[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á fyrstu níu mánuðum ársins var útflutningsverðmæti loðnuafurða tæplega 21 milljarður króna. Þar af nemur útflutningsverðmæti hrogna 12,3 milljörðum og hefur aldrei verið meira.

Á fyrstu níu mánuðum ársins var útflutningsverðmæti loðnuafurða tæplega 21 milljarður króna. Þar af nemur útflutningsverðmæti hrogna 12,3 milljörðum og hefur aldrei verið meira. Útflutningur á heilfrystri loðnu í landi skilaði um 6,6 milljörðum, sem einnig er met. Þetta er athyglisvert í því ljósi að loðnukvótinn síðasta vetur var ríflega 70 þúsund tonn, sem telst ekki mikið í sögulegu samhengi loðnuveiða.

Mikið til Kína og Japans

Um útflutningsverðmæti sjávarafurða er fjallað í fréttabréfi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Þar kemur fram að á fyrstu níu mánuðum ársins hafa loðnuafurðir verið fluttar út til Asíu fyrir um 13,8 milljarða króna, sem er met. Þar af fóru loðnuafurðir til Kína fyrir 4,3 milljarða og til Japans fyrir 4,2 milljarða.

Ómögulegt er að nota síðustu loðnuvertíð til þess að spá um þá næstu, segir í fréttabréfi SFS. Loðnubrestur undangengin tvö ár og lítill loðnukvóti í vetur sem leið hafa haft veruleg áhrif á verð sem fékkst fyrir afurðir frá síðustu vertíð. „Sú loðnuvertíð sem er framundan er mikil óvissuferð. Óvissuþættirnir eru margir, eins og veiðigeta flotans, veiðanleiki loðnunnar, gæftir og að lokum vinnslugeta verksmiðja,“ segir í fréttabréfinu.

Á fyrstu níu mánuðum ársins er útflutningsverðmæti sjávarafurða í heild komið í rúma 213 milljarða króna. Það er rúmlega 8% aukning í krónum talið miðað við sama tímabil í fyrra. Ef verðmæti loðnuafurða er undanskilið stendur útflutningsverðmætið nánast í stað á milli ára. Útflutningsverðmæti afurða síldar, makríls og kolmunna nemur samanlagt tæpum 21 milljarði, en það er á pari við útflutningsverðmæti loðnuafurða. aij@mbl.is