Eldgos Þegar mest lét var eldgosið í Geldingadal mikið sjónarspil.
Eldgos Þegar mest lét var eldgosið í Geldingadal mikið sjónarspil. — Morgunblaðið/Einar Falur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinar Ingi Kolbeins steinar@mbl.is Einn mánuður er nú liðinn frá því kvika rann upp úr gígnum í Geldingadölum. Gosið hefur því í raun verið í dvala undanfarinn mánuð. Þrátt fyrir það gerir fólk sér enn ferð upp að gosstöðvunum, þó í minna mæli en...

Steinar Ingi Kolbeins

steinar@mbl.is

Einn mánuður er nú liðinn frá því kvika rann upp úr gígnum í Geldingadölum. Gosið hefur því í raun verið í dvala undanfarinn mánuð. Þrátt fyrir það gerir fólk sér enn ferð upp að gosstöðvunum, þó í minna mæli en áður. Ferðamálastofa heldur utan um fjölda þeirra sem hafa gert sér ferð að gosstöðvunum frá því gosið hófst nú í vor. Samkvæmt upplýsingum Ferðamálastofu hafa í heildina 324.778 einstaklingar farið og séð gosið frá upphafi. Umferðin hefur því verið stöðug undanfarna mánuði.

Mest var umferðin í byrjun en fyrstu dagana voru að jafnaði rúmlega sex þúsund manns sem gerðu sér ferð daglega að gosstöðvunum.

Frá því kvika hætti að renna úr gígnum þann 18. september síðastliðinn fram að laugardeginum 16. október hafa 29.406 manns gert sér ferð að gosstöðvunum eða rétt rúmlega þúsund á dag. Þá hafa ekki yfir 1.500 manns gert sér ferðina sama daginn síðan 25. september og því ljóst að áhugi fólks á því að fara og sjá gosið hefur minnkað töluvert frá því að hraun hætti að renna úr gígnum. Bogi Adolfsson, formaður björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík segir í samtali við Morgunblaðið að erlendir ferðamenn séu í meirihluta gesta á svæðinu. „Núna eru þetta bara túristar, þeir eru alltaf þarna eitthvað að bralla.“

Bogi segir umræðu um að minnka viðveru björgunarsveita á svæðinu hafna, en þó sé allt á umræðustigi enn sem komið er. Svæðið sé í góðu ástandi og göngustígar til að mynda vel upplýstir.