernig við umgengjumst landið okkar, náttúruna og þar var enginn afsláttur gefinn, slagir teknir. Hann skildi langt á undan okkur mörgum að málamiðlanir voru ekki í boði, að færa þyrfti fórnir. Geti maður sagt um menn að þeir séu lífsnauðsynlegir var hann það.

Það var einhver strengur á milli okkar, kannski vegna þess að á einhvern hátt vorum við líkir. Báðir leitandi og haldnir ólæknandi fegurðarþrá, þrá eftir þessu óræða háleita sem stundum er svo erfitt að henda reiður á og auðveldar ekki alltaf ferðalagið um dagana. Kannski þess vegna áttum við trúnað hvor annars, þegar gaf á bátinn leitaði ég til vinar míns og ég veit að það var gagnkvæmt, allt var uppi á borðum, vinátta verður ekki betri.

Maður skyldi ekki máta sig við dauðann að tilefnislausu, flest þurfum við að horfast í augu við hann, þá er undir okkur komið hvort hann virðir okkur viðlits. Við Bergljót heimsóttum Snorra á Ytri-Tjarnir í fyrrasumar, hann sagði okkur þá að hvernig sem færi liti hann sáttur yfir farinn veg, hann hefði átt gott líf, væri stoltur af afkomendum sínum og lífsstarfi. Aðrir kunna betur að fjalla um afrek Snorra í þjóðar þágu en það var mikið gleðiefni hversu ríkulega hann uppskar síðustu árin, lokaverkið „Vatnajökulsþjóðgarður: gersemi á heimsvísu“ skrifaði hann í þriggja mánaða veikindahléi, nýliðnar vikur var hann upptekinn af framtíðarverkefnum, um leið var eins og hann hefði náð samkomulagi við óumflýjanleg endalokin.

Stuttu áður en yfir lauk höfðu synir hans á orði við mig að hann hefði með æðruleysinu gefið þeim og þeirra fólki ómetanlega gjöf, allt hefði orðið auðveldara og fallegra en auðvitað var það gagnkvæmt, þau voru til staðar þegar öllu skipti. Og falleg var hún samleið þeirra Elsu síðustu misserin, ég sagði við hann að þar væri hann lukkunnar pamfíll og það vissi hann best sjálfur. Við Bergljót vottum þeim öllum og öðrum aðstandendum okkar innilegustu samúð.

Ólafur Ó. Axelsson.

Fallinn er frá góður liðsmaður Landbúnaðarháskóla Íslands. Snorri Baldursson hóf störf við Landbúnaðarháskólann sem deildarforseti auðlinda- og umhverfisdeildar í desember 2018. Hann þekkti vel til starfseminnar og hafði áður á árunum 1986-1988 starfað hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins sem var ein af þeim grunnstoðum sem Landbúnaðarháskólinn byggir á.

Snorri starfaði alla tíð ötullega að náttúruvernd og hafði mikinn áhuga og yfirgripsmikla þekkingu á íslenskri náttúru og verndun lífríkis á norðurslóðum. Þekkingu sinni miðlaði hann í margvíslegum rit- og fræðistörfum, þar sem þekktast er ritverk hans Lífríki Íslands – vistkerfi lands og sjávar sem kom út árið 2014 og hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fræðibóka. Í síðasta mánuði kom út bók hans um Vatnajökulsþjóðgarð sem hann hafði unnið að á undanförnum árum, en Snorri hafði verið þjóðgarðsvörður á vestursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs um árabil. Þá var hann verkefnisstjóri umsóknar Vatnajökulsþjóðgarðs um skráningu á heimsminjaskrá UNESCO og hafði umsjón með verkefninu Hörfandi jöklar, í samstarfi við Veðurstofuna og umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Snorri var einnig afkastamikill náttúruljósmyndari og liggja eftir hann margir dýrgripir sem hann leyfði öðrum að njóta á sýningum sem hann hélt.

