[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Grétar Vídalín Pálsson er fæddur 18. október 1936 í Reykjavík. „Byrjunin var þannig að ég var sendur í Staðarsveitina fyrir vestan til móðursystur minnar og var þar í sex mánuði.

Grétar Vídalín Pálsson er fæddur 18. október 1936 í Reykjavík. „Byrjunin var þannig að ég var sendur í Staðarsveitina fyrir vestan til móðursystur minnar og var þar í sex mánuði. Svo fór ég í Hafnarfjörðinn til foreldra minna, og var síðan borinn í skinnpoka yfir Hellisheiði til Eyrarbakka og svo var farið með mig í trillu til Þorlákshafnar. Á leiðinni stoppaði vélin og bátinn fór að reka. En svo komst vélin í gang og ég fór til Þorlákshafnar og þaðan í Selvoginn. Ég hef verið svona ársgamall.“ Grétar ólst þar upp í hjáleigunni Sólheimum hjá móðurömmu sinni sem bjó þar hjá vinafólki. Þar var Grétar til fjórtán ára aldurs.

„Þá var ég tekinn og farið með mig á togara og var gerður að spíssara, eða kyndara.“ Grétar var efti það á sjónum en fór sjálfur í útgerð árið 1962. Þá keypti hann trilluna Sleipni og gerði hana út frá Hafnarfirði í átta ár. Hann rak einnig fiskbúðir á þessum tíma, eina í Hafnarfirði og eina á Langholtsvegi í Reykjavík. „Síðan lét ég smíða fyrir mig bát í Bátalóni árið 1973, Sæljóma, hann var 11 tonn og ég gerði hann út í sautján ár frá Sandgerði. Síðan lét ég smíða bát úti í Noregi, plastbát og gerði hann út í sautján ár. Hann var 20 tonn. Á þessum bátum voru ýmist tveir um borð á línu eða upp í fjóra á netum. Ég byggði líka fiskhús í Sandgerði og fór að verka fisk frá 1984 til 1987.“ Grétar var í útgerð til 2007 eða þar til hann var 71 árs. „Þá veiktist ég af krabbameini og ákvað að selja útgerðina. Ég reri alltaf út sjálfur, treysti engum nema sjálfum mér til þess.“

Þegar Grétar seldi útgerðina keypti hann sumarhús í Grímsnesi. Hann er þar með gróðurhús og hefur verið að rækta sumarblóm þar og ýmislegt annað . „Ég lét líka gera 18 holu púttgolfvöll við bústaðinn.“ Grétar hefur ferðast mikið, fór á tímabili á jeppum upp á jökla og fjöll. Hann á hjólhýsi og hefur verið duglegur að ferðast á því. „Það er stórt og mikið hús, en núna nota ég það aðallega til að fara í Selvog og slappa af.“

Grétar hefur verið duglegur að skreyta húsið sitt í Sandgerði fyrir jólin og fengið oftar en einu sinni verðlaun fyrir best skreytta húsið í bænum. „Ég skreyti ekki nálægt því eins mikið og ég gerði áður, á ekki auðvelt með að ganga upp í stiga, en ég set alltaf eitthvað upp.“ Þar hefur Grétar búið, á Stafnesvegi 3, í 36 ár.

Fjölskylda

Eiginkona Grétars var Fanney Haraldsdóttir, f. 16.5. 1940 í Reykjavík, d. 11.12. 1992, vann frá 14 ára aldri á Sólvangi í Hafnarfirði, vann í Leifsstöð, við útgerð Grétars og ýmsa aðra þjónustuvinnu. Þau voru búsett í Hafnarfirði til 1977, en eftir það í Sandgerði. Foreldrar Fanneyjar voru Haraldur Agnar Guðmundsson, f. 29.7. 1913 í Hafnarfirði, d. 6.5. 1989, verkamaður í Hafnarfirði, síðast bús. í Reykjavík, og Halldóra Sigríður Guðvarðardóttir, f. 16.8. 1922 í Reykjavík, d. 27.8. 2008, húsfreyja.

Börn Grétars og Fanneyjar eru 1) Kolbrún Vídalín Grétarsdóttir, f. 27.7. 1958 í Hafnarfirði, listamaður, búsett í Sandgerði. Maki: Jón Bjarni Pálsson, f. 5.10. 1957. Börn þeirra eru Grétar Páll Jónsson, f. 12.6. 1977, Fannar Jónsson, f. 20.1. 1979, og Guðrún Jóna Jónsdóttir, f. 29.7. 1981; 2) Karl Vídalín Grétarsson, f. 27.9. 1961 í Hafnarfirði, bílstjóri og leiðsögumaður, búsettur í Kópavogi. Maki: Björg Hauksdóttir, f. 23.1. 1966. Börn þeirra eru Elvar Þór Karlsson, f. 23.2. 1987 (barnsmóðir Guðríður Briet Kristjónsdóttir), Klara Rós Karlsdóttir, f. 9.1. 1996, Svana Fanney Karlsdóttir, f. 7.4. 1999; 3) Haraldur Grétarsson, f. 15.12. 1963 í Hafnarfirði, flugvirki, búsettur í Sandgerði. Maki: Rósa Margrét Guðnadóttir, f. 3.7. 1965. Börn þeirra eru Guðni Magnús Haraldsson, f. 6.11. 1985, Fanney Haraldsdóttir, f. 25.2. 1989, Hanna Valdís Haraldsdóttir, f. 3.11. 2001.

Systkini Grétars: Kolbrún Angela Pálsdóttir, f. 2.2. 1938, d. 25.5. 1940, Sigurjón Aron Pálsson, f. 20.10. 1948, fyrrverandi sjómaður, búsettur í Gautaborg í Svíþjóð, og Guðni Rúnar Pálsson, f. 24.2. 1950, fyrrverandi sjómaður, búsettur í Danmörku.

Foreldrar Grétars voru hjónin Páll Vídalín Jónsson, f. 23.5. 1912 á Litlu-Hellu, Snæf., d. 6.8. 2004, bóndi á Þórustöðum á Vatnsleysuströnd, síðast búsettur í Hafnarfirði, og Hrefna Guðnadóttir, f. 20.6. 1916 í Hausthúsum á Eyrarbakka, d. 8.5. 1997, húsfreyja á Þórustöðum, síðast bú sett í Hafnarfirði.