Systur Margrét Júlía Reynisdóttir og Kristín Erla Pétursdóttir leika systurnar Kötu og Birtu í kvikmyndinni Birta sem sýningar hefjast á í vikunni.
Systur Margrét Júlía Reynisdóttir og Kristín Erla Pétursdóttir leika systurnar Kötu og Birtu í kvikmyndinni Birta sem sýningar hefjast á í vikunni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.is Birta , nýjasta kvikmynd leikstjórans Braga Þórs Hinrikssonar, verður frumsýnd hér á landi á morgun og verður hún jafnframt lokamynd Barnakvikmyndahátíðar Bíós Paradísar í ár.

Viðtal

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Birta , nýjasta kvikmynd leikstjórans Braga Þórs Hinrikssonar, verður frumsýnd hér á landi á morgun og verður hún jafnframt lokamynd Barnakvikmyndahátíðar Bíós Paradísar í ár. Fer myndin í framhaldi í almennar sýningar í kvikmyndahúsum um allt land og verður aðgengileg í Sjónvarpi Símans Premium frá og með 25. nóvember.

Í Birtu segir af samnefndri stúlku sem er 11 ára og leikin af Kristínu Erlu Pétursdóttur. Birta á yngri systur, Kötu, sem Margrét Júlía Reynisdóttir leikur. Segir í myndinni af því er Birta tekur málin í sínar hendur eftir að hafa heyrt móður sína, sem leikin er af Sölku Sól Eyfeld, segja í hálfkæringi að hún muni ekki geta haldið jól vegna peningaleysis. Hefst þá mikið ævintýri. Handrit myndarinnar skrifaði Helga Arnardóttir, unnusta Braga, og byggði á eigin æskuminningum að hluta.

Birta var heimsfrumsýnd á Ítalíu í júlí á hátíðinni Gifoni sem er barnamyndahátíð og ein af þeim stærri sinnar tegundar í heiminum. Bragi segir viðtökur þar hafa verið góðar og tengsl myndast á henni við aðrar hátíðir. Og hinar ungu leikkonur hafa báðar hlotið verðlaun fyrir frammistöðu sína í myndinni. Margrét Júlía, sem er sjö ára að verða átta, var valin besta unga leikkonan á KIKI-Fe, þýskri barnakvikmyndahátíð, og Kristín Erla, 12 ára, var valin besta leikkonan á barnamyndahátíðinni Schlingen í síðasta mánuði.

Bragi segir frábært að leikkonurnar ungu hafi hlotið verðlaun enda hafi þær staðið sig afar vel. Hann hélt prufur fyrir kvikmyndina og segist hafa fengið ábendingar um hæfileikarík börn sem kæmu til greina. Stúlkurnar hafi rúllað prufunum upp.

Frá sjónarhorni barnanna

Af söguþræðinum að dæma er Birta jólamynd og segir Bragi að Birta trúi þeim orðum móður sinnar, sem henni var ekki ætlað að heyra, að hana vanti hundrað þúsund krónur til að geta haldið jólin. Hún lætur mömmu sína ekki vita af því að hún ætli að bjarga jólunum og útvega henni peninga.

Bragi segir myndina fyrst og fremst fallega kvikmynd með jólaboðskap. „Ég held að okkur hafi tekist mjög vel til að gera mynd frá sjónarhorni barnanna og gera það trúverðugt því þau eigna sér hlutverkin á svolítið óvenjulegan máta,“ segir Bragi. Hann telur að vel hafi tekist til að segja söguna með augum barnanna.

Bragi segir erfitt að láta börn bera uppi heila kvikmynd líkt og margir þekki í kvikmyndabransanum. „Það heyrir til undantekninga að það takist svona vel til,“ segir Bragi og að leikkonurnar ungu skilji hlutverk sín í þaula og fari með áhorfendur í mikið ferðalag. Salka Sól var þeim til halds og trausts í hlutverki móðurinnar og segir Bragi að allir statistar hafi auk þess verið vanir leikarar, þeirra á meðal Helga Braga og Margrét Ákadóttir en sú síðarnefnda er amma Margrétar Júlíu.

Bragi býr að mikilli reynslu af því að leikstýra börnum, leikstýrði fjölda barna í Víti í Vestmannaeyjum og sjónvarpsmyndinni Klukkur um jól . Hann telur einn af styrkleikum sínum að leikstýra börnum og segir að svo virðist sem hann nái vel til þeirra.

Börn hafa frá mörgu að segja

Bragi telur of fáar íslenskar kvikmyndir og sjónvarpssyrpur gerðar fyrir börn og fjölskyldur. „Víti í Vestmannaeyjum er í raun síðasta barnakvikmyndin sem var gerð, árið 2018,“ bendir hann á. Hvað veldur sé erfitt að segja, mögulega telji kvikmyndagerðarmenn að erfiðara sé að gera myndir með börnum en það sé þó ekki hans reynsla. „Mér finnst persónulega vera rosalega margar flottar sögur þarna sem hægt er að sækja, úr hugarheimi og tilfinningalífi barna. Þau hafa fullt að segja og þetta eru áhorfendur sem flykkjast að skjánum þegar þar eru kvikmyndir sem fjalla um þeirra samtíma og þau sjálf í þeirra umhverfi. Það erum við vissulega að gera í Birtu ,“ segir Bragi. Markmiðið hafi verið að gera trúverðuga sögu um 11 ára stelpu sem lifi lífi sem flestir geti samsvarað sig við. „Við vitum að myndin er rosalega vel heppnuð og getum ekki beðið eftir að frumsýna hér á Íslandi,“ segir Bragi sem leikstýrði þremur myndum um Sveppa og félaga hans á sínum tíma sem allar hlutu mikla aðsókn líkt og Víti í Vestmannaeyjum . Hann telur húmor, gleði og síðast en ekki síst birtu lykilinn að þeim vinsældum.

Hvað næsta verkefni varðar segist Bragi ætla að taka algjöra U-beygju og leikstýra sálfræðitrylli. Meira má ekki segja um þá kvikmynd að svo stöddu, að sögn Braga, en spennandi er það verkefni vissulega.