Snorri tók virkan þátt í innlendu og alþjóðlegu starfi á sviði náttúruverndar, m.a. sem stjórnarmaður í Landvernd á árunum 2015-2018, þar af sem formaður 2015-2017, og á árunum áður sem sérfræðingur í Rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða, sem formaður í sérfræðinganefnd Bernarsamningsins um loftslagsbreytingar og líffræðilega fjölbreytni og formaður sérfræðingahóps Evrópsku umhverfisstofnunarinnar um gerð vísis um áhrif loftslagsbreytinga á lífríki Evrópu og fyrir ágengar framandi lífverur.

Snorri var traustur samstarfsmaður og fræðimaður og átti auðvelt með að setja sig vel inn í mál. Hann greindi jafnan verkefnin ítarlega og lagði til lausnir sem hann átti auðvelt með að kynna og rökstyðja. Hann var góður félagi og er sárt saknað af samstarfsfólki sínu.

Fyrir hönd Landbúnaðarháskóla Íslands þakka ég störf Snorra í þágu skólans og votta aðstandendum hans innilega samúð.

Ragnheiður I.

Þórarinsdóttir rektor.

Smávinir fagrir, foldarskart,

fífill í haga, rauð og blá

brekkusóley, við mættum margt

muna hvort öðru að segja frá.

(Jónas Hallgrímsson)

Þessar ljóðlínur listaskáldsins góða koma upp í hugann þegar ég sit og minnist vinar míns Snorra Baldurssonar og horfi á smávini hans lyngið og blómin í móanum utan við gluggann baða sig í haustsólinni.

Lífið hefur sínar árstíðir. Í sumar nutum við einstaks sumars en haustið kom snögglega. Eins var það með lífið, í vor nutum við hjón samverustundar með Snorra, Júlla Bigga og Svönu, Snorri óbugaður glaður og ræðinn. Seinast í ágúst hringdi ég í hann, ætlaði að heimsækja hann á ættaróðalið í Eyjafirði, en þá var hann á leið suður og sagðist á leið til Ítalíu með Elsu sinni. Hann var enn óbugaður og glaður en greinilegt að fjandi hans var farinn að taka sinn toll. Hann gaspraði með það að það væri nú farið að styttast í kallinum en doktorarnir væru þó ekki alveg búnir að gefast upp á sér og ætluðu að gefa honum eitthvað svo hann gæti klárað þessa Ítalíuferð. Og það gerðu þau Elsa en þá var líka þrekið búið og hið óumflýjanlega tók fljótt af. Hann náði þó að klára að gefa út fallegu bókina sína um Vatnajökulsþjóðgarð, sem liggur hér á borðinu hjá mér og vantar bara eitt, eiginhandaráritun höfundarins. Þannig tókst hann í tæp tvö ár á við illvígan sjúkdóm af eindæma æðruleysi, dugnaði og hóflegri bjartsýni. Kom ýmsu í verk þegar margur í hans sporum hefði setið með hendur í skauti. Skammdegið var honum stundum erfitt og ef hann valdi ekki að kveðja meðan náttúran skartaði sínu fegursta, þá má þakka forsjóninni fyrir að svo fór.

Við hittumst fyrst við þrír, ég Snorri og Júlli Biggi, í Reykholtsskóla 15 ára peyjar. Við bundumst þar vináttuböndum, sem síðan voru ræktuð með samvistum í MA og einnig vorum við samtíða í HÍ. Þrátt fyrir búsetu hvor á sínu landshorninu eða hvor í sínum heimshlutanum, og þetta einkennilega annríki áranna milli þrítugs og fertugs, héldum við alltaf tengslunum, kíktum í heimsókn ef svo stóð á og settumst saman í rútunni á hittingi MA-stúdenta.

