Gunnlaugur Valdemar Snævarr fæddist 7. apríl 1950. Hann lést á Landspítalanum 18. september 2021.

Útför Gunnlaugs fór fram 29. september 2021.

Við Gulli kynntumst í Kennaraskólanum, eða réttar sagt í Kennaraskólakórnum sem fór fræga söngferð til Noregs á lokanámsári mínu. Kórinn þurfti á smá aðstoð að halda og var tilvonandi eiginmaður minn fenginn að láni í tenórinn. Í áraraðir minntumst við Gulli þess með viðeigandi kátínu að í ferðinni tók ég eitt sinn misgrip á honum og mínum tilvonandi og kom aftan að Gulla með miklum hlýlegheitum, sem hann tók vel, en stóð stutt þegar uppgötvaðist.

Í Kór Langholtskirkju sungum við saman, byrjuðum í hinum hefðbundna kirkjukór en vorum svo í þeim galvaska byltingarflokki sem breytti starfi kórsins í það að verða kór sem söng við athafnir án greiðslu en öll þóknun fór í kórsjóð til að kaupa nótur og standa straum af metnaðarfullu tónleikahaldi. Við vorum bæði í stjórn á þessum tíma, 1974, og svo tók Gulli við formennskunni af mér þegar ég flutti út á land. Gulli var alla tíð klettur sem hægt var að reiða sig á þegar eitthvað þurfti til, og var bæði ráðagóður og lá ekki á liði sínu þegar þurfti.

En hinn einstaki eiginleiki Gulla var hin hlýja kímnigáfa, að sjá hið skemmtilega, að orða hlutina svo að hægt var að skella upp úr og halda svo áfram og að koma atburðum og atvikum í rímað form.

Auk þessa var Gulli ljómandi skáldmæltur og þýðingar hans og söngtextar eru mikill fjársjóður. Margir Langholtsbrandarar voru úr hans smiðju, þegar snúið var upp á setningar í stórverkum Bachs og sálmatextar aðeins fordjarfaðir, en næmni hans var líka mikil og langar mig að nefna þýðingu hans á færeyska laginu „Fagurt er um sumarkvöld við sæinn“ sem fulltrúa þess þegar þýðing verður á pari við, eða jafnvel næmari en frumtextinn.

Langholtskirkja og Kór Langholtskirkju áttu stóran sess í hjarta hans. Svo stóran að þegar fyrrverandi kórformenn gengust fyrir því að rita minningabók um 50 ára starf Jóns Stefánssonar við kirkjuna, þá játaðist hann því að skrifa texta bókarinnar. Engan grunaði að bókin yrði sú minningarbók sem hún varð, en Jón lést vorið 2016.

Í einum kafla bókarinnar skrifar Gulli um Jónsa „...hann er einna næst því af öllum listamönnum sem ég þekki, að vera venjulegur, miðað við það hve mikill listamaður hann er“. Þessi setning lýsir þeim báðum og það verður örugglega ekki töluð vitleysan þegar þeir félagar koma saman í kór hinna himnesku herskara.

Guð blessi minningu Gunnlaugs Snævarr og styrki Auði og fjölskyldu hans.

Margrét Bóasdóttir.