[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
* Sveindís Jane Jónsdóttir skoraði eitt marka Kristianstad þegar liðið vann öruggan 4:1 sigur á Djurgården í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á laugardag. Sveindís kom Kristianstad í 2:0 skömmu áður en flautað var til leikhlés.

* Sveindís Jane Jónsdóttir skoraði eitt marka Kristianstad þegar liðið vann öruggan 4:1 sigur á Djurgården í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á laugardag. Sveindís kom Kristianstad í 2:0 skömmu áður en flautað var til leikhlés. Hún hefur skorað sex mörk og lagt upp fjögur til viðbótar í 16 deildarleikjum með Kristianstad á sínu fyrsta tímabili í atvinnumennsku. Kristianstad er í þriðja sæti sænsku úrvalsdeildarinnar þegar liðið á eftir að spila tvo leiki á yfirstandandi tímabili. Sveindís lék allan leikinn í fremstu víglínu og Sif Atladóttir lék sömuleiðis allan leikinn í hjarta varnarinnar. Elísabet Gunnarsdóttir þjálfar liðið.

* Bjarni Ófeigur Valdimarsson heldur áfram að gera það gott með liði Skövde í Svíþjóð. Á laugardag fór hann á kostum í sterkum 33:30-útisigri gegn Hammarby í sænsku úrvalsdeildinni í handbolta. Bjarni Ófeigur hefur verið afar drjúgur í markaskorun á tímabilinu hingað til og hélt uppteknum hætti með því að skora sex mörk. Ekki nóg með það þá lagði hann upp sex önnur mörk fyrir samherja sína og var þannig með sanni allt í öllu í leiknum eins og oft áður.

* Albert Guðmundsson átti afar góðan leik fyrir AZ Alkmaar er liðið vann 5:1-heimasigur á Utrecht í hollensku úrvalsdeildinni í fótbolta í gær. Albert lagði upp fyrsta markið strax á sjöttu mínútu og skoraði svo sjálfur fimmta markið úr víti á 86. mínútu. AZ er að rétta úr kútnum eftir erfiða byrjun en liðið er í níunda sæti með 12 stig eftir átta leiki og þrjá sigra í röð.

*Mývetningarnir og hjónin Gunnhildur Hinriksdóttir og Sigurbjörn Árni Arngrímsson ásamt Jóhönnu S. Kristjánsdóttur voru sæmd gullmerki UMFÍ á sambandsþingi UMFÍ á Húsavík á laugardag. Jóhanna og Sigurbjörn Árni eru forsetar þingsins. Gunnhildur er framkvæmdastjóri Héraðssambands Þingeyinga (HSÞ), eins af sambandsaðilum UMFÍ. Jóhanna er jafnframt fyrrverandi formaður HSÞ.

*Íslandsmeistarar SA unnu nauman 4:3-útisigur á Fjölni í Hertz-deild karla í íshokkí á laugardag . Jóhann Már Leifsson skoraði tvö mörk fyrir SA, sem er í toppsætinu með tíu stig, tveimur stigum á undan SR. Fjölnir er í þriðja og neðsta sæti með þrjú stig.

* Aron Pálmarsson átti stórleik í liði Aalborg þegar liðið vann Skjern með minnsta mun í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta á laugardag. Aron bar af og skoraði sjö mörk úr níu skottilraunum, auk þess sem hann lagði upp önnur tvö mörk fyrir liðsfélaga sína í 27:26-útisigri. Aalborg er í öðru sæti dönsku deildarinnar með tólf stig, tveimur stigum á eftir GOG. Viktor Gísli Hallgrímsson varði níu skot í marki GOG í 36:31-sigri á Ringsted á heimavelli.

*Ekki tókst að klára leik Bergischer og Wetzlar á heimavelli fyrrnefnda liðsins í efstu deild þýska handboltans á laugardagskvöld vegna veikinda stuðningsmanns í stúkunni. Í stöðunni 21:19 fyrir Wetzlar var leikurinn stöðvaður vegna veikindanna en stuðningsmaðurinn var var færður á sjúkrahús. Í kjölfarið var ákveðið að flauta leikinn af, en ekki er vitað um líðan stuðningsmannsins á þessari stundu. Arnór Þór Gunnarsson leikur með Bergischer og var kominn með eitt mark þegar leikurinn var flautaður af.

* Haraldur Franklín Magnús lauk leik á samtals þrettán höggum undir pari á Emporda Challenge mótinu í Girona á Spáni um helgina. Hann endaði í 10.-13. sæti en mótið var hluti af Áskorendamótaröð Evrópu, sem er sú næststerkasta í álfunni. Haraldur lék lokahringinn í gær á 68 höggum eða á þremur höggum undir pari vallarins. Hringina fjóra lék hann á 68, 71, 64 og 68 höggum. Í gær fékk Haraldur þrjá fugla, einn örn, tvo skolla og tólf pör. Hann fékk tvo erni í mótinu. Guðmundur Ágúst Kristjánsson tók einnig þátt í mótinu en komst ekki í gegnum niðurskurðinn eftir að hafa leikið á 73 og 73 höggum á fyrstu tveimur hringjunum.

*Barcelona vann 3:1-sigur á Valencia í 1. deild Spánar í fótbolta á Nývangi í gækvöldi. José Gayá kom Valencia yfir strax á 5. mínútu en Ansi Fati jafnaði á 13. mínútu. Hollendingurinn Memphis Depay kom Barcelona yfir með marki úr víti á 41. mínútu og Philippe Coutinho gulltryggði 3:1-sigur á 85. mínútu. Barcelona er í sjöunda sæti deildarinnar með 15 stig.

*Handknattleiksmaðurinn Teitur Örn Einarsson er á förum frá sænska félaginu Kristianstad en frá þessu er greint á heimasíðu þess. Teitur var ekki í leikmannahóp liðsins sem mætti Alingsås í gær. Í tilkynningu Kristianstad kemur fram að Teitur hefur náð samkomulagi við annað félag. Samkvæmt sænska miðlinum Kristianstadbladet er hægri skyttan á leið til þýska félagsins Flensburg.