...en sóleyjagulur á baki.
...en sóleyjagulur á baki. — Ljósmynd/Colourbox
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nokkur óskyld atriði úr minnisbókinni: 1. Séríslensk fyndni. Kunningi keypti sér hús í Skerjafirði í sumar meðan enn gaus í Fagradalsfjalli og var alsæll: „Maður sér bæði Guðna og gosið.“ Nú hefur kunninginn selt húsið. 2.

Nokkur óskyld atriði úr minnisbókinni:

1. Séríslensk fyndni. Kunningi keypti sér hús í Skerjafirði í sumar meðan enn gaus í Fagradalsfjalli og var alsæll: „Maður sér bæði Guðna og gosið.“ Nú hefur kunninginn selt húsið.

2. Kennarinn skrifar á töfluna: „Ég dorgaði fyrir framan sjónvarpið í gærkvöldi og var svo andvana í alla nótt.“ Síðan sagði hann: „Færið til betri vegar.“ Umræðan var skemmtileg að vanda. – Hversu margir dorma ekki við sjónvarpsskjáinn, verða svo andvaka mikinn hluta nætur og mismæla sig að morgni næsta dags? (Og innan sviga: eru þau ekki indæl óbeygjanlegu lýsingarorðin sem enda á –a: klofvega, úrvinda, gjafvaxta, troðjúgra ?)

3. Nýtt og spennandi tökuorð. Úr bréfi frá vini: Til dæmis var sagt áðan í viðtali að „fólk broadkasti tilfinningum sínum“. Kannski væri hægt að nota þetta með því að segja bara „ bro d dkasta “ og þá væri það næsti bær við „brottkast“;-) [Innskot: táknin hér til vinstri sýna broskall á hliðinni].

4. Í Morgunblaðinu er vandað til verka í málfarsefnum og eiga blaðamenn hrós skilið. Yfirlesarar hafa rekið augun í villur hjá mér og ber að þakka það. Í eitt skiptið (sjá Tungutak 11.7.2020) var ég þó „leiðréttur“ að ástæðulausu. Atriðið tengist stafsetningu á viðurnefnum . Ég hafði á einum stað skrifað viðurnefnið drómundur með stórum upphafsstaf en á öðrum stað með lágstaf. Þorsteinn d rómundur (með lágstaf) hefndi Grettis bóður síns í Miklagarði sem frægt er orðið. En D rómundur (með hástaf) átti sér ástkonuna Spes. Í seinna dæminu er viðurnefnið komið í hlutverk eiginnafns .

5. Bókmenntafræðingur í loftfimleikum : „Meðan við eigum ekki önnur fullgóð yfirlitsverk handa alþjóð til kynningar á bókmenntum næstliðinnar fortíðar án þvílíks smættandi viðhorfs til menntanna er hætt við að bók í fullu samræmi við þann vilja sem fram er settur í þessu viðtali gæti stuðlað mjög að því að minnka meiningu, þ.e. gildi bókmennta, í huga þjóðarinnar sem á sér þær.“

6. Falleg minningarorð á sveitasíma: „Horfinn er höfðinginn Tópas, sautján og hálfs árs, saddur lífdaga en saknað með tárum.

Svo ljúfur og mjúkur, hreinn og hvítur en sóleyjagulur á baki.

Minning hans eins og vatn á lognkyrrum degi, djúpt og himinblátt.

Eins og þytur í laufi sem kyrrist í logni en bergmálar samt úr fjarska.

Nei, þetta á ekki að vera ljóð, aðeins söknuður eftir horfinn vin sem var köttur með sál.“

7. Tvö verkefni , ætluð lesendum:

a) „Írski maður bar hana nú grátandi í landtjald sitt.“ ( Tristrams saga , 50. kafli). Hvort þeirra grét?

b) „Hann gaf vininum sínum góða afmælisgjöf.“ Var vinurinn góður, eða var gjöfin góð?

8. Ungi knattspyrnumaðurinn Ísak Bergmann Jóhannesson fær sérstakt hrós fyrir þá virðingu sem hann ber fyrir móðurmálinu. Hann þurfti ekki á einni einustu slettu að halda í viðtali eftir landsleik í síðastliðinni viku. Framtíðin er björt.

Baldur Hafstað hafstad.baldur@gmail.com

Höf.: Baldur Hafstað hafstad.baldur@gmail.com