Hin síðari ár styrktum við svo vináttuböndin með árlegum hittingi og gönguferðum um fjöll og víkur. Þar var Snorri í essinu sínu og uppfræddi okkur Júlla um það sem fyrir augu bar. Þá var myndavélin hans líka oft á lofti þótt vissulega væri henni eins oft snúið niður og rassinum upp, því blómin voru honum ævarandi myndefni. Við höfðum gengið um öræfi, dali og víkur hér austanlands og labbað á Kaldbak og Kerlingu í Eyjafirði, svo sumarið 2020 var meiningin að taka fyrir heimaslóðir Júlla í Borgarfirðinum. En það varð ferðin sem aldrei var farin, því þá var það annað en annríki, sem var búið að taka völdin. Þetta kennir okkur kannski að forgangsraða. Á komandi sumri munum við Júlli Biggi því labba á Skarðsheiði og minnast þar fallins félaga, hvort sem það verður með því að kyrja einn Hólssöng og láta drjúpa úr pyttlu ofan í urðina, eða bara skilja eftir einn lítinn vönd af smávinunum hans Snorra þar ofan á steini.

Meira á www.mbl.is/andlat

Óli Grétar Metúsalemsson.

Kveðja frá Karlakórnum Fóstbræðrum

Karlakórinn Fóstbræður heldur árshátíð sína að loknum vortónleikum á ári hverju. Þá eru kórfélagar heiðraðir fyrir þátttöku í þessum aðaltónleikum og mælt hve oft þeir hafa staðið á palli.

Síðasta vorhátíð sem haldin var áður en faraldurinn brast á var vorið 2019. Þá hlutu tveir Fóstbræður viðurkenningu fyrir 20 sungna vortónleika og áunnu sér barmmerkið gullhörpu sem er æðsta starfsaldursmerki kórsins. Það vildi svo skemmtilega til að þeir tveir sem þá voru heiðraðir voru sveitungar úr Öngulsstaðahreppi, þeir Friðrik Snorrason frá Hjarðarhaga og Snorri Baldursson frá Ytri-Tjörnum sem hér er minnst.

Árið 2020 var með ólíkindum í starfsemi Fóstbræðra sem og annars staðar. Árið hófst á því að við fréttum af því að Snorri hefði greinst með alvarlegt höfuðmein og yrði að gangast undir alvarlega aðgerð. Hann mætti á æfingu skömmu fyrir aðgerðina og sagði frá stöðunni. Kórinn reis úr sæti og söng fyrir hann félagssöng kórsins; Fóstbræðralag. Snorri stóð fyrir framan kórinn, lygndi aftur augum og drakk í sig orkuna frá bræðrum sínum. Að loknum söngnum sagði hann stutt bless og gekk út hnarreistur.

Aðgerðin gekk vel en þegar frá leið óx sjúkdómnum ásmegin. Við Fóstbræður teljum þó að við höfum átt einhvern þátt í því að bróðir okkar öðlaðist styrk á þeim mánuðum sem hann átti eftir ólifaða til að gefa út glæsilegt rit um Vatnajökulsþjóðgarð og ganga auk þess í hjónaband.

Það er okkur bræðrum í fersku minni þegar hann tók á móti kórnum í Snæfellsstofu á Skriðuklaustri vorið 2012. Þar flutti hann fyrirlestur um Vatnajökulsþjóðgarð og mikilvægi hans. Það duldist engum hvar hjarta hans sló þegar náttúra Íslands var annars vegar. Það er einmitt það sem góður söngmaður þarf að gera; að láta hjartað vera með í för, annars er hætt við að menn verði falskir.

Skömmu áður en hann lést fór fram athöfn á ölstofunni Skuggabaldri við Austurvöll þar sem glæsirit hans um Vatnajökul kom út. Snorri kom á staðinn langt leiddur af veikindum en okkur sem þar vorum stödd þótti vænt um að hitta hann og samgleðjast honum. Fósturvísarnir, sönghópur skipaður félögum í Fóstbræðrum, sungu nokkru lög og óskuðu bróður sínum til hamingju með áfangann fyrir hönd kórsins. Það hreyfði við öllum þegar bræðurnir fluttu lag og texta Braga Valdimars Skúlasonar „Orðin þín“, ekki síst hreyfði það við hinum nýbökuðu hjónum Snorra og Elsu. Að því sungnu voru söngmennirnir klappaðir upp og skiptu þeir þá um gír og tóku lagið hans Ragga Bjarna „Flottur jakki“. Létti þá yfir öllum og Snorri sýndi af sér töffaratakta í hjólastólnum smellandi fingrum. Glaður og reifur skyldi gumna hver; þessi stund horfir við okkur núna sem „grand finale“.

