[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
* Antonio Conte hefur verið ráðinn knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarfélagsins Tottenham. Ítalski stjórinn skrifaði undir átján mánaða samning við félagið sem gildir út tímabilið 2023 með möguleika á framlengingu.

* Antonio Conte hefur verið ráðinn knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarfélagsins Tottenham. Ítalski stjórinn skrifaði undir átján mánaða samning við félagið sem gildir út tímabilið 2023 með möguleika á framlengingu. Conte tekur við liðinu af Nuno Espírito Santo sem var rekinn á mánudaginn eftir nokkra mánuði í starfi en Santo tók við liðinu í sumar. Ítalski stjórinn ræddi við forráðamenn Tottenham um að taka við liðinu í sumar en viðræður sigldu í strand og Santo var að endingu ráðinn. Conte þekkir vel til á Englandi eftir að hafa stýrt Chelsea frá 2016 til ársins 2018 en hann gerði Chelsea að Englandsmeisturum árið 2017 og bikarmeisturum 2018.

* Edda Garðarsdóttir hefur framlengt samning sinn við knattspyrnudeild Þróttar í Reykjavík. Samningurinn er til næstu tveggja ára en Edda hefur verið aðstoðarþjálfari liðsins frá árinu 2019. Hún á að baki 172 leiki í efstu deild með KR og Breiðabliki en hún stýrði KR í efstu deild kvenna tímabilin 2016 og 2017.

*Knattspyrnumaðurinn Tómas Leó Ásgeirsson er genginn til liðs við Grindavík frá Haukum. Tómas, sem er 23 ára gamall, skrifar undir þriggja ára samning við Grindvíkinga en hann skoraði 13 mörk í 20 leikjum með Haukum í 2. deildinni í sumar.

Grindavík hafnaði í sjöunda sæti 1. deildarinnar á síðustu leiktíð.

* Alex Þór Hauksson gerði sér lítið fyrir og skoraði tvívegis fyrir Öster þegar liðið vann 4:1-útisigur gegn Landskrona í sænsku B-deildinni í knattspyrnu í gær. Alex Þór hefur byrjað átta leiki fyrir Öster í sænsku B-deildinni á tímabilinu og skorað í þeim fjögur mörk. Alls hefur hann komið við sögu í 14 leikjum með liðinu á tímabilinu.

* Sepp Blatter , fyrrverandi forseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, og Michel Platini , fyrrverandi forseti Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA, hafa báðir verið ákærðir fyrir fjársvik og fleiri brot í Sviss. Saksóknarar í Sviss segja að Blatter hafi með ólögmætum hætti skipulagt millifærslu á tveimur milljónum svissneskra franka til Platini árið 2011. Blatter og Platini, sem hafa báðir hafnað því að hafa gert nokkuð rangt, munu þurfa að mæta fyrir rétt í Bellinzona í Sviss þar sem málaferlin fara fram.

* Knattspyrnumaðurinn Sergio Agüero , leikmaður Barcelona á Spáni, verður frá næstu mánuðina eftir að hafa greinst með óreglulegan hjartslátt. Agüero, sem er 33 ára gamall, fór af velli vegna öndunarerfiðleika í leik Barcelona og Alavés í spænsku 1. deildinni um síðustu helgi. Argentínski framherjinn hefur lítið spilað með Barcelona á tímabilinu en hann var að glíma við meiðsli þegar hann kom til félagsins á frjálsri sölu frá Manchester City í sumar. Spænska félagið reiknar með því að Agüero verði frá keppni í þrjá mánuði hið minnsta.