Í Ósló „Þegar ég kem á vinnustofuna er sem ákveðinn kraftur leysist úr læðingi,“ segir Georg Óskar.
Í Ósló „Þegar ég kem á vinnustofuna er sem ákveðinn kraftur leysist úr læðingi,“ segir Georg Óskar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is Sýning á 16 nýjum málverkum eftir myndlistarmanninn Georg Óskar var opnuð í JD Malat-galleríinu í London í vikunni, í tengslum við Frieze-listkaupstefnuna sem haldin er nú þar í borg.

Einar Falur Ingólfsson

efi@mbl.is

Sýning á 16 nýjum málverkum eftir myndlistarmanninn Georg Óskar var opnuð í JD Malat-galleríinu í London í vikunni, í tengslum við Frieze-listkaupstefnuna sem haldin er nú þar í borg. Yfirskrift sýningarinnar er Pain Thing og vísar í senn til þess að mála og áskorananna sem felast í því fyrir listamanninn. Georg hefur sýnt verk sín víða á undanförnum árum, auk Íslands á Spáni, Filippseyjum, í Kína, Þýskalandi, Malasíu, Sviss og Noregi en þetta er fyrsta einkasýning hans á Bretlandseyjum.

Í texta frá galleríinu sem fylgir sýningunni úr hlaði í sýningarskrá segir að málverk Georgs Óskars séu eins konar sjónræn dagbók listamannsins þar sem hann veltir hversdagsleikanum fyrir sér. Verkin mótist í senn af skopskyni listamannsins og vissri melankólíu sem fái útrás í langvarandi áhuga hans á öfgunum í mannlegri tilveru.

Var bölvaður hrokagikkur

Georg Óskar var við opnun sýningarinnar í London en var í gær kominn aftur heim til Óslóar þar sem hann hefur búið og starfað í rúmt ár, ásamt eiginkonu sinni Yafei Qi sem er kínversk en þau kynntust í meistaranámi í myndlist í Bergen fyrir sex árum. Eftir námið störfuðu þau að myndlistinni í á þriðja ár í Berlín þar sem verk Georgs fóru að verja vaxandi athygli.

Georg segist hafa ákveðnar rætur og tengingar í Ósló. „Við vorum læst inni í Covid í Berlín, létum sjö mánuði nægja af því og fannst þá kominn tími til að færa okkur og Ósló var staðurinn,“ segir hann. „Okkur bauðst að flytja og kýldum á það.“

Georg segist eiga rætur víða; hann bjó fyrstu fimm árin á Krít, ólst svo upp á Dalvík og bjó síðan á Akureyri. Hann fór í myndlistarskólann á Akureyri og þar hófst ferillinn en flutti svo til Reykjavíkur þar sem hann bjó í þrjú-fjögur ár.

„Ég leigði vinnustofu í bílskúr sem ég deildi með pabba konunnar sem leigði mér en hann hnýtti þar flugur. Það var mikið hark en ég vann sem þjónn, á löngum vöktum, og reyndi að mála líka. Síðan sótti ég um í Bergen og fékk þar tvö gríðarmikilvæg ár í meistaranáminu, fékk tíma sem ég þurfti á að halda, óáreittur með mínu.

Síðan flutti ég til Berlínar og það var stórt skref, því þar kynntist ég gríðarmikilli myndlist í þeirri miklu menningardeiglu. Þar er pláss fyrir alls konar myndlist, eitthvað fyrir alla, og ég varð talsvert opnari þar fyrir ólíkum hlutum. Ég var áður með attitútið „Málverk eða ekkert!“, „Francis Bacon eða enginn!“ Var sem sagt bölvaður hrokagikkur en ég öðlaðist meiri víðsýni. Yafei er í ljósmyndum og vídeóverkum og ég fékk meiri áhuga á myndlist almennt séð, og á öðrum miðlum en bara þeim sem ég vinn í. En málverkið er miðillinn minn.“

Ýmsar dyr opnuðust

Síðan Georg Óskar kom sér fyrir í Berlín eftir námið í Bergen hafa verk hans verið sýnd víða.