Fyrir hönd Fóstbræðra sendi ég Elsu, sonum Snorra, tengdadætrum, barnabörnum og öðrum fjölskyldumeðlimum innilegar samúðarkveðjur.

Einhvern tímann ef til vill og óralangt frá þessum stað munum við Fóstbræður taka lagið með Snorra, einhvers staðar þar sem jökulinn ber við loft og fegurðin ríkir ein.

Fyrir hönd Karlakórsins Fóstbræðra,

Arinbjörn Vilhjálmsson formaður.

Kvaddur er í dag góður vinur, ferðafélagi og fyrirmynd. Snorri kom til starfa sem þjóðgarðsvörður á vestursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs skömmu eftir stofnun þjóðgarðsins 2008. Hann tók strax til við mótun á innviðauppbyggingu þjóðgarðsins, enda gamalgróinn í þessum geira. Snorri var landvörður í þjóðgörðunum bæði í Jökulsárgljúfrum og í Skaftafelli, og þekkti því vel þörfina fyrir verndun lífríkis og jarðmyndana, en kunni einnig að miðla þekkingu sinni til gesta og samstarfsmanna.

Snorri var eldsnöggur og laginn við að setja saman fræðslutexta og var afar vel heima í allra handa náttúrutengdum fræðigreinum. Hann var líka hæfileikaríkur ljósmyndari og hafði einstakt auga fyrir fegurð náttúrunnar, í smáu sem stóru. Þessir hæfileikar hans skína kannski skærast í stórvirkinu Lífríki Íslands, en hann ritstýrði einnig umsókn Vatnajökulsþjóðgarðs um skráningu á heimsminjaskrá UNESCO og nýja bókin hans Vatnajökulsþjóðgarður: gersemi á heimsvísu, sem byggð er á umsókninni og kom út fyrir skemmstu, er svo sannarlega gersemi. Fyrir okkur, sem fengum að vinna með Snorra og læra af honum, var þó hitt ekki síðra – að geta kallað eftir aðstoð, fróðleik, myndum, og faglegri ráðgjöf, hvenær sem var – og koma aldrei að tómum kofunum. Jákvæðnin og hjálpsemin og innilegur áhugi á viðfangsefnum okkar átti sér engin takmörk.

Sem ferðafélagi um jökla landsins bjó Snorri yfir þeirri þolinmæði og yfirvegun sem þarf til þess að forðast hættulegar aðstæður og njóta um leið stórfenglegrar náttúru. Hálendið og töfrar þess voru honum ómetanlegur fjársjóður. Snorri var óþreytandi eldhugi og brann fyrir náttúruvernd og verndun víðerna landsins fram á síðasta dag. Síðasta grettistakið í þeim efnum var stofnun Skrauta og aðkoma hans að því að hleypa af stokkunum verkefninu Óbyggð, kortlagningu víðernanna.

Nú reynir á okkur hin að breikka bakið og sjá til þess að þetta framlag Snorra verði víðernunum okkar sú vernd og það skjól sem hann þráði að veita þeim.

Við, vinnufélagar, sporgöngumenn og vinir Snorra á vestursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs, erum þakklát fyrir að hafa átt hann að og færum fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur.

Kári, Orri Páll, Jóna Björk og Fanney.

Góður drengur hefur kvatt. Náttúruunnandinn, söngfuglinn og fagurkerinn Snorri Baldursson hefur tekið malpoka sinn og staf og stefnir nú ótrauður inn á lendur óvissunnar þar sem eilífðin ein vakir.

Veður og vindar skipta ekki lengur máli því hann hefur verið leystur frá efninu og andi hans nú frjáls allra ferða um óbyggðir lands og ókunnra heima þar sem mjúk þögnin fyllir loft og láð og hvert fótmál er varðað af tómri væntumþykju.

