Ég er þessi týpa sem elskar góðar sjálfshjálparbækur. Sumar þeirra finnst mér reyndar geta verið alveg óþolandi en þegar þær hitta á mann á réttum tíma og segja það sem maður þarf að heyra eins og maður þarf að heyra það eru þær gulls ígildi. Untamed eftir bandaríska rithöfundinn Glennon Doyle virkaði þannig á mig.
Hún kom út í mars 2020 og hefur verið ein af mínum uppáhaldsbókum síðan. Hún er sett upp sem einhvers konar blanda af sjálfshjálparbók og samansafni minninga úr lífi Glennon.
Í grunninn segir hún söguna af því hvernig Glennon lærði að vera góð móðir átti hún ekki að fórna sér fyrir börnin sín heldur sýna þeim hvernig á að lifa lífinu til fulls. Ef við viljum að börnin okkar lifi sínu lífi til fulls og séu sannasta og fallegasta útgáfan af þeim sjálfum þá kennum við þeim það með því að lifa okkar eigin lífi til fulls og vera sannasta og fallegasta útgáfan af okkur sjálfum. Börnin læra nefnilega síður það sem þeim er sagt, en frekar það sem fyrir þeim er haft.
Glennon talar um hvernig við eigum að sjá fyrir okkur sönnustu og fallegustu útgáfuna af lífi okkar og hvernig við tökum skrefin í átt að því lífi með því til dæmis að setja mörk. Við sem mannfólk verðum að læra að sleppa tökunum á því að þóknast öðrum svo við getum farið að þóknast okkur sjálfum.
Glennon undirstrikar að það getur verið sérlega erfitt að setja okkar nánasta fólki mörk og brjóta mynstur sem hafa orðið til í gegnum árin en, eins og lykilsetning bókarinnar segir svo hreint og beint; Við getum gert erfiða hluti. Sannasti og fallegasti stígurinn er nefnilega ekki endilega sá auðveldasti en hann er alltaf sannur og fallegur og þess virði að feta. Ef við flýjum það sem er erfitt þá flýjum við okkur sjálf.
Mér finnst boðskapur bókarinnar einstaklega fallegur og uppsetningin náði til mín. Ég trúi því að sögur breyti heiminum og það var því hressandi að lesa sjálfshjálparbók sem var byggð upp í smásagnastíl. Bókin gerir lesanda kleift að skyggnast inn í líf Glennon, spegla sig í hennar upplifunum, hreyfast með sögunum og læra um sjálfan sig í leiðinni.
Ég mæli heilshugar með Untamed.