Óstöðvandi Mohamed Salah skoraði stórglæsilegt mark um helgina.
Óstöðvandi Mohamed Salah skoraði stórglæsilegt mark um helgina. — AFP
Forystusauðir ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu unnu leiki sína í 8. umferðinni um helgina. Chelsea er áfram í toppsætinu, nú með 19 stig eftir að glæsimark varnarmannsins Ben Chilwell dugði til að merja 1:0-sigur á útivelli gegn nýliðum Brentford.

Forystusauðir ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu unnu leiki sína í 8. umferðinni um helgina. Chelsea er áfram í toppsætinu, nú með 19 stig eftir að glæsimark varnarmannsins Ben Chilwell dugði til að merja 1:0-sigur á útivelli gegn nýliðum Brentford. Liverpool er stigi á eftir í öðru sætinu en liðið frá Bítlaborginni vann 5:0-stórsigur á útivelli gegn Watford. Roberto Firmino skoraði þrennu og þeir Sadio Mané og Mohamed Salah bættu við mörkun en Egyptinn skoraði eitt laglegasta mark vetursins, lék á nokkra varnarmenn og skoraði svo með laglegu skoti. Þá unnu Englandsmeistarar Manchester City 2:0-heimasigur gegn Burnley þökk sé mörkum frá Bernardo Silva og Kevin De Bruyne og eru því í 3. sætinu með 17 stig. Jóhann Berg Guðmundsson kom inn sem varamaður í liði Burnley á 72. mínútu.

Manchester United heldur hins vegar áfram að heltast úr lestinni og tapaði illa gegn Leicester á King Power-vellinum, 4:2. Youri Tielemans, Caglar Soyuncu, Jamie Vardy og Patson Daka skoruðu þar mörkin fyrir heimamenn en andsvör United komu frá Mason Greenwood og Marcus Rashford.

Newcastle tapaði svo gegn Tottenham í gær, 3:2, í fyrsta leik liðsins eftir að félagið varð það ríkasta í heimi í kjölfar þess að sádiarabíski krónprinsinn Mohammed bin Salman keypti það á dögunum. Callum Wilson kom Newcastle yfir áður en Tanguy Ndombélé, Harry Kane og Son Heung-Min skoruðu fyrir Tottenham en Eric Dier gerði einnig sjálfsmark fyrir heimamenn.