Eftir sig skilur Snorri glaðar og góðar minningar en að auki hvatningarorð til okkar hinna, sem eftir sitjum ögn hnípin, bogin og beygð, hvatningu og áeggjan að hlúa nú áfram vel að íslenskri náttúru og sætta okkur aldrei við skammtíma málamiðlanir og/eða útsölur á náttúrugersemum heldur flykkjast um allt það fallega og góða í umhverfi okkar, vernda viðkvæma vaxtarsprota og sýna umhyggju öllu því sem vex af jörðu, kallar fram fegurð og gleði og gerir okkur í leiðinni að ögn betra mannfólki.

Farðu og sértu glaður, góði vinur, og megi koma þín á nýjar slóðir leiða af sér sætari ilm í kjarri og himneskan fuglasöng.

Vinarkveðja,

Egill Eðvarðsson.

Kom í heim íssins og eimsins

í algleymi bláfjallageimsins,

uppljómun andlega seimsins

á Íslandi, gersemi heimsins.

Svona mætti orða þá hugsjón sem Snorri Baldursson helgaði sig. Hann var landvörður með stórum staf og það mátti líka orða köllun hans á alþjóðlega vísu:

Verum verðir náttúrunnar,

vígð til þess að bjarga henni og virða;

kynslóðin, sem kveikir líf

og kappkostar um vistkerfin að hirða.

(We are the rangers, pledged to save the nature of the earth!

We are the generations that shall give its life new birth!)

Það mátti sjá hann í huga sér með staf sinn í óbyggðunum standandi líkt og landvættur skjaldarmerkis Íslands þess albúinn að styðja við varðveislu á heilögum véum landsins og allra jarðarbúa. Nú hefur hann lokið mögnuðu ævistarfi á þann veg að í minnum verður haft með djúpri þökk, söknuði og samúðarkveðjum til hans nánustu.

Ómar Ragnarsson

Einbátungur

Nú blánar við sjónarrönd

fyrir svefneyjunum.

Hann leggur

árar í kjöl

og hafstraumurinn vaggar

og vaggar hægt og rótt

bátnum þangað

í beina stefnu.

(Hannes Pétursson)

Snorri var glæsilegur maður, dökkur á brún, hagur til hugar og handa, skemmtilegur, einbeittur og kappsfullur. Hann kynnti sér til hlítar þau viðfangsefni sem fyrir lágu hverju sinni og reyndi að sjá til botns, allt sjúsk og hálfkák var honum fjarri. Hann var glaðlyndur, nokkuð skapmikill; stundum ögn utan við sig eins og hendir eldklára menn í erli dagsins. Hann rakst illa í hóp nema hann fengi að ráða stefnunni, enda löngu búinn að kynna sér málsefni frá upphafi til enda; var í sjálfu sér einfari þótt ekki vildi hann vera einn, sagði hann.

Snorri var náttúruverndarsinni af hug og hjarta, fylgdi þeirri stefnu fast eftir og gaf engan kost á málamiðlunum. Ástar og virðingar fyrir ósnortinni náttúru sér stað í skrifum hans, hvössum blaðagreinum og bókum, t.d. Lífríki Íslands, sem hann fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir, og nú síðast í ritinu um Vatnajökulsþjóðgarð; öndvegisbækur, skrifaðar á alþýðlegu máli, lausar við allan fræðilegan rembing og í engu slegið af kröfum; margar ljósmyndir hans afbragð.

Við vorum samstarfsmenn nokkur ár í FÁ og höfum síðan vitað hvor af öðrum og hist annað slagið og skrafað yfir kaffibolla okkur til ánægju, síðast nú í maí. Vissulega hefðu þær stundir getað verið fleiri en á öld snjalltækja virðist þorri þjóðar sitja sæll við sinn skjá, „heygarðshorn“ nútímans. Snorri vissi vitaskuld í hvað stefndi en tókst á við veikindi sín af einurð, lagði ekki árar í kjöl, hélt ótrauður sínu striki, jafnvel af meira krafti en fyrr meðan tíminn og meinið þokuðu honum án afláts að svefneyjunum sem bíða okkar allra. Síðasta rúman áratug las hann mikið um trúmál og þýddi/endursagði rit sem veitti honum styrk; um guð í hverjum manni. Hann óttaðist ekki „vistaskiptin“, eins og hann orðaði það. Fari hann nú sæll í sinni trú.

