Landsliðsæfing Létt var yfir Ómari Inga Magnússyni og öðrum á æfingunni í Fossvoginum í gær.
Landsliðsæfing Létt var yfir Ómari Inga Magnússyni og öðrum á æfingunni í Fossvoginum í gær. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Kristján Jónsson kris@mbl.is Magdeburg gengur allt í haginn á þessu keppnistímabili í þýska handknattleiknum eins og af og til hefur komið fram hér í blaðinu. Liðið hefur unnið fyrstu leikina í þýsku bundesligunni og hefur eins stigs forskot á Füchse Berlín. Magdeburg undirstrikaði styrk sinn á dögunum með því að vinna Kiel á útivelli en með liðinu leika landsliðsmennirnir Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon.

Handbolti

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Magdeburg gengur allt í haginn á þessu keppnistímabili í þýska handknattleiknum eins og af og til hefur komið fram hér í blaðinu. Liðið hefur unnið fyrstu leikina í þýsku bundesligunni og hefur eins stigs forskot á Füchse Berlín. Magdeburg undirstrikaði styrk sinn á dögunum með því að vinna Kiel á útivelli en með liðinu leika landsliðsmennirnir Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon.

„Ég er ánægður með þetta og við höfum spilað vel en það eru bara níu leikir búnir af 34. Það er því mikið eftir og langt í land,“ sagði Ómar Ingi þegar Morgunblaðið ræddi við hann á landsliðsæfingu í gær. Hann bendir á að hjá Magdeburg hafi fólk orðið fyrir vonbrigðum vegna þess að liðið blandaði sér þá ekki í baráttuna um þýska meistaratitilinn.

„Þegar við höfðum spilað átta leiki í fyrra þá vorum við með fjóra sigra og fjögur töp minnir mig. Ég er því mjög sáttur eins og er, en eins og ég segi er tímabilið í þýsku deildinni hálfgert maraþon. Á síðasta tímabili var stefnan að vera í toppbaráttunni og það voru vonbrigði að geta ekki klárað dæmið í nokkrum leikjum á síðasta tímabili þar sem við töpuðum óþarflega mörgum stigum. Stigum sem við hefðum ekki átt að tapa miðað við getuna í liðinu. Mér finnst við vera að leiðrétta það á vissan hátt. Spilamennskan er svipuð en þegar liðið spilar illa þarf að reyna að ná í stigin með einhverjum hætti. Í síðasta leik vorum við til dæmis frekar slappir en náðum samt að vinna. Það er stórt og það gera bestu liðin. Einhvern veginn finna þau leiðir til að klára málið.“

Hafa mikla trú á liðinu

Árið hefur verið gott hjá Magdeburg þótt liðið hafi viljað hafna ofar í deildinni eins og Ómar segir. Liðið sigraði í Evrópudeildinni í maí og fylgdi því eftir með sigri í heimsmeistarmóti félagsliða í Sádi-Arabíu í október. Væntanlega hefur það gefið mönnum aukinn kraft að leggja þar að velli lið eins og Barcelona og Álaborg.

„Algerlega, en við vissum líka að við myndum vinna þá ef okkur tækist að spila vel. Við höfum það mikla trú á liðinu. Við vitum nákvæmlega hvað við getum en vitum líka að við getum verið lélegir ef við mætum ekki rétt undirbúnir í leiki.“

Mikil hefð er fyrir handbolta í Magdeburg og fyrir tæpum tveimur áratugum síðan fór liðið í hæstu hæðir undir stjórn Alfreðs Gíslasonar. Liðið lenti í niðursveiflu í nokkur ár en hefur nú náð vopnum sínum. Finnur Ómar fyrir miklum meðbyr í baklandinu nú þegar vel gengur?

„Já já, það dýrka allir handbolta þarna. Stemningin í höllinni er frábær og hún er yfirleitt full eða svo gott sem þegar ekki eru samkomutakmarkanir úr af faraldrinum. Það er talað um að þetta sé einn erfiðasti útivöllurinn að koma á. Við höfum náð í tvo titla á þessu ári og fólk er því jákvætt.“

Atkvæðamikill sem fyrr

Ómar Ingi varð markakóngur í Þýskalandi á síðasta keppnistímabili. Er mikil pressa sem fylgir því á þessu keppnistímabili?

„Ég er fyrst og fremst sjálfur með væntingar varðandi mína frammistöðu. Ég pæli ekki of mikið í þessu en maður finnur auðvitað fyrir svekkelsi hjá fólki þegar maður á ekki góðan dag. En líklega er þá svekkelsið aðallega hjá mér. Ég reyni að spila út frá mínum haus og mínum væntingum. Annað er erfitt og gengur ekki til lengri tíma,“ sagði Ómar Ingi Magnússon enn fremur í samtali við Morgunblaðið.

Á þessu tímabili í þýsku deildinni er Ómar sem stendur með 56 mörk eftir níu leiki. Enginn hefur skorað fleiri mörk, en þeir Nicklas Ekberg hjá Kiel og Marcel Schiller hjá Göppingen hafa einnig skorað 56 mörk. Ómar er hins vegar einnig á meðal efstu manna yfir stoðsendingar í deildinni. Þar er hann í þriðja sæti með 40 stoðsendingar á samherjana til þessa. Efstur er Jim Gottfridsson hjá Flensburg með 47 stoðsendingar.