Jónas Elíasson
Jónas Elíasson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Jónas Elíasson: "Aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum skilar engum árangri í losun en gæti gert orkulindir landsins verðlausar."

Hópur fólks, einkum ungs fólks, er að fyllast örvæntingu vegna loftslagsvandans. Auðvitað er ástandið alvarlegt, en engin ástæða til ofsahræðslu. Hitastigsbreytingar eru langt innan þeirra marka sem hitinn hefur sveiflast á milli undanfarin árþúsund. Hér á Íslandi hefur nánast ekkert hlýnað síðustu hundrað árin, svo dæmi sé tekið. Í loftslagssögunni er ekki dæmi um nema eina hamfarahlýnun, en ísaldir, sem er mun verra, koma á 80-100.000 ára fresti. Eins og loftslagsmál standa er ekki nokkur leið að spá um hvort við séum að kalla yfir okkur hamfarahlýnun eða slá næstu ísöld á frest.

Aðgerðir stjórnvalda

U.þ.b. helmingur raforkuvinnslu heimsins byggist á kolum og olíu. Það er orðið of seint að breyta yfir í kjarnorku, umhverfissinnar vilja leggja hana niður og þá verður bætt í kolin. Evrópsk og amerísk orkukerfi eru nánast fullbyggð og fólki þar hætt að fjölga. Vandamálið í dag er Asía og Afríka. Ef bjarga á loftslaginu verður það að gerast þar, losunarskattar og aðgerðaáætlanir í öðrum heimsálfum gera það ekki. Niðurstaðan er því sú að þrátt fyrir ítrekaðar heitstrengingar og skuldbindingar á alþjóðlegum þingum er losun ennþá að aukast.

Ísland

Raforkuvinnslan notar hvorki kol né olíu, svo hér á Íslandi er svo gott sem ekkert hægt að gera til að draga úr losun landsins ef menn ætla ekki að stöðva samgöngur og fiskveiðar og senda landið aftur í miðaldir. Stóriðjan og losun hennar fer í taugarnar á mörgum, en hafa verður í huga að stóriðja á hreinni orku losar aðeins brot af stóriðju á olíuorku. Ísland getur því gengið til samstarfs við önnur ríki um að stórauka þennan iðnað og þannig haft jákvæð áhrif á alþjóðlega þróun loftslagsmála. En Ísland er búið að semja sig frá þessum möguleika. Umhverfisráðherra gengur nú hart fram í að friða allt sem hægt er að friða með því augljósa markmiði að koma í veg fyrir slíka þróun.

Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum

Plagg með þessu nafni var gefið út af ríkisstjórninni, þ.e.a.s. umhverfisráðuneytinu. Þarna er boðuð minnkandi losun, eins og fyrsti dálkurinn í meðfylgjandi töflu sýnir.

Annar dálkurinn sýnir jafngildi losunarinnar í olíu, en erfitt er að minnka losun í liðunum A, B og C án þess að spara olíu eða bensín. Þegar liður A er skoðaður í aðgerðaáætluninni kemur í ljós að meginástæða hins áætlaða 50.000 tonna sparnaðar af olíujafngildi er vegna borgarlínunnar. Að borgarlínan spari einhverja losun er hrein skröksaga eins og sýnt hefur verið fram á (sjá www.samgongurfyriralla.com og blaðaskrif þess hóps). Þvert á móti; hún eykur óþarfa eldsneytiseyðslu og losun með því að tefja aðra umferð. Umferðartafirnar eru þegar orðnar miklar, en áhrifa þeirra er hvergi getið í aðgerðaáætluninni eða skýrslum um borgarlínu. Telja verður að áhrifin af þessu verði að 20.000 tonn bætist við eldsneytiseyðslu í samgöngum eins og sýnt er í þriðja dálki töflunnar.

Þáttur sérfræðinga

Vitnað er til sérfræðinga í aðgerðaáætluninni. Ef haldið er áfram með borgarlínuna, þá er orðið ljóst að áætluð áhrif hennar á ferðaval koma frá pólitíkusunum sjálfum. Það er lítið gagn í sérfræðiálitum þegar sérfræðingar eru að segja eitthvað í sínum skýrslum sem áður var búið að segja þeim; af þeim sem pantar skýrsluna!

Loftslagsblekkingin

Af þeim gögnum sem birt eru í aðgerðaáætluninni er ekki að sjá neitt sem réttlætir losunarminnkunina í liðum B og C. Hægt er að spara losun í þessum liðum með breyttum vél- og tækjabúnaði, slíkar rannsóknir voru í gangi fyrir 40 árum en ekkert í dag að séð verður. Því er ekki hægt annað en áætla þá liði 0, en líklega mundi koma út úr þeim aukin losun ef málið er skoðað nánar. Niðurstaðan er því +20 í stað –270. Það er ábyrgðarhluti ef ríkisstjórnin ætlar að beita blekkingum af þessu tagi til að friða þann hóp sem hún sjálf er búin að hræða að óþörfu. Raunhæfar aðgerðir eru til, það er hægt að ráðast að umferðarvandanum, það er hægt að smíða skip og flutningabíla á rafmagni, en það þarf eitthvað að gera til þess að slíkt verði að veruleika, það dugar ekki að gefa út aðgerðaáætlun og bíða svo eftir orkuskiptum með kraftaverki. Loftslagsvandinn verður ekki leystur með kraftaverkum eða blekkingum og ábyrgð umhverfisráherra er mikil að standa fyrir slíku.

Verðlausar orkulindir

Á núverandi markaðsverði er verðmæti losunarheimilda málmiðnaðar á Íslandi um 80 m EUR eða 12 Mia ISK og fer hratt hækkandi. Nú skal málmiðnaður draga úr losun samkvæmt aðgerðaáætluninni, sem væntanlega þýðir samdrátt í framleiðslu og kaupum á raforku, vinnu og þjónustu sem er mikil afturför í atvinnumálum. Að lokum mun hagkvæmast fyrir málmbræðslurnar að loka og selja sinn losunarkvóta. Þar með verður þeim mönnum að ósk sinni sem vilja losna við stóriðjuna, en í staðinn situr Ísland uppi með verðlausar orkulindir. Þegar stóriðjan er farin situr landið uppi með virkjanir sem duga henni um aldur og ævi og allt jákvætt framlag Íslands til loftslagsmála að engu gert.

jonaseliassonhi@gmail.com

Höfundur er prófessor.

Höf.: Jónas Elíasson