Minningar Í þessum kafla úr nýrri bók, Á sviðsbrúninni, rifjar Sveinn Einarsson leikstjóri og rithöfundur meðal annars upp hvernig hann féll fyrir óperum og hélt síðan til Stokkhólms að læra leiklistarfræði með meiru.
Minningar Í þessum kafla úr nýrri bók, Á sviðsbrúninni, rifjar Sveinn Einarsson leikstjóri og rithöfundur meðal annars upp hvernig hann féll fyrir óperum og hélt síðan til Stokkhólms að læra leiklistarfræði með meiru. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bókarkafli Í bókinni Á sviðsbrúninni birtir Sveinn Einarsson hugleiðingar sína um leikhúspólitík.

Bókarkafli Í bókinni Á sviðsbrúninni birtir Sveinn Einarsson hugleiðingar sína um leikhúspólitík. Hann rifjar líka upp í bókinni starf sitt í leikhúsum, óperuhúsum og sjónvarpi undanfarna áratugi og veltir fyrir sér aðferðafræði og vinnubrögðum leikstjórans og samvinnunni við leikskáld, tónskáld, leikara, söngvara, höfunda leikmynda, búninga og ljósa ásamt öðrum sem koma að því að skapa sviðslistaverk.

Tónarnir fljúga

Við Jóhanna sýningarstjóri Norðfjörð erum á leið í matarhlé af æfingu í Jónshúsi yfir í aðalbygginguna. Mig minnir að við höfum verið að æfa Vald örlaganna.

„Tekurðu eftir því að við erum bæði að syngja?“ spyr Jóhanna.

„Já, ekki er það alltaf,“ segi ég.

„Þegar við erum að æfa óperur,“ segir Jóhanna.

„Maður verður einhvern veginn svo glaður í sálinni,“ segi ég.

Þó er það ekki andskotalausar, eins og Sigurður málari hefði örugglega orðað það, en að koma saman einni venjulegri leiksýningu. Ólíklega, því að þetta eru oftast mikil listabákn. Stefnumót listgreinanna, ef svo má orða það, samleikur tónlistar og leiklistar – og allra hinna greinanna, hins talað orðs, myndlistarinnar, arkitektúrsins, dans og hreyfinga – og nú eru kvikmyndirnar oft með í púkkinu.

Leiklistin og tónlistin gengu saman í hjónaband þegar á dögum forngrikkja og tóku dansinn upp í hjá sér. Endurreisnarmenn sem sóttu mikið innblástur til Grikkja og Rómverja héldu að þessir forfeður okkar hefðu kyrjað alla harmleikina og úr því varð sá misskilningur að eftir því skyldi herma í formi endurreisnarinnar – opera in favola – og þetta er einn lukkusamlegasti misskilningur menningarsögunnar. Óperan varð til. Fyrst, eins og þeir Monteverdi og Cavalli og Cesti og fleiri mótuðu þessi frumherjaverk í fínum selsköpum upp úr 1600, síðan í ótrúlega margvíslegum formum eftir smekk og tíðaranda. Arfur okkar þarna er semsagt líka í formi barokk-óperu með sorglegu efni eða gamansömu, rókókó-óperu, einnig með fjölbreytilegu efni, svo koma rómantísk verk, grand opera hét það. Er leið á 19. öldina urðu stílform og viðfangsefni æ ólíkari og komast ekki öll undir einn hatt; undir aldamótin 1900 hét stefnan verismo, stíluð upp á hinn svokallaða veruleika.

Sennilega var óperan vinsælasta sviðsformið á 17. og 18. öld, en enn í dag eru óperur 19. aldar þær vinsælustu og oftast fluttu í óperuhúsum veraldar. Óperan á 20. og 21. öld hefur átt erfiðara uppdráttar þó að samin hafi verið mörg úrvalsverk og fitjað upp á mörgum frjóvænlegum nýmælum. Þar er við raunsæiskröfur að glíma, nú á síðari árum einkum í sjónvarpi. Það er náttúrulega fullkomlega óeðlilegt að æða um leiksvið galandi og baðandi út höndum og fótum klukkutímum saman. Eða hvað?

Mig minnir að það sé haft eftir Mahler að leikhús sé fyrir þá gölnu en óperan fyrir þá sem hafi enga von um bata. Eitthvað svona sagði mér Atli Heimir þá sögu.

Ýmsar hliðargreinar hafa gert þessa flóru ríkulegri. Eitt sinn voru Singspiel vinsæl, annað hvort fínerí eins og hjá Mozart og með töluðum texta á milli aríanna ellegar í alþýðlegra formi, eins og það birtist hjá okkur um Kaupmannahöfn á 19. öld, í formi svokallaðra vaudevill eða söngvaleikja. Óperettan var eins konar skemmtiform óperunnar, með tónlistarlegum þokka en afar afturhaldssömum tilvísunum í hinum þýskumælandi heimi, hjá Frökkum sem skopstælingar á til dæmis heimi hinna gömlu Grikkja, hjá Bretum með viktoríönskum siðabakgrunni í verkum Gilberts og Sullivan. Hin ameríska útgáfa er svo söngvaleikirnir, sem eru hvað vinsælasta sviðsformið í dag. Við höldum okkur enn bara við Evrópu, en hvar á að flokka Peking-óperuna?

