Það er makalaust hvernig lokanir vegna framkvæmda í höfuðborginni dragast ítrekað úr hömlu

Lítil frétt birtist í Morgunblaðinu í gær um að verklok við Litluhlíð myndu frestast til næsta árs. Litlahlíð er lítill götustubbur, sem liggur frá Eskitorgi upp á Bústaðaveg og skiptir kannski ekki sköpum um flæði umferðar í borginni, en gegnir þó sínu hlutverki.

Litlahlíð hefur nú verið lokuð mánuðum saman vegna framkvæmda. Þeim átti að ljúka í þessum mánuði, en nú er ráðgert að opnað verði fyrir umferð bíla, gangandi vegfarenda og hjólreiðamanna um miðjan desember, þótt framkvæmdinni verði ekki að fullu lokið þá.

Vitaskuld geta verk alltaf tafist, en það er þó furðu algengt að það gerist. Ekki er langt síðan ítrekaðar tafir á framkvæmd á Hverfisgötu vöktu mikla reiði veitingamanna, verslunareigenda og Þjóðleikhússins. Þar var rekstri beinlínis stefnt í hættu.

Svo er annað mál hvað framkvæmdir geta staðið lengi á tilteknum stað. Litluhlíð var lokað í upphafi sumars. Um svipað leyti hófst mikill uppgröftur á Vesturgötu þar sem Bræðraborgarstígur endar. Þar hefur allt verið lokað mánuðum saman.

Þá virðast verktakar geta tekið götur í gíslingu árum saman. Mörg ár eru síðan annarri akrein Vonarstrætis milli Templarasunds og Lækjargötu var lokað vegna framkvæmda við nýtt hótel og útilokað að allan þann tíma hafi aldrei verið hægt að hleypa umferðinni á aftur.

Þetta eru aðeins nokkur dæmi um það hvernig lokanir vegna framkvæmda dragast úr hömlu og þá eru líka ótaldar allar holurnar, sem grafnar eru hér og þar til að laga lagnir og rör og fá svo að gapa við vegfarendum svo dögum og vikum skiptir þegar hægt væri að klára málið af röggsemi.