Grímur á nýju skurðstofunni hjá Kreativ Dental í Búdapest.
Grímur á nýju skurðstofunni hjá Kreativ Dental í Búdapest. — Morgunblaðið/Baldur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tannlæknastofan Kreativ Dental í Búdapest mun bjóða Íslendingum upp á skurðaðgerðir á nýrri og fullbúinni skurðstofu.

Tannlæknastofan Kreativ Dental í Búdapest hefur frá árinu 2016 þjónustað um 3.500 viðskiptavini frá Íslandi. Grímur Axelsson, umboðsmaður stofunnar á Íslandi, sýndi ViðkiptaMogganum á dögunum nýja skurðstofu félagsins í Búdapest sem verði m.a. markaðssett á Íslandi.

Innan skamms verði Íslendingum m.a. boðið upp á liðskiptaaðgerðir sem sé mjög spennandi nýjung. Hversu fljótt ráðist af framgangi faraldursins. Þá verði boðið upp á háls-, nef- og eyrnaaðgerðir, og almennar eins dags skurðaðgerðir, en framboðið verði kynnt síðar.

Umsvifin aukist ár frá ári

Síðan Kreativ Dental hóf að selja Íslendingum tannlæknaþjónustu árið 2016 hafa fleiri tannlæknastofur í Búdapest fylgt í kjölfarið, líkt og rakið er í ViðskiptaMogganum í dag.

Meðal annars hafa Hjalti Garðarsson og Hrafnhildur Sigurðardóttir opnað Íslensku Klíníkina í úthverfi Búdapest en þau áforma aukin umsvif vegna eftirspurnar.

Þá hefur tannlæknastofan Madenta þjónustað hundruð Íslendinga í kjölfar markaðssetningar á Íslandi og stofan Helvetic Clinics, sem er m.a. í eigu svissneskra fjárfesta, hefur einnig horft til Íslands.

Þessar fjórar stofur í Búdapest hafa þjónustað á sjötta þúsund Íslendinga frá árinu 2016 en kórónuveiran setti strik í reikninginn. Nú eru þau viðskipti að hefjast á ný en meðferð getur kallað á nokkrar utanferðir.