Viðhorf Snorra eiga örugga samleið með hugblæ í ljóði eftir Hannes Pétursson:

Berjalyngið er ljúfast af öllum gróðri.

Ekkert á grænni jörð

jafnast á við blíðleik þess

í fylgd með svefni sem hnígur rótt

á hvarma barns

að dagslokum síðla sumars.

Þá liggur frá brjósti þess silfurþráður

inn í sannhreinan

sunnanblæ veraldar

og ríki náttúrunnar

er ríki ríkjanna, til grunna.

Ástvinum hans öllum færum við Magnea samúðarkveðjur.

Sölvi Sveinsson.

Snorri Baldursson brautskráðist sem líffræðingur frá Háskóla Íslands árið 1977 og allar götur síðan var hann ötull baráttumaður fyrir verndun íslenskrar náttúru. Þar munaði sannarlega um framlag hans. Snorri var hugsjónamaður sem stóð fast á sínu en var alltaf málefnalegur, rökfastur og djarfur. Síðasta baráttumál hans var verndun víðerna Vonarskarðs sem vonandi verður til lykta leitt með farsælum hætti.

Snorri var fjölhæfur og kom víða við. Hann beitti sér fyrir verndun líffræðilegrar fjölbreytni bæði hér heima fyrir og alþjóðlega, ekki síst í hlutverki framkvæmdastjóra CAFF (Conservation of Arctic Flora and Fauna). Snorri hafði breiða þekkingu í líffræði, hann hafði ferðast víða og sá jafnt hið stóra samhengi sem það smáa í náttúrunni. Bók hans Lífríki Íslands: vistkerfi lands og sjávar er yfirgripsmesta rit sem út hefur komið um lifandi náttúru landsins. Hún var innlegg sem sárlega hafði skort í langan tíma. Bókin er vönduð í alla staði og endurspeglar þá virðingu sem Snorri ávallt bar fyrir náttúrunni. Hann var ritfær og skrifaði fallega og vandaða íslensku. Snorri var líka einstaklega góður náttúruljósmyndari eins og allar bækur hans vitna um.

Þeir sem gerast talsmenn náttúruverndar og tala fyrir gildi hennar fá ekki fyrir það laun í jarðneskum verðmætum. Snorri var hins vegar ómissandi félagi í allstórum en þó óformlegum hópi líffræðinga sem láta sig náttúruvernd á Íslandi skipta. Hann skilur eftir sig vandfyllt skarð en eftir lifir minning um góðan dreng með stórt náttúruverndarhjarta, líffræðing og listamann. Við viljum fyrir hönd Háskóla Íslands þakka Snorra fyrir samfylgdina og vottum aðstandendum hans samúð.

Ingibjörg Svala Jónsdóttir prófessor í vistfræði og

Þóra Ellen Þórhallsdóttir prófessor í grasafræði

við Háskóla Íslands.

„Ut við Jórdan, ef maður liggur opinn á sléttum velli og setr kné sitt og hnefa á ofan og reisir þumalfingr af hnefanum upp, þá er leiðarstjarnan þar fyrir að sjá jafnhá en eigi hærra.“

Sveitungi Snorra, Nikulás Bergsson ábóti á Munkaþverá, fór í pílagrímsferð til Rómar og Jerúsalem á tólftu öld. Að hætti miðaldamanna var himinhvolfið honum kunnugt, líkt og grösin og blómin við bæjarlækinn. Pólstjörnuna kallar hann leiðarstjörnu enda vísar hún alltaf leiðina til norðurs og þar með til allra átta. Einungis þurfti að finna Karlsvagninn til þess að koma auga á hana. Var nærri beint yfir höfði hans á heimaslóðum, en lækkaði eftir því sem nær dró miðbaugi. Þótt aldir skildu Snorra og Nikulás bjó í báðum sama nákvæma eftirtekt náttúrufyrirbæra, frásagnargleði og vilji til þess að snúa aftur heim.

