Bryndís Theodórsdóttir fæddist 19. ágúst 1960. Hún lést 9. október 2021.

Bryndís var jarðsungin 16. október 2021.

Það þarf fólk eins og þig fyrir konur eins og okkur. Saumaklúbburinn var stundum stirður af stað á haustin, þá tók Bryndís af skarið og skellti í klúbb, ekki málið, hrista saman hópinn og hittast eftir sumarfríið. Hún var framtakssöm, ekki mikið fyrir vol og væl, hún var hjálpsöm á svo marga vegu en lét ekkert á því bera því það var henni svo eðlislægt.

Margt höfum við brallað saman þessi 40 ár sem saumaklúbburinn hefur starfað, utanlandsferðir, innanlandsferðir, óvissuferðir, gönguferðir og hittingar. Núna fyrsta október eru 40 ár liðin síðan fyrsti saumaklúbburinn var haldinn og er okkur minnisstætt að ekki þótti Bryndísi umræðuefnið oft spennandi, barnauppeldi og bleyjur, það breyttist síðan fljótlega þegar hún var orðin þriggja barna móðir fyrst okkar, alltaf sami krafturinn og ekkert mál.

Fyrstu árin liðu og fjölskyldurnar stækkuðu, lífið var einfaldlega í fastri rútínu en eitthvað fannst körlunum við vera frekar nískar og ekki bjóða þeim að vera með, alla vega gáfu þeir okkur nafnið Níska Nálin, okkar mótleikur var að panta siglingu um Karíbahafið, hugmynd sem fæddist yfir jólaföndri og þremur mánuðum seinna í mars árið 1996 var ferðin farin en nafninu höldum við því okkur þykir orðið vænt um Nísku Nálina og minningin um ferðina góðu er okkur dýrmæt. Nú í annað sinn á fimm árum syrgjum við kæra vinkonu og saumaklúbbssystur, en árið 2016 lést Ólafía Dröfn Hjálmarsdóttir.

Stórt skarð er nú höggvið í okkar þétta og góða vinahóp, sárast og mest er samt skarðið sem nú er höggvið í fjölskylduna. Elsku Guðni, Sigrún, Guðný, Þorkell og litli sólargeislinn Steinar Flóki, Guð gefi ykkur styrk til að takast á við sorgina, það er svo stutt síðan við samglöddumst vinkonu okkar þegar litli ömmustrákurinn kom í heiminn og átti hann hug og hjarta ömmu sinnar og afa.

Okkar kæra vinkona kvaddi okkur í lok september þegar þau hjónin fóru til Spánar og var saumaklúbbsplanið spilað eftir því, fyrsti klúbbur vetrar var festur niður laugardaginn 9. október en í staðinn sátum við saman það kvöld í stofunni hjá Möggu lamaðar af sorg.

Elsku Bryndís, þín verður sárt saknað en minning þín lifir.

Þú komst til að kveðja í gær.

Þú kvaddir og allt varð svo hljótt.

Á glugganum frostrósin grær.

Ég gat ekkert sofið í nótt.

(Freymóður Jóhannsson)

Níska Nálin:

Hjördís, Jenný, Júlíanna, Margrét og Olga.

Sú sem gott er að eiga að

trúnaðarvinkonu.

Sú sem fer með mér á vit ævintýra.

Sú sem ég sýni það sem ég hef keypt.

Sú sem stendur með mér.

Sú sem ég læt mér annt um.

Sú sem stendur mér nærri í gleði og

sorg.

Það ert þú.

(Pam Brown)

Bryndís vatt sér að mér fyrir 41 ári og sagði eigum við ekki að vera vinkonur? Mömmur okkar höfðu verið saman á síld á Helgu RE og góðar vinkonur.

Góðar og traustar vinkonur upplifa með manni alls konar. Við erum fimm vinkonurnar eftir í saumaklúbbnum okkar, við kveðjum nú aðra vinkonu á fimm árum í fjörutíu ár höfum við átt hvora aðra að.

Þrjár okkar hafa verið að ganga saman og eru minningarnar allstaðar og allt um kring. Ferðirnar okkar skilja eftir, fallegar minningar, orku og gleði. Ferðin að eldgosinu var samt virkilegt púl en Bryndís var ákveðin að koma okkur Möggu þangað og auðvitað tókst það sem betur fer. Önnur mögnuð ferð var Jónsmessunótt upp á Snæfellsjökli, já og svo gengum við í fyrra vetur kring um Kirkjufell ekki séns að hætta við þrátt fyrir ískulda og fljúgandi hálku á köflum sá kafli var þá bara skriðin og alla leið komumst við óbrotnar en smá blautar og bláar af kulda.

