„Stigamat getur almennt ekki eitt og sér falið í sér endanlega niðurstöðu eða tæmandi forsendur fyrir því hver teljist hæfastur til að gegna tilteknu starfi,“ segir í nýju áliti umboðsmanns Alþingis í kjölfar frumkvæðisathugunar hans á...

„Stigamat getur almennt ekki eitt og sér falið í sér endanlega niðurstöðu eða tæmandi forsendur fyrir því hver teljist hæfastur til að gegna tilteknu starfi,“ segir í nýju áliti umboðsmanns Alþingis í kjölfar frumkvæðisathugunar hans á stigagjöf í ráðningarmálum opinberra starfsmanna.

Umboðsmaður hefur verið með stigamatið til skoðunar um nokkurra ára skeið og hafði ítrekað bent á að umrædd aðferð fæli í sér ákveðnar takmarkanir við ráðningar og skipanir í störf og embætti.

Umboðsmaður leggur fram sex ábendingar í áliti sínu. Í fyrsta lagi að ábyrgð stjórnvalds standi óhögguð þó notast sé við tölulegt stigamat við mat á hæfni umsækjenda. Sýna þarf fram á að „heildstæður efnislegur samanburður hafi farið fram á raunverulegri starfshæfni umsækjenda með vísan til málefnalegra sjónarmiða“. Aðkoma ráðningarfyrirtækis haggar sömuleiðis ekki umræddri ábyrgð. Í öðru lagi þarf að gæta málefnalegra sjónarmiða og jafnræðis við tölulegan samanburð á hæfni umsækjenda. Í þriðja lagi þarf að gæta þess að stigamat sé að jafnaði aðeins til leiðbeiningar, það feli í eðli sínu í sér einfaldað og ónákvæmt líkan af þeim eiginleikum sem mynda hæfni fólks. Í fjórða lagi verði að gera ráð fyrir einhverjum skekkjumörkum þegar heildarstig séu borin saman. Ef mjótt er á munum milli fólks verði stjórnvald að vera reiðubúið að skýra hvað ráði niðurstöðu um ráðningu. Í fimmta lagi geti stigamat ekki sjálfkrafa falið í sér endanlega niðurstöðu eða tæmandi skýringu á forsendum ráðningar eða skipunar.

Að síðustu þurfi að gæta að rannsóknarskyldu og andmælarétti umsækjenda, samræmi í málsmeðferð og huga að skráningu í ráðningarferli. hdm@mbl.is