Snorri var félagi minn í karlakórnum Fóstbræðrum. Þar myndast sterkt bræðralag sem fullkomnast í samhljómi söngsins en verður þó ekki síður til utan hans. Okkur félögunum í fyrsta bassa, á aftasta bekk, þótti gott að hafa Snorra sem sessunaut og söknum nú vinar í stað. Í heimsókn að Ytri-Tjörnum, síðsumars, mátti loks sjá manninn í sínu náttúrulega umhverfi. Fegurðin og gróðurinn sem umlukti allt var í hrópandi andstöðu við sjúkleikann sem var á góðri leið með að svipta hann öllu atgervi. Var hress og glaður í bragði og virtist hvorki bregða sér við sár né bana. Þakklátur fyrir gjafir lífsins. Hans hinsta ósk varð uppfyllt og dauðastríðið fékk hann að heyja á heimili sínu. Allan tímann umvafinn mikilli ást og kærleika sinna nánustu. Bach og Tárrega yfir og allt um kring.

Eiríkur Jónsson.

Þrátt fyrir að Ísland sé strjálbýlt og vel yfir helmingur þess óbyggður hefur verið sótt að íslenskri náttúru frá landsnámstíð með ósjálfbærum búskaparháttum. Landið okkar ber merki þessarar umgengni við náttúruna. Gróður- og jarðvegseyðing hefur verið meiri hér á landi en víðast hvar. Þessari óheillaþróun er vonandi að ljúka og bjartara fram undan. Önnur eyðingaröfl hafa því miður tekið við. Stýrast þau einkum af framkvæmdagleði og voninni um skjótfenginn gróða, en meta gildi óspilltrar náttúru og víðerna sem léttvæg. Þar eru öflugir aðilar að baki með rúman fjárhag og njóta oft mikillar velvildar stjórnvalda þar sem athafnir þeirra eru taldar efla hinn eftirsótta hagvöxt. Náttúruverndarsjónarmiðin þurfa því á góðum og gegnum liðsmönnum að halda til mótvægis.

Snorri Baldursson var öflugur og fórnfús liðsmaður í náttúruvernd um langt árabil. Það er skarð fyrir skildi við fráfall hans. Úthald, þekking og ritsnilld eru þau vopn sem hvað helst duga í náttúruverndarbaráttunni. Snorri Baldursson var náttúruverndari sem kunni að beita framangreindum vopnum betur en flestir aðrir. Hann bjó yfir víðtækri þekkingu á náttúru landsins og alþjóðlegum straumum og stefnum í náttúruvernd. Hann bjó að yfirburðaþekkingu í fræðunum og ritaði skýran og grípandi texta. Hann færði haldgóð rök fyrir máli sínu og var fylltur sannfæringarkrafti. Bók hans Lífríki Íslands er afar verðmætt framlag til skilnings á því.

Snorri kom víða við í starfi sem kennari, vísindamaður, rithöfundur, stjórnandi í alþjóðlegu náttúruverndarsamstarfi og sem þjóðgarðsvörður. Á öllum þessum vígstöðvum var hann öflugur og heill. Hans verður því vel minnst og að góðu getið í sögu íslenskrar náttúruverndarbaráttu.

Snorri sat í stjórn Landverndar á árunum 2015 til 2019 og gegndi starfi formanns samtakanna um tveggja ára skeið. Undir forystu hans var tekist á um fjölmörg erfið mál þar sem hæfileikar og þekking Snorra nutu sín til fulls. Stjórn Landverndar þakkar góðum og ósérhlífnum félaga samfylgdina og vottar fjölskyldu hans samúð.

Tryggvi Felixson, formaður Landverndar.