Og þessi beinagrindarlega upprifjun er ekki einu sinni hálf sagan. Endurreisnarmenn vildu ekki aðeins gamla upphafna texta, við þeim blöstu rústir glæstra leikhúsa. Svona ættu leikhús framtíðarinnar að vera. Þá var ráðist í að byggja tvö glæsihús í gömlum stíl, Teatro Olympico í Vicenza og Farnese-leikhúsið í Parma. Og þar var komið í öllu sínu veldi hesthófsformið með sínar stúkur og svalir sem hefur verið ríkjandi í leikhúsbyggingum í fjórar aldir og sem menn fóru ekki að gera verulega uppreisn gegn fyrr en á 20. öld.

Og þar erum við eiginlega enn. Og ég er einn af þessum sem ekki getur batnað, þessum ólæknandi. Frá því ég man eftir mér hefur söngur, og mest óperusöngur, heillað mig. Ég fór snemma að leggja eyrað eftir söng Lotte Lehmann, Elísabetar Schumann (sem „söng báðar raddirnar“ eins og þeir orðuðu það í útvarpinu forðum, dúett úr Ævintýrum Hoffmanns og þótti tækniundur), Chaliapins, Alexanders Kipnis, Gigli, Titos Schipa og Jussa Björling sem voru heimagangar í útvarpinu á mínum uppvaxtarárum. Mína fyrstu hljómplötu eignaðist ég þegar ég arkaði með nokkrar krónur í vasanum niður til hljóðfærahússmaddömunnar í Bankastræti og keypti mér Svanasöng á heiði með Maríu Markan. Og svo uppgötvaði ég snemma vikulegan þátt í breska útvarpinu sem hét Kvöld í óperunni og þar var mikil gullkista. Þegar ég heyrði svo og sá fyrstu óperusýninguna á minni lífsleið, vorið þegar Þjóðleikhúsið var opnað og Sænska óperan kom með Brúðkaup Fígarós, var mér margt í músíkinni þar gamalkunnugt. Og ári seinna, þegar Þjóðleikhúsið flutti Rigoletto, vorum við nokkrir menntaskólanemar staddir um helgi í sumarbústað og meðal þess sem við gerðum okkur til skemmtunar var að syngja valda kafla úr þeirri ágætu óperu; við höfðum farið svo oft að við kunnum heilmikið utan bókar og nótna. Gott ef við lékum ekki atriðið þegar hirðin hæðist að Rigoletto. En reyndar grunaði mig ekki þá hversu oft ég átti eftir á lífsleiðinni að sækjast eftir óperusýningum og að þær áttu eftir að skipta mörgum hundruðum.

Það er frá nokkrum þeirra sem ég ætla að segja hér, bæði þeim sem mér hafa þótt minnisstæðar og eins mínum eigin óperuuppfærslum því að þær eru auðvitað minnisstæðar líka. Mér að minnsta kosti.

Það var ekkert samhengi, held ég, milli þess að fyrsta óperusýning mín var sænsk og að ég fór til náms í Svíþjóð hinni köldu. Þar réð hvað mér þótti skynsamlegt miðað við námsfyrirkomulag á þeim stöðum þar sem leikhússaga var kennd, Vín, Bristol, Birmingham, Kaupmannahöfn... Bresku háskólarnir féllu á því að ég vildi vera í borg þar sem mikið leikhúslíf væri, í Kaupmannahöfn var námsfyrirkomlagið gamaldags. Og satt að segja langaði mig hvorki til Vínar né Þýskalands eftir stríð.

Ég samdi þá við foreldra mína að styrkja mig í að vera einn vetur í Stokkhólmi, þau alltaf miklir Skandínavistar, og sjá hvernig ég yndi mér. Hugur minn stefndi til Parísar en þar voru ekki komin nein leiklistarfræði fremur en víðast hvar í Evrópu; fræðigreinin mjög ung. Til Bandaríkjanna langaði mig ekki þó að ég vissi þar góða skóla.

