Vetrarfærð Ekki voru allir undir það búnir að aka í snjónum á Hellisheiði í gær og fóru margir bílar út af.
Vetrarfærð Ekki voru allir undir það búnir að aka í snjónum á Hellisheiði í gær og fóru margir bílar út af. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
Logi Sigurðarson Þorsteinn Ásgrímsson Margir ökumenn lentu í vandræðum á hringveginum í gær. Austanstormur gekk yfir landið og gular veðurviðvaranir voru víða í gildi frá því klukkan 16. Hvasst var um landið sunnanvert.

Logi Sigurðarson

Þorsteinn Ásgrímsson

Margir ökumenn lentu í vandræðum á hringveginum í gær. Austanstormur gekk yfir landið og gular veðurviðvaranir voru víða í gildi frá því klukkan 16. Hvasst var um landið sunnanvert. Umferðaróhöpp mátti líka rekja til vetrarfærðar sem virtist koma mörgum ökumönnum í opna skjöldu.

Bryndís Harðardóttir, sem rekur dráttarþjónustu í Vík í Mýrdal, sagði í samtali við mbl.is síðdegis í gær að hátt í tuttugu bílar hafi farið út af hjá Reynisfjalli en mikið vonskuveður var á svæðinu og vindhviður allt að 30 metrar á sekúndu.

Erlendir ferðamenn töldu sig vera á vetrardekkjum

„Við höfum verið að draga bíla í allan dag, en við erum hætt núna því Vegagerðin er farin að fylgja bílum yfir. Þeir fóru að fylgja yfir um fimm- eða sexleytið, þeir hefðu mátt gera þetta fyrr. Það hefur verið gríðarleg umferð þarna í allan dag,“ sagði Bryndís og bætti því við að ökumennirnir hafi aðallega verið erlendir ferðamenn. Þeir hafi talið að þeir væru á vetrardekkjum en annað hafi komið á daginn. Umferðaróhöpp voru víðar í gær. Hellisheiðinni var lokað í austurátt í stutta stund eftir að sex bílar fóru út af og vörubíll þveraði veginn. Þá var veginum við Hafnarfjall lokað um tíma meðan bíll var dreginn upp á veg. Dynjandisheiði og Nesjavallaleið var lokað í gær.

Ekki þörf á rýmingu

Síðdegis í gær var tilkynnt að ekki hefði verið talin ástæða til að rýma hús á Seyðisfirði en þó var gefin út úrkomu- og skriðuviðvörum á sunnanverðum Austfjörðum. Þetta var ákveðið á fundi lögreglunnar á Austurlandi með Veðurstofu Íslands, almannavörnum og Múlaþingi.

Segir í tilkynningu frá lögreglu að úrkoma á næstu dögum gæti valdið því að einhver hluti hryggsins milli skriðuássins og Búðarár á Seyðisfirði fari af stað. Ekki er gert ráð fyrir því að hann fari allur af stað í einu þar sem hann er sprunginn og gliðnaður. Allar líkur eru taldar á því að varnargarðar og safnþró leiði aurinn til sjávar án þess að valda tjóni á mannvirkjum. Enn er í gildi óvissustig almannavarna á Seyðisfirði.