Skúli Halldórsson
Lilja Ava Hrund Lúðvíksdóttir
Undirbúningsnefnd fyrir rannsókn kjörbréfa fékk gögn frá lögreglunni á Vesturlandi vegna rannsóknar á talningu atkvæða í alþingiskosningunum í Norðvesturkjördæmi afhent síðdegis í gær.
Þetta staðfesti Gunnar Örn Jónsson, lögreglustjóri á Vesturlandi, í samtali við mbl.is.
Nefndin hafði óskað eftir að fá gögn frá lögreglu sem kynnu að nýtast við mat á lögmæti kosninganna fyrir lok dags í gær.
Rannsókn lögreglu á kæru Karls Gauta vegna niðurstöðu kosninganna, endurtalningar í Norðvesturkjördæmi og meðferðar yfirkjörstjórnar á kjörgögnum lauk á þriðjudaginn og er nú til meðferðar á ákærusviði.
Í gærmorgun birti Alþingi allar kærur sem nefndinni hafa borist á vef þingsins sem og fundargerðir og önnur gögn. Alls hafa tólf kærur borist um framkvæmd kosninganna, sem undirbúningsnefndin hefur til meðferðar.
Munar um lögreglugögnin
Í samtali við mbl.is sagði Birgir Ármannsson, formaður nefndarinnar, að það skipti máli að fá gögn frá lögreglunni.„Það skiptir svolitlu máli fyrir okkur að vita hvaða upplýsingar við getum fengið frá lögreglu, upp á það að vita hvaða upplýsingar það eru sem við þurfum að afla sjálfstætt.“
Nefndin kemur aftur saman til fundar á mánudaginn, þar sem fyrirhugað er að fara yfir fyrirliggjandi gögn og ákveða næstu skref í framhaldinu.
Lýtur reglum stjórnsýslu
Verk yfirkjörstjórna og landskjörstjórnar tilheyrir stjórnsýslunni og lýtur þannig almennum reglum stjórnsýsluréttar. Þetta er mat Trausta Fannars Valssonar, forseta lagadeildar HÍ og sérfræðings í stjórnsýslurétti.Hann kom á fund undirbúningsnefndarinnar í gærmorgun ásamt Ragnhildi Helgadóttur, rektor Háskólans í Reykjavík.
Léðu þau nefndinni sérfræðimat sitt á lögfræðilegum álitaefnum í tengslum við verkefni nefndarinnar.
Trausti benti á að stjórnsýslulögin giltu þó ekki nema um væri að ræða svokallaða stjórnvaldsákvörðun. Framkvæmd talningar og lýsing talningar teldust ekki að hans mati stjórnvaldsákvarðanir. En einstakar aðrar ákvarðanir gætu verið það.
Bókun yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi um niðurstöðu talningarinnar telst ekki stjórnvaldsákvörðun að hans mati.
Hlutverk nefndarinnar
» Undirbúningsnefnd fyrir rannsókn kjörbréfa hefur meðal annars það hlutverk að fara yfir gerðabækur landskjörstjórnar og yfirkjörstjórna, ágreiningsseðla og kosningakærur sem borist hafa dómsmálaráðuneytinu.
» Nefndin gerir síðan tillögu til þingsins um hvort kosning og kjörgengi þingmanna teljist gild.
» Í nefndinni sitja níu þingmenn. Enginn þeirra er úr Norðvesturkjördæmi eða er uppbótarþingmaður.