Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson: Harðgiftur er seggur sá. Sjötti kominn Jóni frá. Mér að skapi mjög hann er. Mikill þykir fyrir sér. Nú brá svo við, að rétt lausn barst ekki, en sjálfur skýrir Guðmundur gátuna svona: Eiginmaður mundi sá.

Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:

Harðgiftur er seggur sá.

Sjötti kominn Jóni frá.

Mér að skapi mjög hann er.

Mikill þykir fyrir sér.

Nú brá svo við, að rétt lausn barst ekki, en sjálfur skýrir Guðmundur gátuna svona:

Eiginmaður mundi sá.

Maður sjötti Jóni frá.

Mér að skapi maður er.

Maður sá er fylginn sér.

Þá er limra:

Hjalli er hestamaður

helst til mislukkaður,

en geysi frár

og furðu knár

hans foli er ekki staður.

Síðan er ný gáta eftir Guðmund:

Úti rignir endalaust,

englabörnin gráta,

enn er komið hrollkalt haust,

hér er fislétt gáta:

Hún á vefstól einatt er.

Á mér snyrtir kollinn vel.

Bráðum skal ég borga þér.

Býsna þörf á sláttuvél.

Nikulás Sveinsson sendi mér tölvupóst og kallar „Hnoð“:

Hver fer út og hver fer inn

hverjum þarf að fórna

jæja þá í þetta sinn

skal ég áfram stjórna.

Er á meðan er

allir sjá að sér

sama hvernig fer

segir hugur mér.

Gísli Jónsson kvað:

Held ég besta hlutskipti,

hverjum það til félli,

mega eignast Margréti,

Mávahlíð og Velli.

Einhvern tíma hefur þessi vísa verið höfð lokavísa í skandéringu:

Komst hann Láki kútinn í,

kreppist allur saman.

Við skulum hlæja þá að því;

þetta verður gaman.

Helga digra Guðmundsdóttir frá Lönguhlíð í Hörgárdal orti um mann, sem átti hjákonu:

Eins og melur alþekktur

ýmsa felur hrekki,

hefur í seli Sigurður

sem hann telur ekki.

Lúðvík Kemp orti:

Þessi „landi“ er þrísoðinn

af þeim sem verkið kunni,

og sýnist vera samboðinn

sveitamenningunni.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is