Skagafjörður Varmahlíð er miðsvæðis í firðinum vestanverðum.
Skagafjörður Varmahlíð er miðsvæðis í firðinum vestanverðum. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Sveitarfélagið Skagafjörður og Akrahreppur hafa gengið til formlegra viðræðna um samningu og er vinnan við verkefnið komin á fullt skrið, að því er fram kemur á sérstökum vef sem stofnaður hefur verið um verkefnið, skagfirdingar.is.

Sveitarfélagið Skagafjörður og Akrahreppur hafa gengið til formlegra viðræðna um samningu og er vinnan við verkefnið komin á fullt skrið, að því er fram kemur á sérstökum vef sem stofnaður hefur verið um verkefnið, skagfirdingar.is. Héraðsmiðillinn Feykir vakti fyrst athygli á þessu.

Sérstök samstarfsnefnd um sameininguna hefur fengið skólastjórnendur í Varmahlíð og sérfræðinga af fjölskyldusviði Sveitarfélagsins Skagafjarðar á tvo fundi nefndarinnar þar sem staða og framtíðarsýn í félags- og fræðsluþjónustu var rædd. Auk þess er umræða um fjármál sveitarfélaganna og stjórnskipulag komin vel á veg.

„Markmið með vinnu samstarfsnefndarinnar er að fá fram upplýsingar um stöðu og sjónarmið fyrir mótun framtíðarsýnar og stuðla að auknum samskiptum og samráði við sérfræðinga sem starfa í stjórnsýslu sveitarfélaganna,“ segir m.a. á fyrrnefndum vef en þar verða sett inn minnisblöð um stöðu og framtíðarsýn málaflokkanna um leið og niðurstöður samstarfsnefndarinnar hafa verið dregnar saman.

Niðurstöður og samantekt á vinnu samstarfsnefndar verða nýttar til undirbúnings íbúafunda sem áætlaðir eru í lok janúar á næsta ári.

Í samstarfsnefndinni sitja 10 fulltrúar, fimm frá hvoru sveitarfélagi, og síðan eru tveir varamenn. Formaður nefndarinnar er Hrefna Jóhannesdóttir, oddviti Akrahrepps.

Sveitarfélagið Skagafjörður varð til árið 1998 með sameiningu allra sveitarfélaga í firðinum, fyrir utan Akrahrepp, sem æ síðan hefur gengið undir nafninu „fríríkið“. Í Akrahreppi búa nú um 210 manns en í Svf. Skagafirði um 4.050, þar af um 2.650 á Sauðárkróki. bjb@mbl.is