Uppi eru hugmyndir um að hætta að kenna efstu deildirnar í fótboltanum hér á landi við ákveðna styrktaraðila.
Uppi eru hugmyndir um að hætta að kenna efstu deildirnar í fótboltanum hér á landi við ákveðna styrktaraðila. Þær fái í staðinn öflugt og gott nafn til frambúðar en styrktaraðilar komi sínum boðskap á framfæri á annan hátt í tengslum við viðkomandi deildir.

Þetta eru ánægjuleg tíðindi. Við þurfum ekki annað en að horfa til Premier League á Englandi, Lique 1 í Frakklandi, Serie A á Ítalíu, La Liga á Spáni og Bundesliga 1 í Þýskalandi til að sjá að þar eru ekki gosdrykkir eða tryggingar aðalmálið.

Án þess að gert sé lítið úr mikilvægi styrktaraðila fyrir deildirnar og íþróttirnar.

Annað er að ekki er alltaf á vísan að róa í þessum efnum og deildirnar geta skipt ört um nafn. Ef íslenskum fótboltamanni sem spilaði í efstu deild í kringum síðustu aldamót er flett upp í gagnagrunni KSÍ má sjá að hann spilaði eitt árið í Samskipadeildinni, þá í Getraunadeildinni, næst í Trópídeildinni, þá Sjóvá-Almennra-deildinni, Landssímadeildinni og loks í Símadeildinni. Úff!

Ég hef heyrt nafninu „Besta deildin“ fleygt. Þá er það orðið svipað og hjá grönnum okkar í Færeyjum sem nota „Betri Deildin.“ Sem er víst samt auglýsing! Ég legg því til að efsta deild karla og kvenna verði framvegis kölluð „Fyrsta deildin.“ Einfalt og gott, og um leið snúið aftur til gamla og góða tímans þegar 1. deild var efsta og besta deildin.

Alveg eins og Frakkar, Spánverjar, Ítalir, Belgar og fleiri stórar þjóðir í fótboltanum og fleiri íþróttum gera. Þar er 1. deild alltaf efsta deildin (eðlilega!) þótt það virðist hafa farið fram hjá mörgum hér á landi.