Hún skipulagði óvissuferðir fyrir saumaklúbbinn, gönguhópinn og stundum einkaferðir fyrir mig, þurfti að hressa vinkonu sína við eins og hún sagði. Ein ferðin átti að vera stutt en að kvöldi dags höfðum við farið kring um Kirkjufell og síðan í súpu í Fjöruhúsið á Hellnum með tilheyrandi stoppi.

Önnur eftirminnileg ferð byrjaði á því að hún sótti mig á kaffihúsið, var þá búin að semja við dóttur mína að leysa mig af því við værum sko að fara í óvissuferð. Berserkjagötuna hafði hún valið, því hún var á óskalistanum mínum, síðan á heimleiðinni stoppuðum við í Kolgrafafirði þar hafði þá grindhvalavaða farið inn fyrir brú og björgunaraðgerðir voru í gangi. Það var bara hún sem gat pantað og töfrað fram svona óvissuferð. Ég sagði henni þá og sem betur fer oft hvað hún væri mér mikils virði og hve gott væri að eiga hana að.

Þegar ég var að strögla við krabbamein þá var hún ótrúlega fundvís á erfiða daga, átti til að birtast heima hjá mér til að hressa mig við og auðvitað komst maður ekkert upp með neina eymd þegar hún var mætt á svæðið.

Við erum svo mörg sem eigum margar góðar minningar um samveru, ferðalög, samvinnu og margt fleira. Um bæði nærgætni, ögrun, stríðni og alveg óendanlega ást og umhyggju. Börnin mín, barnabörnin og Maríanna systurdóttir mín fengum stóran skammt af gæðunum sem hún geislaði af, Elsa mín átti sérstaklega góð sumur með Bryndísi og fékk allan skalann af hennar persónuleika, þær vinkonurnar hurfu oft á bak við hús til að telja steinanna og spjalla.

Fjölskylda Bryndísar sér nú á eftir einstakri eiginkonu, móður og ömmu, einnig systkini hennar og fjölskyldur þeirra, Bryndís var kletturinn þeirra allra.

Elsku Guðni, Sigrún, Guðný, Þorkell og Steinar Flóki, ömmu og afastrákurinn Guð gefi ykkur styrk á þessum erfiðu tímum kæru vinir.

Elsku Bryndís þín verður sárt saknað en minning þín og vináttan lifir.

Olga, Grétar og fjölskylda.

Það er tómlegt að sitja á skólabókasafninu í grunnskólanum, panta nýútkomnar bækur fyrir krakkana og það er engin Bryndís sem kemur og skoðar yfir listann. Enn tómlegra verður að taka á móti bókasendingum og það er engin Bryndís sem gramsar með mér í kassanum, spáir og spekúlerar. Við áttum okkar stundir á bókasafninu.

Hún var mikil bókakona, las krimma en einnig hafði hún sérstakan áhuga á barna og unglingabókunum. Það var hægt að ræða við hana um bækurnar, hún hafði sterkar skoðanir og sá oft í þeim eitthvað sem ég hafði ekki séð. Æði oft fór hún heim með bækur sem voru alveg nýútkomnar, las og sagði mér frá, svo ég gæti komið þeim á framfæri við þennan eða hinn bekkinn sem henni fannst henta. Svona áttum við það til að skipta með okkur bókalestri fyrir krakkana. Hún hrósaði, hvatti og gaf mér ráð. Og ég fann að hún meinti það sem hún sagði. „Mikið er orðið fínt,“ sagði hún í hverjum einasta nóvember þegar jólin fóru upp á safninu. Og þegar ég kvartaði við hana um eitthvað sem mér fannst misheppnað hjá mér sagði hún „hafðu engar áhyggjur, börnin kunna að meta þetta“. Öll lestrarátök, skreytingar, þemu bókasafnsins, allt þetta gat ég ávallt rætt við hana og upp úr þeim samræðum kviknaði oftast eitthvað skemmtilegt. Hún var alltaf boðin og búin til að aðstoða ef á þurfti að halda og alltaf með börnunum í liði. Við vorum ekki alltaf sammála en það var líka allt í lagi.

Bókasafnið er æði tómlegt án hennar innlita og jólabókaflóð bókasafnsins verður ekki eins án minnar kæru samstarfskonu.

Elsku Guðni og aðrir aðstandendur Bryndísar, ég sendi ykkur samúðarkveðjur á þessum erfiðu tímum, blessuð sé minning Bryndísar Theodórsdóttur.

Guðrún Lilja Magnúsdóttir.