Fyrir skemmstu var tilkynnt að samkvæmt Mercer-lífeyrisvísitölunni væri íslenska lífeyrissjóðakerfið það sterkasta í heiminum. Er vísitalan reiknuð út frá nægjanleika, sjálfbærni og trausti.

Fyrir skemmstu var tilkynnt að samkvæmt Mercer-lífeyrisvísitölunni væri íslenska lífeyrissjóðakerfið það sterkasta í heiminum. Er vísitalan reiknuð út frá nægjanleika, sjálfbærni og trausti. Lengi hefur það verið vitað að kerfið hér heima væri sterkt en vísitalan staðfestir að það er í fremstu röð þótt sjálfsagt sé það ekki gallalaust.

Eitt stærsta verkefni kerfisins á komandi árum er að auka hlutdeild erlendra eigna sjóðanna og hefur því verið lýst yfir að heppilegt væri að u.þ.b. helmingur þess væri vistaður erlendis. Er það bæði hugsað með tilliti til áhættustýringar en einnig er viðurkennt að stærð kerfisins, sem er margföld þjóðarframleiðslan, geti skekkt markaði og þannig haft óæskileg áhrif á íslenskt hagkerfi.

Í gær var því lýst yfir að 13 sjóðir hyggist fjárfesta fyrir 580 milljarða króna í verkefnum sem tengjast hreinni orku og umhverfisvænum lausnum fram til ársins 2030. Það er metnaðarfullt markmið og mun vonandi styrkja stöðu sjóðanna og gera þeim kleift að rísa undir þeim skyldum sem á þeim hvíla lögum samkvæmt.

En í þessum fjárfestingum er óhjákvæmilegt annað en að snert verði á innviðum ýmiss konar í raforkuframleiðslu og öðru sem tengist grænum orkugjöfum. Íslenskir fjárfestar, íslenskur almenningur, munu þá með beinum eða óbeinum hætti fjárfesta í mikilvægum innviðum innan lands og utan. Allt er það hið eðlilegasta mál.

Sú staðreynd ætti hins vegar að setja í samhengi það undarlega upphlaup sem nú hefur orðið vegna sölu einkafyrirtækisins Símans á einkafyrirtækinu Mílu til fjárfesta með erlent ríkisfang. Hafa jafnvel dagfarsprúðir menn stokkið til og kallað eftir þjóðnýtingu á Mílu. Það sé nauðsynlegt því þar sé um innviðafyrirtæki að ræða. Þegar innviðir eru annars vegar skiptir regluverkið máli. Sé það í lagi er erlend fjárfesting af hinu góða, rétt eins og fjárfesting íslenskra lífeyrissjóða á erlendri grundu.