[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Ágústsson fæddist í Reykjavík 16. október 1941. Hann ólst upp á Laugavegi 61 þar sem fósturforeldrar hans bjuggu þar til þau fluttu árið 1954 á Öldugötu 50 í Reykjavík. Fósturforeldrar Helga voru Oddfríður Steinunn Jóhannsdóttir, f. 6.6. 1896, d.

Helgi Ágústsson fæddist í Reykjavík 16. október 1941. Hann ólst upp á Laugavegi 61 þar sem fósturforeldrar hans bjuggu þar til þau fluttu árið 1954 á Öldugötu 50 í Reykjavík. Fósturforeldrar Helga voru Oddfríður Steinunn Jóhannsdóttir, f. 6.6. 1896, d. 6.8. 1976, og Guðmundur R. Oddsson, forstjóri Alþýðubrauðgerðarinnar f. 17.1. 1896, d. 1.2. 1984.

Foreldrar Helga voru Ágúst Herbert Pétursson bakarameistari, f. 14.9. 1916, d. 1.3. 1996, og Helga Jóhannesdóttir, f. 20.10. 1915, d. 16.10. 1941, en hún dó af barnsförum við fæðingu Helga. Þau bjuggu sín búskaparár í Reykjavík.

Helgi var nemandi í Austurbæjarskólanum og síðar í Gagnfræðaskóla Vesturbæjar þar sem hann útskrifaðist sem gagnfræðingur 1958. Helgi lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands árið 1963 og laganámi frá Háskóla Íslands vorið 1970.

Helgi kynntist eiginkonu sinni, Hervöru Jónasdóttur, Hebu, þann 14.4. 1962, sem alla þeirra hjúskapartíð var haldinn hátíðlegur. Þau gengu í hjónaband 7.12. 1963. Að loknu námi hóf Helgi störf í utanríkisþjónustunni þar sem hann gegndi margvíslegum störfum uns hann lét af embætti í árslok 2008.

„Leið okkar hjóna lá til Bretlands á haustdögum 1973 þegar fiskveiðideilan við Breta stóð sem hæst vegna 50 sjómílna útfærslu fiskveiðilögsögunnar. Ég var þar einnig málsvari sendiráðsins í 200 mílna deilunni og starfaði um nokkurra mánaða skeið sem norskur sendifulltrúi meðan stóð á stjórnmálaslitum Íslands og Bretlands, en ég afhenti Bretunum orðsendinguna um stjórnmálaslitin.“ Helgi fluttist til Íslands um vorið 1977 og tók aftur við forstöðu upplýsinga- og menningarmáladeildar utanríkisráðuneytisins uns hann frá ársbyrjun 1979 tók við starfi yfirmanns varnarmáladeildar ráðuneytisins. Þau hjónin fluttust síðan í ágúst 1983 til starfa við sendiráð Íslands í Washington, D.C.

Helgi var skrifstofustjóri utanríkisráðuneytisins árin 1987-1989 og síðan sendiherra í London 1989 til 1995. Helgi var skipaður ráðuneytisstjóri 1995 og tók síðan við starfi sendiherra í Kaupmannahöfn 1999 er hann tók við sendiherrastarfi í Washington, D.C. í ársbyrjun 2002 og gegndi stöðunni til 2006. Að því loknu vann Helgi sérstök störf í ráðuneytinu og sem prótókollstjóri þar til hann lét af störfum í árslok 2008. Þann vetur gegndi hann öðru sinni forstöðu á námskeiði fyrir nýliða í utanríkisþjónustunni.

Helgi gegndi einnig fjölmörgum trúnaðarstörfum á vegum utanríkisþjónustunnar og má þar nefna m.a. formennsku í samningum um síld og loðnu, úthafsveiðiráðstefnu SÞ, Smugudeilunni, varnarmálanefnd og byggingarnefnd nýrrar flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli 1979-1983. Jafnframt var honum var falið af forsætisráðherra að annast undirbúning og fyrirgreiðslu fyrir fjölmiðla vegna leiðtogafundarins í Höfða 1986.

