[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur S. Blöndal baldurb@mbl.is Reykjavíkurborg lagði í gær fram fjárhagsáætlun auk fimm ára áætlunar til ársins 2026. Í henni er gert ráð fyrir áframhaldandi halla á rekstri A-hluta borgarsjóðs til ársins 2022. Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn, segir rekstrarkostnaðinn vera óeðlilega háan og spáir því að skuldir borgarinnar fari upp í hálfa billjón króna.

Baldur S. Blöndal

baldurb@mbl.is

Reykjavíkurborg lagði í gær fram fjárhagsáætlun auk fimm ára áætlunar til ársins 2026. Í henni er gert ráð fyrir áframhaldandi halla á rekstri A-hluta borgarsjóðs til ársins 2022. Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn, segir rekstrarkostnaðinn vera óeðlilega háan og spáir því að skuldir borgarinnar fari upp í hálfa billjón króna.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs og borgarfulltrúi Viðreisnar, segir þessar staðhæfingar Eyþórs ósannar: „Borgin er sannarlega skuldsettari en við vorum í byrjun árs 2019 en miðað við aðstæður teljum við okkur bara vera á nokkuð góðum stað. Við erum með gríðarlegar eignir í borginni og þær eru náttúrulega alltaf á móti skuldunum. Fyrirsagnir í blöðunum um að borgin skuldi 400 milljarða er í versta falli röng en sérstaklega er hún nú misvísandi þar sem borgin skuldar enga 400 milljarða, þar er verið að draga saman bæði skuldir og skuldbindingar sem er ekki sami hluturinn. Þannig að það þarf að rýna í það betur til að vita hver staðan sé.“

Hún segir áhrif hruns ferðamannaiðnaðarins á efnahaginn hafa skilið borgina eftir með tvo kosti. Niðurskurð eða aukna innspýtingu fjármagns. Þau hafi valið þann seinni: „Við fórum þá leið eins og ríkisstjórnin og fjölmargar aðrar borgir á Norðurlöndunum gerðu. Í fyrra gerðum við 10 ára fjármálasýn og höfum verið að fylgja henni mjög skýrt núna,“ segir Þórdís. Fjárhagur borgarinnar sé varnarsigur:

„Við erum að minnka lántöku borgarinnar miðað við áætlun um 9 milljarða ef ég man rétt á þessu ári og um 3 milljarða á því næsta miðað við þá áætlun sem við settum í fyrra.“

Ekki sjálfbær skuldsetning

Efnahagslegar afleiðingar heimsfaraldurs skýra ekki skuldavanda borgarinnar að mati Eyþórs Arnalds: „Borgin er með hærri tekjur á þessu ári heldur en í fyrra þannig að tekjurnar hafa ekki minnkað, vandi borgarinnar er ekki tekjusamdráttur, það er alveg á hreinu, það er einfaldlega eytt meiru heldur en aflað er. Þessi skuldsetning er náttúrulega ekki sjálfbær. Það getur enginn haldið því fram að stöðug skuldsetning í gegnum góðæri og efnahagssveiflur í báðar áttir sé góð. Það sem vekur líka athygli er að það er ekki gert ráð fyrir ýmsu sem er líklegt að verði. Því geta þessar skuldir farið í 500 milljarða, þær voru 299 milljarðar þegar meirihlutinn er myndaður og þá átti að borga niður skuldir í 250 milljónir.“

Að mati Eyþórs er tímabært að borgin selji ýmsar eignir sínar og bendir hann á ýmsar leiðir til þess: „Í fyrsta lagi aðhald í rekstri sem er ekki til og í öðru lagi að selja eignir sem eru ekki hluti af venjulegum rekstri borgarinnar. Malbikunarstöð og fjarskiptafyrirtæki eru það ekki.“

Opin fyrir sölu eigna

Viðreisn er að sögn Þórdísar opin fyrir ýmsum af þeim hugmyndum sem Eyþór nefnir: „Það stendur nú í meirihlutasáttmálanum okkar að við viljum skoða kosti þess og galla að selja malbikunarstöðina um leið og við höfum fundið henni nýja lóð. Svo við höfum alltaf verið fylgjandi því. Þegar við fórum af stað fyrir fjórum árum síðan, þessi meirihluti, ákváðum við að halda planinu sem sett var upp með Orkuveitunni eftir hrun. Nú eru OR og hennar undirfyrirtæki komin á góðan rekspöl þannig að mér finnst ekki óeðlilegt á næsta ári og yfir næstu kosningar að þá verði það skoðað hvernig planið gerði sig, hún segir eðlilegt að skoða það á nokkurra ára fresti.“