Verður næst borið undir borgarbúa hvort borgin eigi að sinna sorphirðu og snjóruðningi?

Reykjavíkurborg hefur nýlokið atkvæðagreiðslu þar sem fólk gat látið vita hverju það vildi að komið yrði í verk í sínu hverfi. Þetta kallar borgin íbúalýðræðisverkefni og yfirskrift þess er Hverfið mitt. Að þessu sinni tóku 16,4% borgarbúa 15 ára og eldri þátt í verkefninu og slá borgaryfirvöld sér á brjóst yfir því að það hafi verið metþátttaka.

Það er góðra gjalda vert að gefa borgarbúum kost á að hafa áhrif á umhverfi sitt og láta vita á hvað þeir vilja láta leggja áherslu á tímum þegar valdið virðist fjarlægjast kjósendur og valdhafarnir leggja frekar á flótta þegar á bjátar en að taka á málum af röggsemi. Seint verður sagt að í kosningunni hafi stóru málin verið sett á dagskrá.

Kosningin mun þó verða til þess að ýmsar þarfar endurbætur verða gerðar. Margt af því, sem talið er upp í niðurstöðum kosninganna, er þó þess eðlis að hefði mátt ætla að þyrfti ekki að bera undir borgarbúa. Eru endurbætur á körfuboltavelli við Laugarnesskóla eða leikvelli í Hljómskálagarði ekki hluti af sjálfsögðu viðhaldi af hálfu borgarinnar? Þurfa borgaryfirvöld, sem leggja áherslu á að ýta undir hjólreiðar, að bera það undir borgarbúa hvort fjölga eigi hjólastæðum í miðborginni? Er ekki einfaldlega hlutverk borgarinnar að bæta úr lýsingu þar sem henni er ábótavant? Verður næst borið undir borgarbúa hvort borgin eigi að sinna sorphirðu og snjóruðningi?

Það er fullhástemmt að skreyta sjálfsagða þjónustu við borgarbúa með orðinu „íbúalýðræðisverkefni“, án þess að neitt sé dregið úr þarfsemi þeirra verkefna, sem í kosningunni komust á blað.