Námsfyrirkomulag í Stokkhólmi var á þann veg að lesið var til fil. kand. eða filosofie kandidats-náms og til að ná þeim áfanga skyldi maður þreyta próf fyrir samanlagt 6 stig. Í einu fagi skyldi maður vera lærður upp á 3 stig og valdi ég þar almenna bókmenntasögu sem kannski var aðeins vænlegra til lifibrauðs en hin óþekkta leiklistarsaga. „Er það ekki eitthvað um leikrit og svoleiðis?“ spurðu meira að segja íslenskir háskólamenn mig. Ég tók síðan tvær gráður í leiklistarsögunni og svo vegna þess að mig langaði í sem almennasta þekkingu og hafði grun um að heimspeki væri undirstaða allra greina, allrar hugsunar, sótti ég tíma þar. Henni var skipt í tvo ála: fræðilega heimspeki, þar í þekkingarfræði og rökfræði, og hagnýta heimspeki, þar í siðfræði, fagurfræði, orðnotkunarfræði og annað slíkt; til dæmis tengsl heimspeki og annarra greina, t.d. lögfræði. Báðum þessum kvíslum fylgdi svo heimspekisaga. Ég sótti tíma í hvorum tveggja og tók próf í þeirri hagnýtu.

Ég komst fljótt að raun um að það var ekki svo vitlaust að lesa almenna bókmenntasögu hjá þjóð sem taldi sig ekki hafa meira eða minna skrifað hana sjálf eins og Bretar, Frakkar og Þjóðverjar. Þar gætir meira hlutleysis. Og svo fékk ég í kaupbæti bók- og menningarsögu Norðurlanda sem ég býst ekki við að hefði verið gefinn mikill gaumur hefði ég farið til fjölmennari landa. Þetta gaf mér rétt til að vera prófdómari í Háskóla Íslands áratugum síðar, var víst sá eini sem fannst með þetta próf. Og ekki hefur mig iðrað að hafa fengið þef af heimspeki; bý að því alltaf.

En aðaláhuginn beindist að leiksviðinu. Leiksögudeildin hafði verið stofnuð, að ég held, þremur árum fyrr og var persónulegt prófessorat í heiðursskyni við Agne Beijer. Hann hafði fundið aftur Drottninghólmsleikhúsið með öllum sínum 32 leikmyndum sem höfðu legið þar eins og þyrnirós og var haldið í geymslu sem enginn nennti að sinna. Ég held hann hafi haft listasögu til grundvallar; var auk þess skarpur en hlýr leikgagnrýnandi. Svo voru aukakennarar með styttri námskeið. Móttökufræðunum kynntumst við gegnum félagsfræðilegar úttektir á tónlistarmóttöku, og svo kom sér vel að hafa orðgreininguna úr heimspekinni því að hvorki eiginleg túlkunarfræði né semantík var almennilega komin upp á borð í leiklistarfræðunum.

Þó að kennslan væri þarna fyrst og fremst fræðileg voru menn naskir á að verða sér úti um praktíska reynslu; við unnum til dæmis í Drottninghólmsleikhúsinu og þar bjó ég til öldur með því að rúlla völsum til skiptis og skruggur með því að hrista grjóthnullunga. Svo völdum við og lékum leiksögulega merkileg verk í Stúdentaleikhúsinu, verk sem ekki voru á hvers manns disk eins og endurreisnarverk eftir Angelo Beolco, sem engir þekkja nema leikhúsfræðingar, og svo Krýningu Poppeu eftir Monteverdi sem hefur gengið í endurfæðingu lífdaganna. Sumir kræktu sér í aðstoðarleikstjórn, aðrir voru vikapiltar og fengu að fylgjast með æfingum í leikhúsunum; ég valdi óperuna. Enda fór það svo að úr þessum fámenna hópi deildarinnar komu margir sem síðan áttu eftir að láta að sér kveða í sænsku leikhúslífi, leiðandi óperuleikstjórar eins og Folke Abenius og Lars Runsten, leikstjórar eins og Jan Håkansson og dramatúrgar og leikkennarar eins og Niklas Brunius, þekktir sjónvarpsmenn eins og Lars Edin á sokkabandsárum þess miðils. Við vorum sjö sem byrjuðum saman haustið 1954, þar af urðu tvö þekkt skáld, Gunnar Eddegren og Daninn Poul Borum. Einn sjömenninganna var Calle Torell, þekktur sjónvarpsmaður sem lét það verða sitt síðasta verk að fara til Íslands fárveikur og gera þátt fyrir sænska sjónvarpið um gamlan vin sinn.

Í París var ég síðan vetrarlangt sem boursier du gouvernement Française fyrir tilstyrk öðlingsins Beijers, sem sé opinber styrkþegi. Þar las ég einkum samanburðarbókmenntir, m.a. hjá þeim fræga manni Étiemble sem skrifaði upp kínversk hugstök og tilvísanir sem og á öðrum framandi málum á töfluna, hélt víst að við skildum það. Og svo fylgdist ég með kúrsum þar sem leikbókmenntir komu við sögu, sumt mjög gagnlegt, annað tímaeyðsla. Fór síðan heim að vinna í útvarpinu, var þar m.a. með leikhúspistla, sem var nýmæli, og sótti mér til skemmtunar tíma í ítölsku í háskólanum. Áður hafði ég verið í blaðamennsku þrjú sumur og allt var þetta einstaklega góður skóli.