Helgi hefur verið virkur í ýmsum félagsstörfum, s.s. í Körfuknattleiksdeild KR, KKÍ og Rotary (Rvk. A-bær-London-Kaupmannahöfn og Washington, D.C). Hann var formaður stjórnar Barnaheilla 2009-2012, sat í stjórn Þjóðræknisfélags Íslendinga 2007-2012 og hefur verið stjórnarformaður Vesturfarasetursins á Hofsósi síðan 2007. Helgi lauk námi sem leiðsögumaður frá Ferðamálaskóla Íslands 2010 og starfar nú sem formaður ferðanefndar Félags eldri borgara í Kópavogi, FEBK. „Ég er að fara á þriðjudaginn kemur á Selfoss og í Flóann með rúmlega 50 manns, en þetta er bara tómstundastarf hjá mér.“

„Til að halda góðri líkamlegri heilsu hef ég að undirlagi dótturdóttur minnar, Katrínar Tönju Davíðsdóttur, lagt stund á crossfit-íþróttina sl. fimm ár en auk þess keppi ég að því að veiða stærri lax en ég veiddi árið 1973 sem mældist 108 cm langur, 55 cm þykkur og vó 30,2 pund.“ Helgi segist ekki ýkja þegar hann fullyrðir að hann hafi misst stærri lax í kastinu á undan.

Helgi er áhugasamur um jazz og klassíska tónlist og hefur undanfarin ár verið félagi í Söngvinum, kór eldri borgara í Kópavogi. Helgi les mikið og hefur þýtt bók dótturdóttur sinnar Katrínar Tönju Davíðsdóttur, „Dóttir“, úr ensku og ljóðaþýðing hans á „Sofðu unga ástin mín“, hefur komið út á þremur geisladiskum. „Ég hef gaman af því að þýða ljóð úr ensku, tefli við tölvuna og mannleg samskipti eru mér mikilvæg.

Helgi var sæmdur stórriddarakrossi Fálkaorðunnar árið 1990. Auk þess að hafa hlotið erlendar heiðursorður var hann sæmdur 25 ára gullnælu KR með lárviðarsveig og gullmerki Körfuknattleikssambands Íslands 1991.

Fjölskylda

Eiginkona Helga var Heba Jónasdóttir, f. 18.9. 1943, d. 15.4. 2016. Hún var dóttir hjónanna Jónasar Björgvins Jónssonar búfræðings frá Hólum, f. 29.6. 1907, d. 10.9. 1996, og Guðbjargar Hallgrímsdóttur, húsfreyju í Glerárþorpi, f. 24.6. 1906, d. 1.5. 1980. Heba vann við ýmis störf er þau Helgi dvöldu á Íslandi, m.a. safnvörður í listasafni Einars Jónssonar og við símavörslu hjá Lyfjastofnun. Hún var mjög virk félagskona í líknarfélaginu Hvítabandinu og þrisvar sinnum formaður auk þess að sitja í ýmsum stjórnum fyrir hönd þess. Við hina tíðu flutninga bjó hún þeim hjónum fjórtán sinnum heimili.

Börn Hebu og Helga eru 1) Jónas Ragnar, f. 3.10.1963. Börn hans: Heba Eir, f. 25.7. 1989, Finnbogi Fannar, f. 20.6. 1991, d. 20.10. 2016, Helgi Snær, f. 7.3. 1995, Birta Líf, f. 1.4. 2002; 2) Guðmundur Björgvin, f. 3.12. 1964. Börn hans eru Arna Rannveig, f. 20.5. 1988, Benedikt Haukur, f. 7.3. 1995, Jóhannes Hrafn, f. 16.2. 1998. Eiginkona hans er Helga Jóna Benediktsdóttir, f. 13.6. 1972; 3) Helgi Gunnar, f. 19.11. 1971. Börn hans eru Viktor Páll, f. 4.9. 1999, og Tómas Ari, f. 28.11. 2003. Eiginkona hans er Fríða Pálsdóttir, f. 30.6. 1972; 4) Oddfríður Steinunn, f. 28.5. 1977. Börn hennar eru Katrín Tanja, f. 10.5. 1993, Jack Guðmundur, f. 21.1. 1996, Hannah Lára, f. 4.9. 1998, Björgvin Ísak, f. 25.5. 2004. Eiginmaður hennar er Hjalti Daníelsson, f. 8.11. 1979. Barnabarnabörnin eru nú fjögur og eitt senn væntanlegt.

Systkini Helga: Kristjana Péturs Ágústsdóttir, f. 27.3. 1938, d. 28.1. 1994, Hafsteinn Bergmann Sigurðsson, f. 7.8. 1943, Emil Pétur Ágústsson, f. 7.7. 1944, d. 22.1. 2015, Ásgerður Ágústsdóttir, f. 14.4. 1946, og Ásthildur Ágústsdóttir, f. 24.12. 1955.