Kórónuveirufaraldurinn er greinilega ofarlega í huga sumra höfunda. Jónína Leósdóttir er í þessum hópi og glæpasaga hennar, Launsátur, ber þess glögg merki.
Sagan, sem er gráglettin og alvarleg spennusaga, gerist í byrjun apríl 2020. Veirufaraldurinn er ókunn ógn og daglegar stöðufréttir eru ekki uppörvandi. Talað er um heimsfár og ofan á það leggst innanlandsfár, sem veldur ekki síður áhyggjum.
Lífið er sjaldnast dans á rósum og fólk ber ekki alltaf vandamálin utan á sér, eins og vel kemur fram í Launsátri . Frásögnin er samt ekki með áherslu á alvarlegu nóturnar. Hún snýst fyrst og fremst um hjónin fyrrverandi, Soffíu rannsóknarlögreglumann og Adam sálfræðing. Soffía er stjórnsöm og heldur greinilega áfram þar sem frá var horfið í sambandi þeirra; örugg kona, sem veit hvað hún vill og engar refjar. Hún fæst við erfitt mál og þarf á stuðningi Adams að halda til að leysa það. Hann er algjör andstæða; hlýðir henni í einu og öllu og virkar eins og pervisi. Engu að síður er hann eftirminnilegasti karakter sögunnar og stelur algerlega senunni. Á sviðið. Hann er dæmigerður Breti, skipulagður, kurteis og vanafastur, drekkur sitt te og heldur í aðra fasta siði. Hann fer að reglum og hlýðir þríeykinu í hvívetna enda sótthræddur með endemum. Í návígi við aðra er hann því í óþægilegri aðstöðu með tilliti til tveggja metra reglunnar, en hann á margar hliðar og er háll sem áll.
Að sumu leyti er Launsátur af svipuðum meiði og Út að drepa túrista eftir Þórarin Leifsson. Báðar gerast þær í byrjun heimsfaraldursins og í báðum sögum er samanburði við Poirot, helstu persónuna í spennusögum Agöthu Christie, vísað á bug. Húmorinn er ríkjandi hjá báðum höfundum, persónur þeirra láta mörg gullkorn frá sér fara og þeir hafa lag á að sjá alvarlegustu hluti í kómísku ljósi.
Í Launsátri er drepið á mikilvægum samfélagsmálum með léttleikann að leiðarljósi. Vissulega frávik frá normi sakamálasagna en skemmtilegt enda ávallt mikilvægt að líta á björtu hliðarnar og láta ekki þær dökku hindra för.
Steinþór Guðbjartsson