Veraldarvinir Sjálfboðaliðar með rusl sem rekið hafði á fjörur. Sjórinn ber ótrúlega mikið af drasli á land. Þar á meðal gömul veiðarfæri, netadræsur og ekki síst alls konar plastrusl.
Veraldarvinir Sjálfboðaliðar með rusl sem rekið hafði á fjörur. Sjórinn ber ótrúlega mikið af drasli á land. Þar á meðal gömul veiðarfæri, netadræsur og ekki síst alls konar plastrusl. — Ljósmynd/Veraldarvinir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Veraldarvinir – Strandverðir Íslands söfnuðu rúmlega 91 tonni af rusli og hreinsuðu 742 km strandlengjunnar fyrstu níu mánuði þessa árs. Í hreinsunarstarfið fóru 25.867 klukkustundir.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Veraldarvinir – Strandverðir Íslands söfnuðu rúmlega 91 tonni af rusli og hreinsuðu 742 km strandlengjunnar fyrstu níu mánuði þessa árs. Í hreinsunarstarfið fóru 25.867 klukkustundir. Kostnaðurinn var 28,7 milljónir króna. Það var heldur meira á hvert kíló og kílómetra en áður. „Við höfum verið að vinna á svæðum þar sem mjög mikið er af litlum plastbitum sem tekur langan tíma að hreinsa. Þessi svæði eru Árneshreppur, Bitrufjörður og aðrir staðir í Strandasýslu. Kostnaður við flutning á plastinu bætist síðan við en árin á undan tóku sveitarfélögin þátt í þeim kostnaði,“ segir í samantekt frá Veraldarvinum.

Milljónir vinnustunda

Þórarinn Ívarsson stofnaði Veraldarvini fyrir 20 árum. Frá stofnun hafa 19.995 sjálfboðaliðar starfað hér á vegum samtakanna. Þeir hafa lagt rúmlega 2,15 milljónir klukkustunda til íslenskrar náttúru. Auk fjöruhreinsunar hafa þeir unnið að skógrækt, lagningu göngustíga og að upprætingu lúpínu.

Árin 2017 og 2018 komu um 1.800 sjálfboðaliðar hvort ár til Veraldarvina. Flestir til tveggja vikna dvalar. Í faraldrinum breyttist það og nú dvelja sjálfboðaliðarnir hér frá fjórum og upp í 26 vikur. Færri sjálfboðaliðar skila því sem næst jafn mörgum vinnustundum og fleiri gerðu áður.

„Sjálfboðaliðarnir greiða þátttökugjald og við fjármögnum starfið að miklu leyti með þeim,“ sagði Þórarinn. Þátttökugjaldið stendur undir uppihaldi og ýmsum öðrum kostnaði. Sjálfboðaliðarnir hafa komið alls staðar að úr heiminum. Það breyttist í heimsfaraldrinum og undanfarið hafa flestir komið frá Þýskalandi og öðrum löndum Mið-Evrópu. Áður komu margir frá Mexíkó og Asíulöndum. „Við erum á meðal stærri móttökusamtaka og mjög þekkt í þessum sjálfboðaliðaheimi,“ sagði Þórarinn.

Vilja endurvinna plastið

Þórarinn segir að Veraldarvinir hafi sótt um alls konar styrki til að endurvinna plastið en ekki fengið þótt þau hafi mannskap til að gera það. Ekkert bólar heldur á fjárveitingu úr aðgerðaáætlun í plastmálefnum. En hvað ætla þau að gera við plastið?

„Við ætlum að steypa bakka undir græðlinga. Svo tökum við mold og tínum fræ af trjánum og ræktum græðlingana í gömlu Landsímastöðinni á Brú í Hrútafirði,“ sagði Þórarinn. Veraldarvinir tóku við húsinu fyrir tveimur árum og þá var það nær ónýtt. Búið er að standsetja, endurnýja allar lagnir, skrapa og mála. Húsið er nú því sem næst tilbúið að innan. Veraldarvinir hafa leitað eftir styrk til að gangsetja aftur rafstöð sem er í gömlu Landsímstöðinni. Stífla er sex kílómetrum innar í firðinum. Laga þarf aðfallsæðina sem er brotin. Með því að laga rafstöðina verður hægt að rækta grænmeti og græðlinga í sjálfbæru húsi. Auk hússins á Brú eru Veraldarvinir með húsnæði í Reykjavík, á Stöðvarfirði, Raufarhöfn og á Ströndum.

Veraldarvinir vinna nú að rekstraráætlun áranna 2022-2024. Ætlunin er að vinna þá að fjórum meginverkefnum. Þau eru hreinsun strandlengjunnar, endurvinnsla á plasti, skógrækt og fræðsla um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.