Gluggarnir eru engin smásmíði, um 10 metrar á hæð, hver um sig.
Gluggarnir eru engin smásmíði, um 10 metrar á hæð, hver um sig.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Höfuðborg Champagne-héraðs í Frakklandi er Reims. Í hjarta hennar stendur gríðarmikil dómkirkja, Notre-Dame de Reims sem stundum er sögð smættuð útgáfa af nöfnu sinni í París. Sú lýsing er þó villandi enda mannvirkið annað en smátt eða lítilmótlegt.

Höfuðborg Champagne-héraðs í Frakklandi er Reims. Í hjarta hennar stendur gríðarmikil dómkirkja, Notre-Dame de Reims sem stundum er sögð smættuð útgáfa af nöfnu sinni í París. Sú lýsing er þó villandi enda mannvirkið annað en smátt eða lítilmótlegt.

Núverandi bygging var í byggingu frá 13. öld og fram á þá 15. Er hún hönnuð í hágotneskum stíl og á grunni eldri kirkja, þeirrar síðustu sem eyddist í miklum bruna árið 1210.

Ótrúlegt en satt virtust byltingarmennirnir á 18. öld vilja hlífa byggingunni og það var ekki fyrr en í hildarleik fyrri heimsstyrjaldar sem gríðarlegar skemmdir urðu á henni. Hún hafði hins vegar djúpstæða merkingu í huga Frakka og var hún endurreist með miklum erfiðismunum um miðja síðustu öld.

Konungar krýndir

Byggingin og fyrirrennarar hennar hafa sérstaka þýðingu í franskri sögu enda hafa flestir konungar Frakklands verið krýndir þar. Sú hefð tengist þeirri staðreynd að heilagur Remigíus skírði Klóvís Frankakonung þar, sennilega árið 496 e.Kr. Klóvís er þakkað það stórvirki að hafa sameinað alla þjóðflokka Franka undir einni stjórn. Í hinni miklu dómkirkju eru fjölmargir steindir gluggar og margir þeirra stórkostlegir.

Má þar m.a. nefna ótrúleg listaverk Marc Chagall sem sett voru upp í einni af hliðarkapellum kirkjunnar árið 1974.Um miðja síðustu öld tóku kampavínshúsin og ræktendurnir í Champagne sig saman, ásamt kampavínsbirgjum víða um heiminn og fjármögnuðu gerð gluggasetningar í suðurhluta kirkjunnar þar sem helsta verkþekking héraðsins er hyllt og tignuð, víngerðin sem er samtvinnuð allri menningu og trú þeirra sem svæðið byggja.

Voru listamennirnir Jacques Simon og dóttir hans Brigitte Simon-Marcq til þess að færa þessar óskir í form steindra glugga. Sótti hann efnivið frásagnarinnar til víngerðarinnar sem slíkrar, ræktunarstarfsins, uppskerutíðar, víngerðar og starfs kjallarameistaranna. Tengir hann það allt saman við gróður jarðar, sem er frumforsenda allrar víngerðar, sögur Biblíunnar og frelsarann sjálfan. Brúðkaupið í Kana er viðfangsefni hans, síðasta kvöldmáltíðin og sögulegum persónum Biblíunnar, t.d. Jóhannesi skírara, verndardýrlingi kjallarameistaranna, bregður fyrir. Það sama má segja um Dom Pérignon, munkinn fræga sem sagður er hafa mótað þær gæðakröfur sem enn móta víngerðina í Champagne.

Dómkirkjan er á heimsminjaskrá UNESCO og hefur verið frá árinu 1991. Hún er merkur sögustaður sem vert er að sækja heim. Gluggar þessir draga ekki úr ástæðu til þess að koma þar við. ses@mbl.is