Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra; Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra; Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra:
Landssamband eldri borgara leyfir sér að senda ykkur helstu áhersluatriði eldra fólks, sem tekin voru saman af formönnum nokkurra stærstu félaga innan sambandsins, samþykkt á formannafundi allra félaganna 55 og loks á landsfundi samtakanna í vor. Þessi áhersluatriði hafa verið kynnt öllum stjórnmálaflokkum sem buðu fram til síðustu alþingiskosninga, verkalýðshreyfingunni, samtökum atvinnurekenda, samtökum sveitarfélaga og víðar og eru ítrekuð hér sem innlegg í yfirstandandi stjórnarmyndunarviðræður.
Við leyfum okkur að fullyrða að þessum hugmyndum okkar hefur alls staðar verið vel tekið og við teljum að þær hafi átt hljómgrunn og orðið hluti af kosningabaráttunni. Má sérstaklega geta jákvæðra viðbragða fulltrúa ykkar á kynningarfundum LEB.
Enn einu sinni er komið að efndum á loforðum um bætta þjónustu við eldra fólk og bættan hag þess. Eldra fólk hefur lagt fram kröfu um að fá að vinna eins og það vill og að frítekjumark af lífeyris- og atvinnutekjum þess verði hækkað. Eldra fólk vill að starfslok miðist við færni en ekki aldur, að heilsugæslan verði vagga öldrunarþjónustunnar, að til verði millistig í búsetukostum á milli heimilis og hjúkrunarheimilis og að lög um málefni þeirra verði einfölduð til muna.
Hjálögð eru ítarleg áhersluatriði okkar sem kynnt voru í vor og það er von okkar að þau rati í stjórnarsáttmála ykkar.
1. Eldra fólk fái að vinna eins og það vill
2. Starfslok miðist við færni en ekki aldur
3. Heilsugæslan verði vagga öldrunarþjónustunnar
4. Millistig milli heimilis og hjúkrunarheimilis
Fjármunum Framkvæmdasjóðs aldraðra verði einungis varið til byggingar stofnana fyrir aldraða og til að mæta kostnaði við nauðsynlegar breytingar og endurbætur á húsnæði sem notað er til þjónustu við þá eins og kveðið er á um í lögum.
5. Ein lög í stað margra lagabálka
Höfundur er formaður Landssambands eldri borgara. formadur@leb.is