Hafsteinn Heiðar Kristinsson fæddist 20. desember 1957. Hann varð bráðkvaddur 15. október 2021.

Jarðsungið var 23. október 2021.

Með örfáum orðum langar mig að minnast Hafsteins Kristinssonar bróður míns sem lést hinn 15. október 2021. Hafsteinn var þriðji í röð systkinahóps sammæðra, sem samtals voru átta. Ég minnist Hafsteins sem stóra bróður sem aldrei skipti skapi, var alltaf glaður, ljúfur og tilbúinn að hjálpa hvar og hvenær sem til hans var leitað. Hann fór snemma að heiman eftir grunnskóla og flutti til að byrja með til Huldu og Kjartans í Ólafsvík sem voru honum afar kær. Í Ólafsvík hóf hann sinn búskap og eignaðist fallegt heimili þar sem gott var að koma og allir voru velkomnir. Það er ómetanlegt að eiga minningar um ófáar ferðir sem farið var vestur í æsku og alltaf yndislegt að fá að gista hjá Hafsteini og Maggýju. Þau skildu en héldu góðu sambandi sem er til eftirbreytni. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga heima hjá Hafsteini og Maggýju fyrsta árið sem ég fór til sjós. Hjá þeim leið mér vel. Seinna áttaði maður sig á því hvað maður var heppinn að hafa á sínum tíma gott fólk í kringum sig og gaf manni hluta af því veganesti sem mótaði ungan mann. Hafsteinn var afskaplega stoltur af börnunum sínum og heimili hans bar vott um það. Hann skreytti heimili sitt með hlutum sem tengdust fjölskyldunni og minningum af lífsleiðinni.

Ég sendi innilegar samúðarkveðjur til vina og vandamanna.

Við kveðjum ljúfmenni.

Davíð Jóhann.