Norðurslóðir Þátttakendur ráðstefnunnar voru um 1.300 talsins frá yfir 50 löndum en innkoma Grænlands á ráðstefnuna vakti nokkra athygli.
Norðurslóðir Þátttakendur ráðstefnunnar voru um 1.300 talsins frá yfir 50 löndum en innkoma Grænlands á ráðstefnuna vakti nokkra athygli. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Veronika Steinunn Magnúsdóttir veronika@mbl.

Veronika Steinunn Magnúsdóttir

veronika@mbl.is

Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands og forsvarsmaður Arctic Circle, segir það hafa verið skýrt í umræðum um loftlagsbreytingar á ráðstefnunni, sem lauk á laugardaginn var, að straumhvörf í orkumálum um allan heim séu forsendur þess að ná árangri í loftlagsmálum. „Þetta var ansi fjölþættur vettvangur og mörg söguleg tíðindi. Sem dæmi má nefna að Evrópusambandið kom á Hringborð norðurslóða og kynnti í fyrsta sinn á opinberum alþjóðlegum vettvangi hina nýju norðurslóðastefnu ESB,“ segir Ólafur. Nýskipuð forystusveit Joe Biden Bandaríkjaforseta í málefnum norðurslóða, lét þá sjá sig á þinginu, fáeinum vikum eftir að hún tók til starfa, til þess að útskýra áherslur og markmið Bandaríkjanna í þessum málum og líka til þess að eiga fjölmarga fundi á þinginu með fulltrúum annarra aðila. Þá beri að fagna þátttöku tveggja öldungadeildarþingmanna Bandaríkjaþings sem gegna forystu í öldungadeildinni annars vegar í málefnum norðurslóða, og hins vegar loftslagsmálum. „Það var mjög mikilvægt að þessir tveir forystumenn úr öldungadeild Bandaríkjaþingsins úr sitthvorum flokknum, skyldu taka jafnvirkan þátt í þinginu eins og raun bar vitni.“ Annar þeirra er Lisa Murkowski, öldungadeildarþingmaður Alaska á Bandaríkjaþingi, sem sagði ástæðu til að brýna fyrir ríkisstjórn Bidens mikilvægi fríverslunarsamnings Bandaríkjanna við Ísland, sem lið í breyttri norðurslóðastefnu. „Flestir áttuðu sig ekki á að Bandaríkin eru norðurslóðaríki og á það við embættismenn, stjórnmálamenn og almenning,“ sagði hún.

Þátttakendur ráðstefnunnar voru um 1.300 talsins frá meira en 50 löndum og var þar farið vítt og breitt yfir stöðu norðurslóða í alþjóðasamhengi. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í opnunarávarpi sínu að hnattræn hamfarahlýnun sé mannanna verk og þess vegna standi það á mannkyninu að bregðast við og snúa þróuninni jörðinni í vil.

„Grænland er mætt til leiks“

Ólafur segir að það hafi sætt miklum tíðindum að margvíslegir fulltrúar hinnar nýju ríkisstjórnar á Grænlandi hafi flutt á þinginu afdráttarlausan boðskap um stefnu hinnar nýju ríkisstjórnar Grænlands og áttu fjölmarga fundi á þinginu með fulltrúum annarra aðila.

„Grænland er mætt til leiks með nýjum hætti og nýja kynslóð forystumanna, sem mikilvægt er að Íslendingar geri sér grein fyrir. Bæði vegna þess að þetta er okkar næsti nágranni en líka vegna þess að það skapar fjölmörg tækifæri fyrir Ísland.“ Að lokum bætti Ólafur við að þátttaka ungs fólks á þinginu hafi verið einstaklega áberandi í ár: „Á fyrstu árum þinganna þurftum við dálítið að sækja slíka þátttakendur en núna komu nokkur hundruð af ungu fólki af eigin frumkvæði. Margir af hinum eldri þátttakendum og forystumönnum höfðu orð á því að þeir hefðu aldrei fyrr verið á alþjóðlegu þingi með jafnfjölmenna sveit af ungu fólki sem væru jafnvirknir þátttakendur í umræðum og skoðanaskiptum,“ segir hann og nefnir til dæmis unga vísindamenn, aktívista, áhugafólk um loftslagsbreytingar, námsmenn og aðra, sem töldu nokkur hundruð.