Leigh-on-Sea Lögregla á vettvangi þar sem Sir David Amess var særður mörgum stungusárum í hádeginu í gær er urðu þingmanninum að aldurtila.
Leigh-on-Sea Lögregla á vettvangi þar sem Sir David Amess var særður mörgum stungusárum í hádeginu í gær er urðu þingmanninum að aldurtila. — AFP
Hálfþrítugur maður er í haldi lögreglu í Essex á Englandi, grunaður um að hafa stungið David Amess, þingmann breska Íhaldsflokksins, margsinnis með eggvopni og ráðið honum bana þar sem hann var staddur á fundi í Belfairs-meþódistakirkjunni í Leigh-on...

Hálfþrítugur maður er í haldi lögreglu í Essex á Englandi, grunaður um að hafa stungið David Amess, þingmann breska Íhaldsflokksins, margsinnis með eggvopni og ráðið honum bana þar sem hann var staddur á fundi í Belfairs-meþódistakirkjunni í Leigh-on Sea um hádegisbil í gær.

Elísabet drottning aðlaði Amess árið 2015 fyrir þjónustu hans við landa sína og bar hann síðan nafnbótina Sir David Amess. „Áfall og sorg þyngir hjörtum okkar,“ sagði Boris Johnson forsætisráðherra í gær, við fráfall þessa 69 ára gamla fimm barna föður, sem hann kallaði „einn mesta mannvininn“ í breskum stjórnmálum og lét þess enn fremur getið að Sir David ætti sér glæstan feril við að láta áleiðis núast lagafrumvörp til stuðnings þeim þjóðfélagsþegnum er hve höllustum fæti standa.

Í blóði sínu á gólfinu

Priti Patel innanríkisráðherra sagði víg Amess „skynlausa atlögu að sjálfu lýðræðinu“ og sagði réttmætt að spyrja áleitinna spurninga um öryggismál þjóðkjörinna fulltrúa Bretlands, en Amess stóð fyrir fundi í kirkjunni, sem kjósendum var frjálst að sækja og ræða þar þjóðþrifamál eða annað sem þeim lægi á hjarta.

Ben-Julian Harrington, lögreglustjóri í Essex, sagði lögreglu hafa borist orð um tilræðið klukkan fimm mínútur yfir tólf á hádegi og aðeins örfáum mínútum síðar hefðu lögregluþjónar, sem fyrstir voru á vettvang, komið að þingmanninum í blóði sínu á kirkjugólfinu með fjölda stungusára. Þeir hefðu gert allt, sem í þeirra valdi stóð, til að bjarga lífi Amess, en ekki haft erindi sem erfiði. Þingmaðurinn var úrskurðaður látinn á vettvangi.

Lögreglan í Essex hefur óskað eftir að öll möguleg vitni gefi sig fram, þar á meðal fólk með myndavélar á mælaborðum bifreiða sinna, sem ók um nágrenni kirkjunnar um hádegisbil, og íbúar í nágrenninu með öryggismyndavélar á húsum sínum, jafnvel myndavélar tengdar dyrabjöllum.

Skammt stórra högga á milli

Víg Amess í gær er annað banatilræðið gegn breskum þingmanni á aðeins fimm árum, en skemmst er að minnast þess er Jo Cox, þingmaður Verkamannaflokksins, var stungin og skotin til bana í Birstall í Yorkshire 16. júní 2016 þar sem hún ræddi við kjósendur. Hægriöfgasinninn Thomas Mair hlaut ævilangan fangelsisdóm fyrir verknaðinn í nóvember sama ár.

Sir David Amess hefur setið á þingi fyrir Íhaldsflokkinn í tæp 40 ár, allar götur síðan 1983, fyrst fyrir Basildon, en síðan í kosningunum 1997 hefur sæti hans tilheyrt Southend West. Amess hefur löngum verið andstæðingur þungunarrofa auk þess að gefa réttindum dýra gaum og þeim þegnum landsins, sem eiga hvað gerst undir högg að sækja í daglegu lífi.

Dó þjónandi fólkinu

„Sir David var mikilmenni, sannfærður kaþólikki og vinur allra. Enda var það einmitt það sem hann aðhafðist á banastundu, hann dó þjónandi fólkinu,“ sagði Jeff Woolnough, prestur við Péturskirkjuna í Essex, við breska ríkisútvarpið BBC eftir harmleikinn í gær. atlisteinn@mbl.is