Sveitarstjórnir víðs vegar á landinu hafa nú til skoðunar hugmynd um að sett verði á fót ein húsnæðissjálfseignarstofnun á landsbyggðinni. Hugmyndin er upphaflega komin frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) og er markmiðið að stuðla að uppbyggingu almennra íbúða þar sem þess er þörf utan höfuðborgarsvæðisins og vaxtarsvæða. Þetta verði sérstaklega gert til að auðvelda tekjulágum hópum að fá húsnæði og hópum sem sveitarfélög bera sérstakar lagaskyldur gagnvart, m.a. fötluðum einstaklingum.
Hafa frest til loka október
Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur fjallað um málið og óskað eftir að sveitarstjórnir taki afstöðu til málsins fyrir lok október.Er hugmyndin sú að stofnunin verði samstarfsverkefni sveitarfélaga, sem geti náð fram stærðarhagkvæmni með því að sameinast um uppbyggingu og rekstur íbúðanna.
Fram kemur á minnisblaði HMS að í dag séu átta húsnæðissjálfseignarstofnanir starfandi á vegum sveitarfélaga utan höfuðborgarsvæðisins sem hafa fengið úthlutuð stofnframlög til alls 42 íbúða og þrjú byggðasamlög fengið stofnframlög til 16 íbúða. Rekstur lítilla félaga geti reynst afar óhagkvæmur og í litlum sveitarfélögum þar sem ekki er þörf fyrir margar almennar íbúðir geti verið erfitt að standa að hagkvæmri byggingu þeirra og rekstri. Ná megi fram hagkvæmni í að farið yrði í sameiginleg uppbyggingarverkefni í nokkrum sveitarfélögum í senn. „Þannig mætti sjá fyrir sér að stofnunin sem tillagan snýr að gæti boðið út verkefni í nokkrum sveitarfélögum, jafnvel í einhverjum áföngum til nokkurra ára [...],“ segir m.a. á minnisblaði HMS. omfr@mbl.is