„Það er satt, ég hef sýnt víða á undanförnum árum,“ segir hann spurður um það. „Ég hef til dæmis verið í Kína og út frá stórri samsýningu í Vestfossen, sem Helgi Þorgils Friðjónsson hafði mælt með að verkin mín yrðu sett á, þá opnuðust ýmsar dyr. Í kjölfarið af því bauðst mér einkasýning í Kuala Lumpur og svo önnur í London í Kanada, báðar 2018. Ég sýndi mjög mikið á þeim tíma, var með sex eða sjö sýningar á ári í tvö ár, en Berlín er líka svo miðsvæðis að ég gat hoppað upp í lest og farið með verk á sýningu í Hollandi og í Sviss. Mér var boðið að taka þátt og kýldi á það. En núna stefni ég á að vera helst ekki með nema svona tvær sýningar á ári, í mesta lagi þrjár. Maður getur bara málað ákveðið mörg verk, ég geri ekki fleiri en 20 til 30 á ári, og finnst nú mikilvægara að gæðin séu meiri en fjöldinn.“

Hættur að hoppa á boð

Þegar Georg Óskar er spurður út í sýninguna sem var nú að opna í JD Malat galleríinu í London segir hann að í því tilfelli hafi eigandinn einfaldlega rekist á verk eftir hann á netinu.

„Hann hreifst af verkunum, við fórum að spjalla saman og fyrir ári síðan bauð hann mér að sýna. Ég sagðist þurfa eitt ár til að vinna að sýningu, það er tíminn sem ég þarf. Ég er hættur að hoppa á boð um að sýna með einhverjum asa. Og nú er sýningin komin upp en ég málaði verkin hér í Ósló.“

Það er mikil kraftur í tjáningarríkum verkum Georgs Óskars og eins og fyrr segir þá er í sýningarskránni talað um að þau séu eins konar dagbók hans, þar sem hann bregst við áreitinu í umhverfinu í myndmáli og stundum textum sem hann málar líka á strigann. Hann segir þetta ágæta lýsingu á nálgun sinni.

„Málverkið er mitt tjáningartæki. Ég fer ekki upp í pontu og held ræður, það er ekki minn vettvangur, en áreitið í hversdagsleikanum, og líka áreiti innra með mér og hvernig ég hugsa um hluti, það finnur sér leið á strigann. Ég hef lengi haft áhuga á því að varpa ljósi á hversdagsleikann, á hluti sem eru alltaf í umhverfinu en fer ekki mikið fyrir. Stundum er svartur húmor í verkunum eða húmor eins og þekkist á Íslandi en til dæmis Þjóðverjar tengja ekki við, jafnvel móðgast. Stundum spila ég með það og nota sem aðgang að hugmyndum sem eru ekki fyndnar.

Mér hefur lengi þótt best að lenda fyrir miðju með verkin. Ef texti sem ég skrifa á verk er of kjánalegur þá verður það yfirborðskennt. Ég vil heldur ekki að það sé eitthvað heldur í verkunum. Það getur verið erfitt að dansa alltaf á miðjunni en ég hef verið að þroska með mér tilfinningu fyrir henni í samspili myndar og texta, því þar er tengiflöturinn við áhorfendur.“

Ofbeldiskennd nálgun

Verk Georgs bera með sér að þau séu máluð af kappi og jafnvel látum. Er sú raunin? Ræðst hann á strigann með litunum?

Hann hlær. „Það er eins og ég sé svolítið bældur einstaklingur en þegar ég kem á vinnustofuna er sem ákveðinn kraftur leysist úr læðingi! Hvernig ég mála og nálgast málverkið er svolítið ofbeldiskennt. Þannig vinn ég. Ég hef brotið pensla við að mála, ég kasta málningu á strigann og ég hef kastað penslum á strigann. Það gerist ekki alltaf en ég tjái mig á vinnustofunni. Fyrir utan hana er ég meira að taka inn.

Málverkið er mitt tjáningartæki.

Mér fannst gaman á sýningunni nú í London að finna hvað verkin virtust tengjast sýningargestum vel, jafnvel meira en oft áður. Ég vil aldrei stýra fólki hvernig það eigi að hugsa um eða upplifa verkin, þau hafa sinn titil og eru sett upp en svo nálgast hver og einn þau með sínum hætti. En ég hef gaman af því að sjá verkin kveikja einhverjar tilfiningar og samhljóm, þegar fólkið skilur tilfinningar sem ég er að tjá í þeim, eins og mér fannst gerast á sýningunni.

Það getur verið mjög erfitt að mála verkin, oft ganga þau ekki upp og maður tekur því illa, það er mikil ást í þeim en hún getur verið grimm...“

Sýning í Reykjavík næsta haust

Þess má geta að í september á næsta ári verður sýning á verkum eftir Georg Óskar í listhúsinu Tveimur hröfnum við Baldursgötu en þar hefur hann sýnt áður.

„Það er bara tæpt ár þangað til og ég hlakka til að koma heim með sýningu. Ég sýndi þar síðast 2017 og hef síðan verið í rokk-og-róli í útlöndum og það er kominn tími til að setja upp fína sýningu í Tveimur hröfnum. Svo verð ég í nóvember skömmu síðar með sýningu í galleríi á Spáni. Þetta eru þær sýningar sem ég fer nú að vinna fyrir – það er því nóg að gera!“ segir hann.