Samstaða Starfsmenn Garðsapóteks skörtuðu bleiku til stuðnings baráttunni gegn krabbameini hjá konum.
Samstaða Starfsmenn Garðsapóteks skörtuðu bleiku til stuðnings baráttunni gegn krabbameini hjá konum. — Morgunblaðið/Unnur Karen
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fjölmargir héldu upp á bleika daginn í gær og bleiki liturinn var áberandi á mörgum vinnustöðum landsins til stuðnings baráttunni gegn krabbameinum hjá konum.

Fjölmargir héldu upp á bleika daginn í gær og bleiki liturinn var áberandi á mörgum vinnustöðum landsins til stuðnings baráttunni gegn krabbameinum hjá konum. Aðalinntak átaksins í ár var að leggja áherslu á slagorðið ,,verum til“ en bleiki liturinn var einstaklega sýnilegur í ár, að sögn Höllu Þorvarðardóttur, framkvæmdastjóra Krabbameinsfélagsins.

„Þetta er alveg ofboðslegur stuðningur sem fólk er að sýna og ég vil meina það að þjóðin hafi fylkt sér á bak við slagorðið „verum til“. Kannski er enn þá meiri meðvitund en áður um það hvað það skiptir miklu máli að vera til. Það er ótrúleg stemning í ár,“ segir Halla í samtali við Morgunblaðið.

Árlega greinast að meðaltali um 850 konur með krabbamein og 300 konur deyja að meðaltali úr krabbameinum árlega en í dag eru níu þúsund konur á lífi sem glímt hafa við sjúkdóminn. Beiki dagurinn er hápunktur Bleiku slaufunnar, árlegs árvekni- og fjáröflunarátaks Krabbameinsfélagsins sem tileinkað er baráttunni gegn krabbameinum hjá konum, og hefur hann notið sívaxandi vinsælda undanfarin ár en í gær var síðasti söludagur Bleiku slaufunnar, sem fékkst á 2.900 krónur á fjölmörgum sölustöðum sem og á bleikaslaufan.is.