Anna Þórdís Olgeirsdóttir fæddist 19. september 1956 á Skógarströnd. Hún lést þann 19. október 2021 á dvalarheimilinu Höfða.

Foreldrar hennar eru Arndís Daðadóttir, fædd 1925, og Olgeir Þorsteinsson, fæddur 1917. Olgeir lést árið 2016 en Arndís býr á hjúkrunarheimilinu Höfða.

Alsystir Önnu Þórdísar er Sigrún Olgeirsdóttir, fædd 1946.

Samfeðra systur eru Hanna Olgeirsdóttir, fædd 1939, og Ósk Maren Guðlaugsdóttir, fædd 1948.

Anna Þórdís eignaðist eina dóttur, Kristínu Margréti Gísladóttur, fædda 1975. Faðir hennar heitir Gísli Þórðarson, fæddur 1944.

Kristín Margrét er gift Júlíusi Steinari Heiðarssyni, f. 1974. Þau eiga þrjú börn, Alex Þór, fæddan 2004, Andra Tý, fæddan 2006, og Söru Margréti, fædda 2015.

Anna lauk grunnskólagöngu í Laugagerðisskóla. Síðar fór hún í Húsmæðraskólann á Staðarfelli.

Anna Þórdís vann ýmis störf um ævina. Við fiskvinnslu á Arnarstapa, almenn störf á Hótel Sögu, mötuneytisstörf, við aðhlynningu og heimilishjálp hjá Akraneskaupstað.

Anna Þórdís greindist með MS-sjúkdóminn árið 2016 en var þó búin að ganga með sjúkdóminn í 35 ár eða lengur.

Útför hennar fór fram 2. nóvember 2021.

Önnu Olgeirsdóttur kynntist ég fyrst þegar hún varð barnsmóðir bróður míns og þau eignuðust saman dótturina Kristínu Margréti. Þrátt fyrir að Anna og bróðir minn, barnsfaðir hennar rugluðu ekki reytum saman var sambandið við mæðgurnar gott, þökk sé Önnu fyrir það. Hún hlúði að tengslum við okkur fjölskylduna, við fengum að kynnast, njóta samvista og vera með í uppvexti Kristínar. Þau tengsl og kynni vöruðu alla tíð og í okkar huga var Anna ein af fjölskyldunni okkar.

Anna var létt í lund, var hláturmild og hafði gott skopskyn. Hún var blíð og umhyggjusöm og sýndi það í verki. Hún hugsaði um háaldraðra ömmu mína og Alla, fullorðins sonar hennar, sem var þroskaskertur því hún var ráðskona á heimili þeirra á Ölkeldu um árabil. Með henni var dóttirin, Kristín Margrét, sem gekk í grunnskóla sveitarinnar og gat notið samvista við afa og ömmu og annað frændfólk í fjölskyldunni. Anna sýndi ömmu og Alla einstaka aðstoð og umhyggju að öllu leyti og hefur fjölskylda mín ætíð verið þakklát fyrir það.

Elsku Kristín Margrét og fjölskylda; Innileg samúðarkveðja. Megi minning góðrar konu lifa.

Signý Þórðardóttir.