Vörubílstjóraskortur lætur víðar á sér kræla en í Bretlandi

Líftími frétta er kyndugt fyrirbæri. Stundum komast mál í hámæli og svo virðist sem við blasi glundroði og ringulreið. Síðan hverfur málið af ratsjá fréttamiðlanna eins og dögg fyrir sólu. Stundum er ástæðan sú að næsta mál ýtti því til hliðar, en að öðru leyti er allt óbreytt. Einnig kann að vera að málið ógurlega hafi kannski ekki verið jafnmerkilegt og látið var.

Ekki er langt síðan komst í hámæli að Bretar væru að verða bensínlausir og myndu ekki geta haldið jól. Bretar gátu vitaskuld sjálfum sér um kennt því þeir gengu úr Evrópusambandinu og nú væru engir vörubílstjórar til að koma bensíni á bensínstöðvar og jólagjöfum í búðir í tæka tíð og engir slátrarar til að lóga svínum, sem því myndi þurfa að farga í tugþúsundavís.

Við þessar fréttir hlakkaði í þeim, sem sagt höfðu að Brexit myndi leiða til hruns í Bretlandi, en hafa mátt horfa upp á að breskur efnahagur hefur síður en svo goldið fyrir útgönguna úr ESB. Reyndar hefur hann verið nokkuð þróttmikill og hremmingar Breta þær sömu og önnur lönd hafa verið að glíma við, jafnvel þótt þau séu í Evrópusambandinu.

Þýskaland er gott dæmi. Í þýskum fjölmiðlum má nú lesa fréttir um að verulegur skortur sé á vinnuafli. Það vanti bakara, vörubílstjóra og menn til að skrúfa saman vindmyllur. „Það fer að verða fátt um fólk til að halda landinu gangandi,“ sagði í frétt í Der Spiegel nýverið. „Manneklan gæti kæft efnahagslífið.“ Þjóðverjar eiga erfitt með að manna leikskóla, tæpur helmingur arkitektastofa hefur þurft að draga saman seglin vegna þess að það vantar mannskap og regnhlífarsamtök stéttarfélaga iðnaðarmanna í Þýskalandi hafa áhyggjur af því að ekki verði hægt að koma áætlunum um framkvæmdir og viðhald í verk vegna skorts á iðnaðarmönnum. Þá hafa flutningafyrirtæki í Þýskalandi lýst yfir því að þau eigi í vandræðum með að finna bílstjóra til að aka langar vegalengdir, segir í Der Spiegel, og er því bætt við að það sé fyllilega sambærilegt við Bretland, sem haft sé að háði og spotti.

Bretar lýstu yfir því í gær að slakað yrði á reglum um erlenda vörubílstjóra til að greiða fyrir flutningum. En mergurinn málsins er þó sá að flöskuhálsana er víða að finna og meginástæðan er ef til vill frekar aðgerðir til að hemja kórónuveiruna, en hvort menn fara inn eða út úr Evrópusambandinu eða eru þar um kyrrt.