Tómas Ævar „Umframframleiðsla er ljómandi vel heppnuð frumraun, afmörkuð og öguð en þó frjó og áleitin,“ segir gagnrýnandinn.
Tómas Ævar „Umframframleiðsla er ljómandi vel heppnuð frumraun, afmörkuð og öguð en þó frjó og áleitin,“ segir gagnrýnandinn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Tómas Ævar Ólafsson. Una útgáfuhús, 2021. Kilja, 75 bls.
Umframframleiðsla er fyrsta ljóðabók Tómasar Ævars Ólafssonar. Í henni kannar skáldið sálarlífið, tilfinningarnar. Nokkuð sem fylgir okkur alla daga en við flest eigum erfitt með að skilja og mörg okkar eiga enn erfiðara með að tala um.

þú veist

að undir gögnunum

titrar lífið

þú hefur séð það

með berum augum

og lýsir því fyrir henni

ekkert gljáfægt sjálf

ekkert kjarnað ég

heldur kámugt óefni

varurð

eintóm og óhlaðin

til

finning (26)

Tómas leitar innblásturs í vangaveltum um aðskilnað efnis og anda, um það hvort sálin sé hluti af efnisheiminum eða ekki. Þetta er efniviður sem ótal heimspekingar og skáld hafa tekið fyrir í gegnum aldirnar en það er óvitlaust að taka það fyrir enn einu sinni.

Við búum við nýja heimsmynd, í heimi þar sem raunsæið, vísindin, hafa tekið yfir og trúarbrögðin að mörgu leyti lagst af sem hugmyndafræðilegar stoðir og styttur.

Heimsmynd okkar er tvískipt. Annars vegar erum við samkvæmt vísindalegum rannsóknum einungis búin til úr efni, úr atómum sem byggja frumur. Allar hugsanir okkar og tilfinningar eru bara efnaskipti. Hins vegar búum við í samfélagi sem þráir eitthvað meira, leggur mikla áherslu á andlega heilsu og er forvitið um sálarlífið og ber virðingu fyrir því.

Tómas gerir tilraun til þess að henda reiður á þessu óræða fyrirbæri: sálinni í samtímanum, tilfinningalífinu. Hann hlutgerir hana í ótal ólíkum myndum. Skynjun, kennd, „kámugt óefni“. Hann setur sálina fram sem eitthvað götótt sem þarf að stoppa í. Hann er áhugasamur um og jafnvel krítískur á þá miklu áherslu sem lögð er á sálarlífið í samtímanum, á sálfræðitíma, hugleiðslu, sjálfið.

til

finning

ekki alveg kennd

ekki alveg bein skynjun

þú nemur hana

innan um aðfluttar setningar

annarlegar formúlur

óljós hugtök

í ótyggjanlegum sinum

eitraðri bensíngufu

hnúðum undir húð (28)

Tómas tekur fyrir afar afmarkað efni, þetta er ekki ein af þeim ljóðabókum sem langar að fanga allan heiminn, og þar með verður heildarmyndin góð þótt einföld sé. Þótt efniviðurinn sé kannski frekar einfaldur er það alls ekki þannig að verkið í heild sé einfalt eða á einhvern hátt ómerkilegt. Nóg af hugmyndum er hægt að slengja fram innan þessa ramma sem vekja eftirtekt lesandans, nóg af myndum sem hægt er að draga upp. Skáldið hefur líka gott vald á tungumálinu og beitir því á skemmtilegan hátt svo úr verða eftirminnilegar ljóðlínur.

Umframframleiðsla er ljómandi vel heppnuð frumraun, afmörkuð og öguð en þó frjó og áleitin. Það verður spennandi að sjá hvað fleira Tómas hefur fram að færa þegar fram líða stundir.

Ragnheiður Birgisdóttir