Þrjátíu þúsund ráðstefnuljón höfð að fíflum

Margt bendir til að vaxandi óþol sé vegna áróðursherferðarinnar um hamfarahlýnunina. Og það óþol er í báðar áttir. Vitað er að þeim sem hafa hvað best sett sig inn í fullyrðingaflauminn þykir sífellt minna til hans koma.

En eins var hitt áberandi á götum Glasgow-borgar að áköfustu trúnaðarmenn óttans um að mannkynið stefni viljandi í að steikja sjálft sig í hel, telja að viðbrögðin við veraldarvandanum séu ofin blekkingum og sýndarveruleika stjórnmálamanna. Það fór ekki fram hjá þessu velviljaða fólki að baráttan hafði ekki þokast hænufeti nær eftir Kyoto fyrir aldarfjórðungi. Og þó var sagt þá að engan tíma mætti missa!

Í París, fyrir fáeinum árum, var lofað að bæta fyrir brotinn tíma á meðan hitnað hafði undir jarðarbúum í tvo áratugi, án þess að þeir fyndu mun. Ísmagnið á Suðurskautinu hafði þó ekkert breyst og ekki gert í 10 þúsund ár þótt ýmsir hafi ekki gefið upp alla von um að það geti ekki lagast.

Enn er þó spilað út fullyrðingum um að allt sé komið á braut steikjandi endaloka, og meinta meginástæðu þess að vandinn sé heimatilbúinn hjá vondu fólki víðar en á Snæfellsnesi. Yfirskriftirnar sem eiga að duga sem sannindamerki eru gjarnan á þennan veg: „Vísindamenn segja...Vísindamenn fullyrða... Vísindamenn telja..“ Allar þessar yfirskriftir segja þó dapurlega lítið. Svo ekki sé minnst á að Sameinuðu þjóðirnar segja...En þegar betur er að gáð þá segja SÞ aðeins að framantaldir segi, telji, trúi og fullyrði.

Áðurnefndur sýndarskapur verður hins vegar hjálplegur þegar lögð er ofuráhersla á að fá helstu ríkisbubba heims til að mæta á staðinn með ávísanaheftið og fá í staðinn frádrátt frá skatti fyrir meginhluta af örlætinu.

Og þeir mæta á einkaþotum í hundraðatali í þeim erindum. Forseti Bandaríkjanna fór til Rómar í fimm risaflugvélum og fundaði þar fyrst. Þegar hann fór á milli fundarsala í Róm sá bílalest 850 bifreiða um að fara með hann og félaga!

Jeff Bezos demókrati er í hópi ríkustu manna jarðar og sagður eiga 177 milljarða dollara, einn og sjálfur, eftir að hann skildi við frúna. Hann kom á einkaþotu sinni og sagði við gesti í Glasgow að eftir að hann lét skjóta sér í eldflaug út fyrir þyngdaraflið í tvær mínútur hefðu augu hans opnast fyrir því hve ósteiktur hnöttur af mannavöldum væri mikilvægur.

Síðan hefur hann skotið annarri flaug svo eldurinn stóð lengi aftur úr henni svo fimm góðvinir gætu í tvær mínútur sannfærst um að ekki væri góð hugmynd að stúta veðrinu með heimatilbúinni uppskrift. Og voru svo heiðraðir í Glasgow fyrir vikið og flugu því næst hver heim í sinni þotu.